Mál nr. 2/2017

Þriðjudagur, 17. júlí 2018

Hinn 23. mars 2018 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 2/2017. 

X

 

gegn
 

Y

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X, en A fer samkvæmt umboði með fyrirsvar hans fyrir nefndinni, hér eftir nefndur sóknaraðili og Y. hér eftir nefndur varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags. 22. júní 2017. Með tölvupósti nefndarinnar, dags. 26. október 2017, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með tölvupósti, dags. 13. nóvember 2017. Með tölvupósti nefndarinnar 16. nóvember var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda og var hún kunngerð með tölvupósti, dags. 24. nóvember 2017. Með bréfi nefndar, dags. 9. janúar sl., var varnaraðila gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og bárust þau nefndinni með tölvupósti, dags. 12. s.m.. Engin frekari gögn bárust og var málið tekið til meðferðar á fundi nefndarinnar þann 12. febrúar sl.. Í kjölfar fundar nefndar var þó ákveðið að kalla eftir ákveðnum upplýsingum og gögnum frá varnaraðila og bárust þau nefndinni þann 14. s.m.. Í kjölfar þess var málið tekið til úrskurðar.

 

II.
Málavextir

Sóknaraðili leigði bílaleigubíl af varnaraðila þann 25. desember 2016, viku síðar, eða þann 1. janúar 2017 tók sóknaraðili eftir því að ekki var unnt að loka glugganum á bílstjórahurðinni. Sóknaraðili hafði þá samband við varnaraðila sem skoðaði bifreiðina og reyndi án árangurs að koma glugganum í lag. Varnaraðili afhenti þá sóknaraðila aðra bifreið sem hann hafði til afnota fram að leiguskilum þann 5. janúar 2017. Þegar sóknaraðili skilaði bifreiðinni var honum afhentur reikningur vegna meints tjóns á fyrri bifreiðinni að fjárhæð 281.034 kr. Jafnframt heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi ollið tjóni á framrúðu seinni bifreiðarinnar og var áætlaður viðgerðarkostnaður 25.000 kr. Þess að auki skuldfærði varnaraðili 7.440 kr. af greiðslukorti sóknaraðila vegna bensínkostnaðar en sóknaraðili telur bifreiðina hafa verið full af bensíni við skil.  

Sóknaraðili fer fram á að varnaraðili endurgreiði honum skuldfærslu sem framkvæmd var á greiðslukorti hans að fjárhæð 313.474 kr.

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili gerir athugasemd við að þegar seinni bifreiðin var afhent þá hafi einungis verið handskrifuð athugasemd á leigusamninginn „glass problem“, án þess að tjónið væri tilgreint nánar. Sóknaraðili hafi auk þess ekki fengið neinar frekari upplýsingar á þessum tímapunkti. Sóknaraðili kveðst hafa mótmælt tjónakröfu varnaraðila strax við leiguskil. Þá hafi hann ekki kannast við að hurðin hafi fokið upp og neitar að bera ábyrgð á því tjóni sem bílaleigan heldur fram að bifreiðin hafi orðið fyrir, enda kveðst hann allan tímann hafa farið varlega. Sóknaraðili telur ósannað að bifreiðin hafi tjónast á þeim dögum sem hann hafi verið með hana til umráða. Fyrstu viðbrögð starfsmanns varnaraðila við skoðun á bifreiðinni og viðleitni hans til að koma glugganum í lag benda til þess að meint tjón hafi ekki verið sjáanlegt á þeim tímapunkti og kveður sóknaraðili hurðina hafa verið í lagi. Meint tjón hafi aðeins komið í ljós eftir að búið var að skrúfa niður rúðuna. Þá liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um hvenær rúðan var síðast skrúfuð niður og kveðst sóknaraðili ekki muna eftir því að hafa skrúfað hana niður á meðan bifreiðin var í hans umsjá, fyrir utan þetta eina skipti. Þá bendir sóknaraðili á að einstaklega gott og stillt hafi verið í veðri þann dag og því útilokað að hurðin hafi fokið upp. Þá gerir sóknaraðili athugasemd við að framlagður reikningur réttingarverkstæðisins sé dagsettur 3. janúar 2017. Það megi telja útilokað að viðgerð á bifreið sem staðsett hafi verið á Hornafirði að kvöldi 1. janúar 2017 hafi verið lokið þann 3. janúar 2017, einkum þegar málningarvinnu er þörf. Kröfubréf varnaraðila á hendur sóknaraðila sé þá dagsett 1. janúar 2017 sem veki enn meiri furðu.

Sóknaraðili hafnar kröfu varnaraðila á viðgerð vegna framrúðutjóns á seinni bifreiðinni. Hann hafi ekki orðið var við neinar skemmdir og telur tilvist slíkra ósannað. Þá kannist hann ekki við að hafa fengið stein í rúðuna og það er því ósannað að rúðan hafi skemmst á meðan hann var með bifreiðina til umráða. Að mati sóknaraðila er ekki leyfilegt að láta leigutaka greiða fyrir áætlaðan viðgerðarkostnað. Það sé þannig ósannað að viðgerðin hafi farið fram, að kostnaðurinn hafi verið 25.000 kr. og að rúðan hafi skemmst á þeim tíma sem sóknaraðili var með bifreiðina til umráða. Jafnframt bendir sóknaraðili á að rúðutrygging sé innifalin í mörgum ábyrgðartryggingum og þessi framkoma kyndi undir slæmu orðspori bílaleiga.

