Mál nr. 3/2014

27. maí 2016

Miðvikudaginn 20. janúar 2016 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2014

X

gegn

E

 

Deilt um bætur vegna meints tjóns á kjól við hreinsun hjá Efnalauginni E, hér eftir nefnd efnalaug og E.

 

Kröfur kvartanda

Kvartandi, hér eftir nefndur kvartandi og X, gerir kröfur um að E greiði kostnað á sérsaumuðum silkikjól, efni, saumaskap og kostnaði af hreinsun kjólsins. Samtals gerir X kröfu að upphæð 87.708 kr.

 

Gögn:

1.      Kvörtun X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 3. desember 2014, ásamt fylgigögnum:

a.       Blár silkikjóll.
b.      Lýsing eiganda efnalaugarinnar á meðhöndlun kjólsins.
c.       Visa yfirlit fyrir nýtt silki frá Mahaco í Singapúr.
d.      Bankayfirlit yfir kaup á kjól, dags. 24. 2. 2014.
e.       Bankayfirlit yfir greiðslu á hreinsun hjá E þann 18. 11. 2014.
f.       Silkibútur af efninu sem notað var í sérsaumun kjólsins.
g.      Kvittun frá M.
h.     Tölvupóstsamskipti X við seljanda silkiefnisins.

2.      Póstur Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til E, dags. 8. desember 2014.

3.      Svarbréf E, dags. 15. desember 2014.

4.      Svarbréf X, dags. 3. janúar 2015, ásamt ljósmundum af umræddum kjól fyrir hreinsun.

5.      Svarbréf E, dags. 17. janúar 2015, ásamt yfirlýsingu frá K

6.      Lokasvar X, dags. 22. janúar 2015.

7.      Lokasvar E, dags. 1. febrúar 2015.

 

Málsmeðferð:

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun X dags. 3. desember 2014. Með bréfi nefndarinnar, dags. 8. desember 2014, var E gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hún gerði með bréfi, dags. 15. desember 2014. Með bréfi nefndarinnar, dags. 18. desember, var leitað eftir afstöðu X til framkominna athugasemda og var hún kunngerð með bréfi, dags. 3. janúar 2015, ásamt viðbótargögnum í málinu. Nefndin gaf E kost á að koma að frekari athugasemdum með bréfi, dags. 6. janúar, og barst svar, dags. 17. janúar 2015, ásamt viðbótargögnum. Með bréfi nefndarinnar, dags. 21. janúar 2015, var X aftur gefið færi á að koma að frekari athugasemdum í málinu, sem bárust þann 22. janúar 2015. Með bréfi nefndarinnar, dags. 22. febrúar 2015, var E gefið færi á að koma að frekari athugasemdum og bárust þær til nefndarinnar með bréfi, dags. 1. febrúar 2015. Ekki voru gerðar frekari athugasemdir og var málið því tekið til úrskurðar.

 

Málavextir:

Samkvæmt gögnum málsins fór kvartandi með sérsaumaðan bláan silkikjól í hreinsun hjá efnalauginni E í nóvember 2014 og samkvæmt kvartanda var starfsmanni efnalaugarinnar tjáð að kjóllinn væri úr fíngerðu silki og þyrfti sérstaka meðhöndlun. Þegar kvartandi vitjaði kjólsins tveimur dögum síðar þá var hann ónýtur að mati kvartanda en á kjólnum voru hvítar flikrur á baki, neðarlega að framan, undir höndum, á hliðum og á fleiri stöðum. Jafnframt var stór hvítur blettur neðarlega á hlið kjólsins þar sem matur hafi komið í hann nokkrum dögum fyrir hreinsun. Kvartandi telur líklegt að silkikjóllinn hafi eyðilagst í hreinsun hjá E þar sem hreinsiefni hafi mögulega verið notað.

