Mál nr. A-34/2011

Efni dóms: 

Leigusali vildi fá leigjanda borinn út vegna vanskila á húsaleigu. Leigusalinn sendi leigjanda greiðsluáskorun þar sem skorað var á hann að greiða tryggingu og ógreidda húsaleigu innan 7 sólarhringa frá dagsetningu bréfsins, ella myndi leigusalinn rifta leigusamningnum. Leigjandinn greiddi trygginguna innan þess frest sem var gefinn í bréfinu, en greiddi ekki umrædda húsaleigu fyrr en eftir að fresturinn var liðinn. Leigjandi taldi að ekki væri um að ræða ógreidda leigu þar sem til staðar væri munnlegt samkomulag milli aðila um að leigjanda væri heimilt að draga frá leigugreiðslum kostnað vegna pípulagningamanns, sem leigusali hefði átt að greiða fyrir, sem og kostnað vegna símareikninga sem hafi tilheyrt leigusala. Það hefði hann gert og væri því ekki í neinni skuld við leigusala. Leigusalinn hélt því m.a. fram að aðilar hefðu ekki getað samið um að framangreindar greiðslur vegna kostnaðar pípulagningamanns og símareikninga gengju upp í leigugjaldið án þess að gera það á þann veg sem mælt er fyrir í húsaleigulögunum, þ.e.a.s. skriflega en ekki munnlega eins og gert hafði verið í þessu tilviki. Dómurinn féllst hins vegar ekki á það og benti á að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna væru ákvæði húsaleigulaga aðeins ófrávíkjanleg að því leyti að óheimilt væri að semja um að leigjandi íbúðarhúsnæðis tæki á sig ríkari skyldur og öðlaðist minni réttindi en lögin mæltu fyrir um. Um slíkt væri ekki að ræða í þessu tilviki. Var því talið að munnlegt samkomulag um að draga framangreindar greiðslur frá húsaleigunni væri gilt, þrátt fyrir að í húsaleigulögum kæmi fram áskilnaður um að samkomulag af því tagi væru gerð skriflega. Í niðurstöðu dómsins var svo tekið fram að heimild til að krefjast útburðar ylti á því hvort að leigjandi hefði í raun verið í vanskilum með leigugreiðslur eða ekki. Leigusalinn hefði ekki hrakið þá fullyrðingu leigjandans að munnlegt samkomulag hefði verið gert milli þeirra, og var því ekki talið sannað að leigjandi hefði verið í vanskilum með leigugreiðslur, og útburði því hafnað.

Ú R S K U R Ð U R Héraðsdómur Suðurlands 3. febrúar 2012 í máli nr. A-34/2011

Númer dóms: 

A-34

Ártal dóms: 

2011