Að lokum gerir sóknaraðili athugasemd við þá kröfu varnaraðila að rukka hann fyrir bensínnotkun að fjárhæð 7.440 kr. Sóknaraðili telur þennan kostnað ósannaðan, enda hafi varnaraðili ekki lagt fram neina kvittun fyrir bensínkaupum og þannig ósannað að þau hafi farið fram. Sóknaraðili kveðst hafa tekið bensín á bifreiðina rétt áður en hann skilaði henni til varnaraðila. Ef bensínkaupin eru tilkomin vegna fyrri bifreiðarinnar þá hafnar sóknaraðili því einnig, enda beri hann enga ábyrgð á því að rúðan hafi bilað og nauðsynlegt hafi verið að skipta bifreiðinni út. Hann kveður sig ekki heldur bera ábyrgð á óbeinum kostnaði sem hlýst af umræddu tjóni og ítrekar að engin kvittun fyrir bensínkaupunum liggi fyrir.

Að mati sóknaraðila þá hafa framlagðar ljósmyndir af bifreiðinni ekkert sönnunargildi, en engin mynd beri með sér að skemmdir hafi orðið á umræddri bifreið. Þannig sjáist á einni mynd númeraplata umræddrar bifreiðar og hinar tvær myndir sýni skemmdir á bifreið sem er að vísu í sama lit, en getur að öðru leyti verið allt önnur.

Þá gerir sóknaraðili athugasemd við viðbrögð varnaraðila, en hann hafi ekki svarað kvörtunum sóknaraðila eða umboðsmanns hans.

Sóknaraðili telur þannig skuldfærslu varnaraðila, sem framkvæmd var á greiðslukort hans þann 5. janúar 2017 að fjárhæð 313.474 kr., vera ólöglega og að varnaraðila beri að endurgreiða sér umrædda fjárhæð.

 

 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili staðfestir að sóknaraðili hafi tekið bifreið á leigu hjá varnaraðila fyrir tímabilið 25. desember 2016 til 5. janúar 2017. Þann 1. janúar 2017 hafi sóknaraðili haft samband við varnaraðila og tjáð honum að ekki væri unnt að loka glugganum í vinstri framhurð. Umboðsmaður varnaraðila hafi þá komið til móts við sóknaraðila að hóteli hans í Öræfum þar sem sóknaraðili dvaldi og skipt um bifreið við sóknaraðila. Samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni varnaraðila þá hafi verið auðséð að vandamálið með gluggann væru vegna hurðauppfoks sem hafi skemmt gluggasleða í vinstri framhurð bifreiðarinnar. Fengið hafi verið tjónamat hjá óháðum aðila sem hafi metið tjónið að fjárhæð 281.034 kr.

Þegar sóknaraðili hafi skilað seinni bifreiðinni þann 5. janúar 2017 hafi verið stjarna í framrúðu bifreiðarinnar sem sóknaraðila var bent á. Þá hafi sóknaraðila verið tjáð að hann væri ábyrgur fyrir tjóninu á vinstri framhurð á fyrri bifreiðinni og væri áætlaður viðgerðarkostnaður fyrir það tjón 281.034 kr. Jafnframt var honum tjáð að hann væri ábyrgur fyrir framrúðutjóni seinni bifreiðarinnar og væri það tjón að fjárhæð 25.000 kr. Samtals tjónakostnaður væri því 306.034 kr. Sóknaraðili hafi þó alfarið hafnað allri ábyrgð á tjónunum á báðum bifreiðunum og neitað að greiða tjónakostnað. Samkvæmt leiguskilmálum hafi þannig áætlaður heildarkostnaður á báðum bifreiðunum, að fjárhæð 306.034 kr. verið gjaldfærður á greiðslukortið sem sóknaraðili hafi lagt fram sem greiðslumáta við upphaf leigu.

Sóknaraðili afhenti nefndinni ljósmyndir dags. 3. janúar 2017 sem hann kveðst sýna bílnúmer og skemmd á vinstri framhurð fyrri bifreiðarinnar. Einnig tekur sóknaraðili það fram að kunnáttumenn geti staðfest að skemmdirnar hafi komið til vegna hurðauppfoks.

 

V.
Álit

Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar starfar á grundvelli ákvæða samþykkta úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndar tekur úrskurðarnefndin til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur samþykktanna gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um bótagreiðslur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

Í málinu er óumdeilt að tjón hafi fundist á fyrri bifreiðinni þann 1. janúar 2017 þegar sóknaraðili var með hana til umráða. Aðila deila þó um hvort umrætt tjón hafi orðið á meðan leigutíma stóð, eða hvort umrætt tjón hafi verið til staðar þegar bifreiðin var afhent þann 25. desember 2016.

