Mál nr. 3/2017

Miðvikudagur, 18. júlí 2018

Hinn 23. mars 2018 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 3/2017. 

X

 

gegn
 

Y

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X, hér eftir nefndur sóknaraðili, og Y, hér eftir nefndur varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags. 11. september 2017. Með tölvupósti nefndar, dags. 26. október 2017, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með tölvupósti, dags. 27. október 2017. Með tölvupósti nefndar þann 27. október 2017 var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda sem barst  nefndinni innan tímafrests. Engin frekari gögn bárust og var málið tekið til meðferðar á fundi nefndarinnar þann 12. febrúar 2018. Í kjölfar fundar nefndar var ákveðið að kalla eftir nánari upplýsingum og gögnum frá varnaraðila og bárust þau nefndinni þann 26. febrúar sl. Í kjölfar þess var málið tekið til úrskurðar.

 

 

II.
Málavextir

Sóknaraðili leigði húsbíl af varnaraðila frá 21. júní til 23 júní 2017. Samkvæmt sóknaraðila var beðið með endalegt uppgjör þar til varnaraðili væri búinn að fara yfir bílinn og þrif hefðu farið fram. Ekkert hafi heyrst í varnaraðila fyrr en í ágústmánuði 2017 þegar hann sendi sóknaraðila reikning, en sóknaraðili gerði strax athugasemd við upphæð hans og fór fram á nánari sundurliðun. Sóknaraðili hafi þá fengið ákveðna leiðréttingu á reikningnum en hann telur þá leiðréttingu ekki fullnægjandi.

Sóknaraðili gerir þá kröfu að reikningur verði leiðréttur.

 

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili gerir athugasemdir við ýmsa liði reiknings sem varnaraðili sendi honum í kjölfar áðurnefndrar leigu á húsbíl í júní 2017. Nánar tiltekið gerir sóknaraðili í fyrsta lagi athugasemd við að varnaraðili rukki hann fyrir andvirði heils gaskúts, 11.000 kr., þrátt fyrir að sóknaraðili hafi einungis notað hluta gassins. Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi aldrei tilkynnt honum að rukkað væri fyrir heilan kút og þá komi skýrt fram á heimasíðu varnaraðila að rukkað verði í samræmi við notkun („Gas bottles (paid according to use)“).

Í öðru lagi gerir sóknaraðili athugasemd við upphæð kostnaðar vegna lokaþrifa. Samkvæmt upphaflega reikningnum hafi sú upphæð verið 27.500 kr., en varnaraðili hafi lækkað þá upphæð niður í 22.177 kr. auk virðisaukaskatts. Sóknaraðili telur að þessi upphæð ætti að vera 170 evrur, en það komi fram á heimasíðu varnaraðila að kostnaður vegna lokaþrifa sé 170 evrur. Sóknaraðili hafi tjáð varnaraðila að hann hugðist skila bifreiðinni aftur skítugum, en starfsmenn varnaraðila hafi ekki viljað greiðslu fyrr en eftir leiguskil og ekki hafi verið rætt um ákveðið verð.

Í þriðja lagi gerir sóknaraðili athugsemd við upphæð vegna viðgerðar á hjólarekka og telur fjárhæðina úr lausu lofti gripna án þess að fyrir liggi raunverulegt mat á tjóni. Upphaflega hafi varnaraðili sent reikning fyrir þessum tjónalið að upphæð 50.000 kr., en hafi lækkað hann um helming eftir að hann gerði athugasemd við upphæðina. Óumdeilt er að tjón varð á hjólarekkanum þegar sóknaraðili bakkaði á ljósastaur með þeim afleiðingum að rekki hafi beyglast. Að sögn sóknaraðila hefði hæglega verið unnt að rétta hann á innan við klukkutíma og fer fram á að upphæðin verði lækkuð niður í það sem næmi einni klukkustundar viðgerð á verkstæði. Sóknaraðili hafi jafnframt fundið á netinu umræddan rekka sem kostar töluvert minna en það sem varnaraðili hefur krafið hann um.