Í svari E, dags. 15. desember 2014, kemur fram að efnalaugin hafi mikla reynslu á hreinsun á silkifatnaði og að hún hafi skýrt út fyrir kvartanda þegar hann kom með kjólinn að óvíst geti orðið um árangur hreinsunarinnar. E segir að silkið hafi verið hreinsað með sérstakri „delecade“ meðferð, en í kjólnum hafi verið mjög slæmir blettir og að oft komi slíkir blettir meira áberandi fram eftir hreinsun. E hafi þá meðhöndlað flíkina með ylvolgri gufu og hreinsað aftur. Efnalaugin hafnar alfarið að hafa notað hreinsiefni á kjólinn, enda megi aldrei nota slík efni á silkifatnað. Jafnframt kemur fram í svari efnalaugarinnar að silki sé það viðkvæmt að það þolir illa svitalyktaeyði, ilmvötn, hársprey og ýmsar aðrar húðvörur. Mikilvægt sé að um leið og blettur setjist í efnið að það fari strax í hreinsun því meiri líkur séu á því að ná blettum úr ef strax sé brugðist við annars sé hætt við að blettur náist ekki úr, litur dofni eða í stað bletts verði hvítur blettur. E telur sterkar líkur á að blettir hafi verið um nokkurn tíma í kjólnum og/eða átt hafi verið við blettina áður en komið var með flíkina í efnalaugina.

Í athugasemdum kvartanda, dags. 3. janúar 2015, hafnar kvartandi að bent hafi verið á óvissu um árangur hreinsunarinnar þegar kjóllinn var afhendur til E. Aftur á móti hafi starfsmanni E verið bent á eina blettinn í kjólnum og að ekki hafi verið reynt að hreinsa þann blett áður en komið var með kjólinn til efnalaugarinnar. Kvartandi bendir á að samkvæmt lýsingu eiganda efnalaugarinnar frá 2. desember þá hafi kjóllinn verið hreinsaður með perklór og vísar í að klór geti valdið því að litur dofni. Kvartandi vísar einnig í álit klæðskera kjólsins en þeir telji notkun blettahreinsiefnis líklegustu skýringuna á eyðingu litarins í kjólnum. Jafnframt sé það mat klæðskeranna að ólíklegt sé að nudd geti hafa skaðað silkið í kjólnum. Kvartandi hafnar að svitalyktareyðir eða hárvörur geti hafa valdið tjóninu á kjólnum og bendir á að kjóllinn hafi verið geymdur inni í skáp í þar til gerðum poka frá M. Jafnframt hafi verið farið með kjólinn í hreinsun eins fljótt og auðið var. Kvartandi bendir á að hvítasti bletturinn sem sé neðarlega á hlið kjólsins sé um 1 cm í þvermál og alveg hvítur. Kvartandi telur slíkan blett ekki koma með nuddi, þar sem þá væri hann stærri og jaðrarnir óreglulegir. Hvítar flikrur eða blettir að framan, á baki, í handarkrika og fleiri stöðum benda ekki til nudds til að hreinsa bletti, heldur miklu frekar að smit frá blettahreinsi sem sett hafi verið á blettinn á hlið kjólsins hafi borist annars staðar í kjólinn. 

Í athugasemdum E, dags. 17. janúar 2015, tekur E fram að Perklór hafi sem hreinsiefni verið notað í efnalaugum á Íslandi og um allan heim í tugi ára. Sú hreinsunaraðferð sé alþekkt í efnalaugum á silki og kennd á námskeiðum erlendis við hreinsun silkis. Að mati efnalaugarinnar sé sú staðhæfing um að Perklór kunni að vera orsakavaldur dofans í lit silkikjólsins fjarlægur. Efnalaugin ítrekar að aldrei megi bera bletta eða hreinsiefni á silki, hvorki fyrir né eftir hreinsunina. Efnalaugin hafi áratuga reynslu á meðhöndlun silkis og að yfirgnæfandi líkur séu fyrir að eitthvað hafi verið átt við blettina áður en kjóllinn barst efnalauginni til hreinsunar eða silkið hafi nuddast við gróft borð eða stól. Efnalaugin vísar jafnframt í álit K og að það sýni glöggt að langmestar líkur séu á að eitthvað nudd hafi valdið blettinum í kjólnum. Efnalaugin hafnar staðhæfingu kvartanda um að blettur neðarlega á hlið kjólsins komi ekki með nuddi og vísar til þess að kvartandi sé ekki sérfræðingur í hreinsun fatnaðar. Efnalaugin ítrekar að hún notar ekki blettaefni í silki og hafnar því að um smit frá blettahreinsi sé um að ræða eins og kom fram í athugasemdum kvartanda dags. 3. janúar 2015.