Samkvæmt gögnum máls þá var sóknaraðili búin að hafa bifreiðina til umráða í sex daga þegar hann tilkynnti varnaraðila um vandamál við að loka bílstjórarúðunni. Jafnframt kemur fram í málavaxtalýsingu sóknaraðila að hann hafi keyrt um Vesturland og í Reykjavík. Að mati nefndarinnar er afar ólíklegt að sóknaraðili hafi ekki skrúfað niður rúðuna á þeim tíma, en fullyrðingar hans um annað eru óljósar og virðist hann ekki neita því staðfastlega. Sóknaraðili fullyrðir jafnframt að afar stillt veður hafi verið á svæðinu og því útilokað að hurðin hafi fokið upp. Við skoðun nefndarinnar á veðurfarsgögnum af svæðinu á umræddu tímabili kom hinsvegar í ljós að mesti vindur hafi verið 22 metrar á sekúndu og meðalvindur um 14 metrar á sekúndu. Nefndarmenn draga því ofangreinda fullyrðingu sóknaraðila um stillt veður í efa.

Fyrir nefndinni liggja fyrir reikningar vegna vinnu við skipti á hurðaupphalaða að fjárhæð 27.860 kr. með vsk., og reikningur fyrir rúðuupphalaða samtals 72.860 kr. með vsk. Umræddir reikningar bera því með sér að heildarkostnaður viðgerðarinnar án virðisaukaskatts hafi verið 81.905 kr. og virðisaukaskattur því 18.815. Rétt er að taka fram að varnaraðili innheimtir virðisaukaskatt af leigugreiðslum, og er því virðisaukaskattskyldur aðili. Sem slíkur á hann þess kost að jafna innskatti á móti útskatti og ætti því að draga virðisaukaskatt frá kröfu sinni á hendir sóknaraðila. Áréttað skal að tjónþoli á ekki að hagnast á neinn hátt verði hann fyrir tjóni og er að mati nefndarinnar fráleitt að aðilar sem standa skil á virðisaukaskatti taki ekki tillit til þess við gerð bótakrafna. Ber því þegar að lækka kröfu varnaraðila sem því nemur enda mat nefndarinnar að sannanlegt tjón sóknaraðila vegna umræddrar viðgerðar sé aðeins 81.905 

Engin fullnægjandi gögn liggja fyrir nefndinni sem sýna fram á framrúðutjón hafi orðið á seinni bifreiðinni sem sóknaraðili fékk afhenta. Varnaraðili hefur ekki lagt fram neinar ljósmyndir, yfirlýsingu frá óháðum aðila eða aðra staðfestingu á að tjón hafi sannanlega orðið á umræddri bifreið. Þannig er eina gagnið sem liggur fyrir nefndinni sem bendir til einhvers tjóns á bifreiðinni reikningur sem gefinn er út þann 5. janúar 2017 af varnaraðila sjálfum þar sem fram kemur skráningarnúmer bifreiðar, sú lýsing að gera þurfi við smá brot úr framrúðu og fjárhæðin 25.000 kr. Að mati nefndarinnar er sá reikningur ekki fullnægjandi gagn til að byggja á skaðabótakröfu. Þá hefur varnaraðili ekki lagt fram neina kvittun eða rökstutt á neinn hátt kröfu sína um greiðslu bensínkostnaðar að fjárhæð 7.440 kr.

Nefndin gerir einnig athugasemdir við það verklag varnaraðila að rukka sóknaraðila eingöngu út frá svokölluðu CABAS tjónaviðgerðarmati. Að mati nefndarinnar getur CABAS tjónaviðgerðarmat, eitt og sér og án frekari rökstuðnings eða fyrirliggjandi gagn, ekki talist fullnægjandi gagn til að sýna fram á raunverulegt fjárhagslegt tjón varnaraðila sem hann getur byggt skaðabótakröfu sína á.

Þannig er rík kvöð á tjónþola að sýna fram á raunverulegt fjárhagslegt tjón sitt og styðja skaðabótakröfu sína fullnægjandi gögnum. Að mati nefndarinnar þyrfti að liggja fyrir endalegur viðgerðarreikningur fyrir raunverulegri viðgerð á bifreiðinni, ásamt sönnun fyrir því að bifreiðin hafi tjónast á meðan hún var í umráðum sóknaraðila. Í ljósi meginreglu skaðabótaréttar að tjónþola beri að lágmarka tjón sitt þá þyrfti einnig að liggja fyrir tilboð nokkurra viðgerðaraðila og að tjónþoli hafi valið þann aðila sem bauð lægst.

Í ljósi ofangreinds þá telur nefndin að sóknaraðili geti ekki krafið varnaraðila um frekari greiðslur vegna tjóns en þær sem studdar eru með fullnægjandi reikningum, að frádregnum virðisaukaskatti, samtals 81.905 kr.

 

 

Úrskurðarorð

Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila 313.474 kr. sem hann hefur þegar skuldfært af greiðslukorti hans að frádregnum 81.905 kr. Alls 231.569 kr.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður

Lárus M.K. Ólafsson                                                          

Ívar Halldórsson