Í fjórða lagi mótmælir sóknaraðili rukkun vegna nýrra hjólbarða að upphæð 19.900 kr. Sóknaraðili segir að hann hafi tekið eftir því að eitt dekk hafi ekki haldið lofti. Hann hafi því sett varadekkið undir, en tekur fram að bifreiðinni hafi einungis verið ekið á hringvegi Íslands og á bílastæðum. Að mati sóknaraðila telst slit á hjólbarða til eðlilegs viðhalds á bifreið og fer því fram á að þessi liður verði feldur niður að heild eða að hluta. Sóknaraðili segir að engin sjáanleg skemmd hafi sést á hjólbarðanum og ef að nauðsynlegt hafi verið að kaupa nýtt dekk þá sé ástæða þess sú að það hafi verið orðið gamalt og slitið.

Í fimmta lagi mótmælir sóknaraðili kröfu varnaraðila um greiðslu bóta að upphæð 150.000 kr. vegna meints tjóns á hægri hlið bifreiðarinnar. Sóknaraðili segir að við móttöku bifreiðarinnar hafi starfsmaður varnaraðila tjáð honum að um gamlan bíl væri að ræða „sem þeir væru ekki alltof pjattaðir með“. Af þeim sökum hafi sóknaraðili ekki gert sérstakar athugasemdir við ágalla á lakki í plasti bifreiðarinnar, sem voru að hans sögn til staðar við móttöku bifreiðarinnar. Að mati sóknaraðila er líklegt að meint tjón hafi orsakast við að greinar hafi strokist utan í hlið bifreiðarinnar og tekur fram að á meðan leigutíma stóð hafi aldrei verið ekið í nágrenni við trjágreinar sem gætu hafa rekist í bifreiðina. Sóknaraðili heldur því fram að engin rökstuðningur liggi fyrir ofangreindri fjárhæð annar en fullyrðing varnaraðila um að söluverðmæti bifreiðarinnar muni koma til með að vera lægra, og þessi upphæð þannig verið ákveðin einhliða af varnaraðila. Jafnframt heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi tilkynnt honum um að ekki væri fyrirhugað að gera við umrætt tjón.

Að lokum mótmælir sóknaraðili því að hann hafi fengið afslátt af leigu líkt þvert á fullyrðingar varnaraðila. Sóknaraðili telur að gleymst hafi að láta hann fá þann afslátt og fer fram á að sú upphæð verði notuð til lækkunar á kröfum varnaraðila.

 

 

 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili heldur því fram að gasfélög bjóði einungis upp á að keypt séu ný gashylki og þannig standi ekki til boða að greiða fyrir hluta af gaskút. Þetta séu ekki reglur sem settar eru af varnaraðila, heldur er nauðsynlegt að greiða fyrir heilan kút af gasfélögunum. Sé gaskútur notaður af leigutökum þá þarf varnaraðili að greiða fullt verð þrátt fyrir að einungis sé um litla notkun að ræða. Allir viðskiptavinir varnaraðila fá sömu upplýsingarnar, þannig séu tveir fullir gaskútar í bílum við afhendingu og viðskiptavinum ber að skila þeim eins til baka. Varnaraðili hafnar því þeirri kröfu sóknaraðila um frekari afslátt af þessum lið.

Samkvæmt varnaraðila fá allir viðskiptavinir sömu upplýsingar er varða lokaþrif á bifreiðum. Lokaþrif eru ekki innifalin í verði og verðið á þrifum sé 170 evrur, ef greitt er fyrir þrif fyrir fram. Sé bifreið þannig skilað óhreinni til baka leggst á aukakostnaður. Varnaraðili hafnar þar með kröfu sóknaraðila um frekari afslátt af þessum lið.

Hvað hjólarekkann varðar þá hafi verið um raunverulegt tjón að ræða á eignum varnaraðila sem leigutaka ber að greiða fyrir. Jafnframt hafi varnaraðili lækkað kröfu sína töluvert frá fyrra verði. Krafa sóknaraðila um að hægt sé að lagfæra tjónið með einni klukkustundar vinnu á verkstæði er einungis hans álit en ekki staðreynd.

Varnaraðili hafnar því að veita frekari afslátt af kröfu vegna hjólbarða bifreiðarinnar, enda sé bifreiðin að fullu á ábyrgð leigutaka á meðan leigutíma stendur og þar á meðal hjólabúnaður. Varnaraðili telur jafnframt að fullyrðing sóknaraðila um orsök lekans á hjólbarða sé jafnframt aðeins hans skoðun en ekki staðreynd.

Samkvæmt varnaraðila þá var tjón á bifreiðinni á meðan hún var í umsjá leigutaka, en hún sé að fullu á hans ábyrgð á meðan leigutíma stendur. Varnaraðili hafnar því að hafa tjáð sóknaraðila að ekki yrði gert við umrætt tjón, heldur hafi einungis verið upplýst um að ekki hafi enn verið gert við það tjón á þeim tíma. Það taki langan tíma að gera við umrætt tjón og bifreiðin geti þannig verið úr umferð í langan tíma. Í stað þess að rukka viðskiptavini um tapaðan tíma þá sé gert við slíkar skemmdir í lok tímabils þegar bílar eru ekki lengur í umferð. Varnaraðili hafnar að veita frekari afslátt af kröfu sinni.

Vararaðili tekur jafnframt fram að verðið á leigunni hafi fyrirfram verið lækkað um 269 evrur, eða um 33.400 kr. 

 

 

V.
Álit

Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar starfar á grundvelli ákvæða samþykkta úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndar tekur úrskurðarnefndin til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur samþykktanna gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um bótagreiðslur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

 

Með framlögðum gögnum hefur sóknaraðili sýnt fram á með óyggjandi hætti að varnaraðili auglýsi það á heimasíðu sinni að einungis beri að greiða fyrir notkun á gaskúti samkvæmt notkun. Auglýsingar um verð, skilmála eða aðrar upplýsingar sem veittar eru á heimasíðu seljanda þjónustu verður að teljast hluti af viðkomandi samningi við kaupanda. Er um að ræða einhliða skilmála söluaðila og er honum því í lófa lagt að setja slíka skilmála fram með skýrum hætti og þ.m.t. nánari útlistun á réttindum og skyldum bæði leigusala og leigutaka. Að sama skapi verður að draga þá ályktun að sá aðili sem setur fram slíka einhliða skilmála verði að bera hallan af óskýrleika sé hann til staðar. Að mati nefndarinnar hafði sóknaraðili réttmætar væntingar um að einungis yrði greitt fyrir raunverulega notkun gasáfyllingar i samræmi við framsetningu þeirra upplýsinga á heimasíðu varnaraðila. Samningur sóknaraðila er við varnaraðila, og því getur röksemd varnaraðila um fyrirkomulag hans við seljenda gashylkja ekki veitt takmarkaðri rétt en leiðir af samningi við leigutaka. Nefndin fellst þannig á kröfulið sóknaraðila um að hann beri einungis að greiða fyrir raunverulega notkun líkt og auglýst er á heimasíðu varnaraðila.

Hvað varðar lokaþrif bifreiðar þá hefur sóknaraðili einnig sýnt fram á að varnaraðili auglýsir á heimasíðu sinni að kostnaður vegna lokaþrifa sé 170 evrur. Hvergi er að sjá nokkurn fyrirvara þar um að greiða þurfi fyrir fram til að fá þau kjör. Í ljósi þess, og í samræmi við mat nefndarinnar á kröfulið hér á undan, þá fellst nefndin á þá kröfu sóknaraðila að honum beri einungis að greiða 170 evrur fyrir lokaþrif.

Óumdeilt er að hjólarekki sem áfastur var á bifreiðinni tjónaðist á meðan bifreiðin var í umsjá leigutaka. Af þeim sökum þá ber sóknaraðili ábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem varnaraðili varð fyrir. Varnaraðili hefur lagt fyrir nefndina gögn sem staðfesta umrætt tjón og ber sóknaraðila því að greiða varnaraðila 25.000 kr. í samræmi við kröfu hans.

Málsaðilar voru sammála um að nauðsynlegt hafi verið að bæta úr ástandi hjólbarða sem lak á bifreiðinni. Aðilum greindi þó aftur á móti á um, hvort ástæðan fyrir slæmu ástandi hjólbarðans mætti rekja til eðlilegs slits eða vegna atviks sem sóknaraðili bæri ábyrgð á. Að mati nefndarinnar er það á ábyrgð leigusala, sem skráðs eiganda ökutækis, að öryggisþættir bifreiðar, þar á meðal hjólabúnaður sé fullnægjandi og í samræmi við opinberar kröfur þess efnis. Lögbundin skylda hvílir á leigusala bifreiðar að gæta þess að ökutækið sé í góðu ásigkomulagi sbr. 5. mgr. 6. gr. laga um leigu á skráningarskyldum ökutækjum nr. 65/2015.  Þannig teljist það eðlilegt viðhald að dekk séu endurnýjuð ef um er að ræða venjulega notkun ökutækis. Engin gögn liggja fyrir nefndinni sem sýna fram á að sóknaraðili hafi ekið bifreiðinni óeðlilega eða að nauðsyn hafi verið að skipta um hjólbarða vegna atviks sem eru á ábyrgð sóknaraðila. Nefndin fellst þannig á kröfu sóknaraðila, enda hafi varnaraðila verið í lófa lagið að afla sönnunar ef um var að ræða skemmd á dekki sem var á ábyrgð sóknaraðila svo sem með ljósmyndum eða yfirlýsingu verkstæðis sem skipti um hjólbarðann.  

Nefndin telur að það hvíli skylda á varnaraðila að hafa hjólabúnað bifreiða sem hann leigir út í fullnægjandi ástandi og það teljist sem eðlilegt viðhald að endurnýja dekkin undir venjulegum kringumstæðum. Varnaraðili hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að skipta hafi þurft um dekk vegna atviks sem varða sóknaraðila. Af þeim sökum er fallist á kröfu sóknaraðila.

Að mati nefndarinnar verður að gera töluverðar athugasemdir við það verklag varnaraðila að rukka sóknaraðila eingöngu út frá svokölluðu CABAS tjónaviðgerðarmati og með fullyrðingu um að söluverðmæti bifreiðarinnar hafi lækkað sökum tjóns, en engin gögn hafa verið lögð fyrir nefndina sem staðfesta að umrætt tjón hafi haft einhver áhrif á verðmæti eða sölumöguleika bifreiðarinnar þegar hún var seld. Að mati nefndarinnar getur CABAS tjónaviðgerðarmat, eitt og sér og án frekari rökstuðnings eða fyrirliggjandi gagn, ekki talist fullnægjandi gagn til að sýna fram á raunverulegt fjárhagslegt tjón varnaraðila sem hann getur byggt skaðabótakröfu sína á.

Þannig er rík kvöð á tjónþola að sýna fram á raunverulegt fjárhagslegt tjón sitt og styðja skaðabótakröfu sína fullnægjandi gögnum. Að mati nefndarinnar þyrfti að liggja fyrir endalegur viðgerðarreikningur fyrir raunverulegri viðgerð á bifreiðinni. Í ljósi meginreglu skaðabótaréttar að tjónþola beri að lágmarka tjón sitt þá þyrfti einnig að liggja fyrir tilboð nokkurra viðgerðaraðila og að tjónþoli hafi valið þann aðila sem bauð lægst. Það sem hvorugt liggur fyrir nefndinni telur hún ekki ásættanlegt að varnaraðili byggi skaðabótakröfu sína eingöngu og alfarið á þeim gögnum sem hann hefur lagt fram og fellst því á kröfu sóknaraðila.

 

 

 

Úrskurðarorð

Sóknaraðili greiðir varnaraðila 25.000 kr. vegna tjóns á hjólarekka, 500 kr. vegna skæra og 170 evrur vegna lokaþrifa. Fallist er á kröfu sóknaraðila um að honum beri aðeins að greiða fyrir notkun á gaskút í samræmi við þá raunverulega notkun sem varnaraðili getur sýnt fram á. Kröfu varnaraðila um greiðslu vegna skemmda á hjólbarða og meints tjóns á bifreið er hafnað.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður

Lárus M.K. Ólafsson                                                          

Ívar Halldórsson