Í lokaathugasemdum kvartanda, dags. 22. janúar 2015, tekur kvartandi fram að ályktanir hans um að efni með klóri valdi dofa í lit hafi verið þýðing af vefsíðu sem efnalaugin hafi vísað til og þótti kvartanda rétt að benda á það. Kvartandi áréttar að klæðskerar M töldu að líkleg ástæða fyrir eyðileggingu kjólsins væri sú að starfsmenn hefðu notað hreinsiefni á blettinn. Kvartandi áréttar að starfsmaður efnalaugarinnar hafði engin orð uppi um að óvíst gæti orðið um árangur hreinsunarinnar, enda hafi ekki verið reynt að þurrka blettinn úr með servéttu né hafi hann verið áberandi óhreinn.

Í lokaathugasemdum E, dags. 1. febrúar 2015, er fullyrðingum kvartanda hafnað ásamt því að efnalaugin ítrekar fyrri athugasemdir sínar. Jafnframt vísar efnalaugin í fagblað norskra efnalauga, „Den rene nyhet“ þar sem vísað er til þess að mjög oft séu ósjálfráð viðbrögð fólks að ná strax því sem fallið hafi á fatnaðinn úr fatnaðinum en það geti oft haft afleiðingar. Þá sé tilhneiging að telja efnalaugina sem fái fatnaðinn ábyrgan og gera kröfu um bætur þaðan.

 

Álit Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:

Að mati nefndarinnar er rétt að skipta ábyrgð í málinu. Ef kjóllinn var í því ástandi að óvíst hafi verið um árangur hreinsunarinnar og hætta á að blettir kæmu fram í kjólnum við hreinsun hefði E átt að hafna því að hreinsa kjólinn eða fá sannanlegt samþykki kvartanda um að hreinsunin gæti hugsanlega ekki tekist og að hætta væri á að hann kæmi úr hreinsun með áberandi bletti. Á móti kemur  að flíkin var ekki merkt með þvottaleiðbeiningum líkt og æskilegt væri þegar um viðkvæmt silki er að ræða. Þar sem kvartandi keypti efnið sjálfur og lét sauma kjólinn fyrir sig verður að telja að hann hafi verið í góðri stöðu til að afla upplýsinga, við kaupin á efninu, um meðhöndlun efnisins. Þá eru jafnframt blettir í kjólnum á þannig stöðum að líklegt er að þeir hafi komið fram vegna efna eða húðsvara sem borist hafa í kjólinn s.s. undir höndum t.d. af völdum svitalyktaeyðis.

Krafa X er að fá endurgreiðslu á saumaskap kjólsins að upphæð 70.000 krónur, efniskostnað fyrir silkinu að upphæð 12.388 kr. og kostnað af hreinsuninni að upphæð 3.320 kr., samtals krónur 85.708. Jafnframt gerir hann kröfu á endurgreiðslu málskotsgjalds að upphæð 2.000 kr. Samkvæmt 3. gr. samþykkta nefndarinnar skal hlutaðeigandi fyrirtæki endurgreiða kvartanda málskotsgjaldið falli málið að hluta eða öllu leyti honum í vil og því ekki þörf á að leggja fram sjálfstæða kröfu fyrir úrskurðarnefndinni um greiðslu málskotsgjalds. Litið er því svo á að krafa kvartanda í málinu sé greiðsla bóta vegna tjónsins að upphæð 85.708 kr.

Efnalaug og kvartandi skipta ábyrgð í málinu til helminga og kvartandi heldur eignarhaldi yfir kjólnum.

 

Niðurstaða:

E greiði X kr. 42.854 kr. í bætur fyrir skemmdir á kjól.

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir