Mál nr. 4/2016

Þriðjudagur, 13. febrúar 2018

 

Hinn 8. september 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 4/2016. 

X

 

gegn
 

E

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X, hér eftir nefndur sóknaraðili og ferðaskrifstofan E., hér eftir nefnd varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags.8. júní 2016. Með bréfi og tölvupósti nefndarinnar, dags. 10. júní 2016, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Engin svör bárust frá varnaraðila innan uppgefins tímafrests. Nefndin ítrekaði ósk sína um gögn frá varnaraðila með bréfi, dags. 6. júlí 2016. Engin svör bárust frá varnaraðila og var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 8. september 2016.

II.
Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins keypti sóknaraðili ferð til Boston af varnaraðila. Tímabil ferðarinnar var frá 3. júní til 9. júní 2016. Sóknaraðili tilkynnti varnaraðila með tölvupósti, dags. 18. maí 2016, (sextán dögum fyrir áætlaða brottför) að sóknaraðili kæmist ekki í umrædda ferð. Sóknaraðili fór fram á að varnaraðili endurgreiddi honum ferðina að undanskyldu staðfestingargjaldi. Varnaraðili hafnaði ósk sóknaraðila um endurgreiðslu og vísaði máli sínu til stuðnings bæði í skilmála flugfélagsins sem ferðast átti með og hótelsins sem sóknaraðili hefði átt að gista á.

Sóknaraðili fer fram á endurgreiðslu á umræddri ferð að undanskildu staðfestingargjaldi að upphæð 25.000 kr. Heildarkrafa sóknaraðila er endurgreiðsla að upphæð 143.990 kr.

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili bendir á að ljóst hafi verið frá upphafi að staðfestingargjald ferðarinnar væri óendurkræft. Varnaraðili hafi komið þeim upplýsingum skilmerkilega til skila við bókun ferðarinnar. Aftur á móti hafi aldrei, á neinum tímapunkti, í bókunar- eða greiðsluferli ferðarinnar komið fram sú afstaða varnaraðila að lokagreiðsla væri einnig óendurkræf. Í tölvupóstsamskiptum við sóknaraðila hafi varnaraðili vísað í afbókunarskilmála hjá flugfélaginu og bent á að eftir að lokagreiðsla hafi farið fram þá fylgi vanaraðili þeim reglum sem þar sé að finna og það sama eigi við um skilmála hótelsins. Þær afbókunarreglur sem varnaraðili vísar til voru þó aldrei kynntar sóknaraðila og sóknaraðili hafnar því að þær geti komið til álita. Sóknaraðili hafi keypt ferðina af varnaraðila og því hljóti það að vera varnaraðila að tryggja sig fyrir þeim aðstæðum þegar farkaupi afbókar ferð. Jafnframt bendir sóknaraðili á að viðsemjandi hans í máli þessu hafi verið varnaraðili og því hljóti skilmálar varnaraðila að gilda um kaupin á ferðinni, en í samskiptum sóknar- og varnaraðila kom aldrei fram að öll ferðin, ásamt staðfestingargjaldi, væri óendurkræf.

Sóknaraðili tekur fram að hann hafi staðið í þeirri meiningu í gegnum allt ferlið að einungis staðfestingargjald ferðarinnar væri óendurkræft enda hafi ekki annað komið fram í máli varnaraðila. Sóknaraðili vísar til þess að í lögum um alferðir nr. 80/1994 sé gert sé ráð fyrir að farkaupi geti afpantað ferð. Þar komi m.a. fram í 1. mgr. 5. gr. laganna að afpanti farkaupi alferð geti seljandi krafist þóknunar sem er ákveðin með tilliti til þess hvenær afpantað er og hvers eðlis alferðin er. Þar komi einnig fram að seljandi geti krafist þóknunar ef farkaupi hættir við ferðina, en ekki er tekið fram í lögunum hver hún skuli vera eða hvernig hún skuli reiknuð. Þar komi einnig fram að áður en samningur er gerður skal farkaupa tilkynnt hvaða skilmálar gildi um afpantanir.

Sóknaraðili telur, út frá skoðun á almennum reglum og sjónarmiðum, að ekki sé um að ræða vanefndir af hálfu varnaraðila hvað varðar veitingu eða gæði umræddar ferðar, að öðru leyti en því að varnaraðili tilkynnti sóknaraðila ekki að ferðin fengist ekki endurgreidd að neinu leyti fyrr en eftir að sóknaraðili óskaði eftir endurgreiðslu. Sóknaraðili telur eðlilegt að varnaraðili endurgreiði ferðina, enda sé það varnaraðila að útbúa og kynna skilmála varðandi ferðir sem þessar fyrir kaupendum. Sóknaraðili telur sig ekki hafa gert neitt rangt í þessu ferli og bendir á að hann hafi borgað innan skilgreinds tíma. 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Engin svör bárust frá varnaraðila en samkvæmt gögnum máls hafði varnaraðili samband við hótelið og flugfélagið sem sáu um þjónustu í umræddri ferð til að athuga með mögulega endurgreiðslu. Þegar ljóst var að engin endurgreiðsla væri í boði frá hóteli eða flugfélagi þá hafi varnaraðili bent sóknaraðila á að hafa samband við tryggingarfélag sitt.

Varnaraðili heldur því fram að staðfestingargjöld séu óendurkræf sama hvenær hætt er við ferð og það hafi verið kynnt sóknaraðila. Þá bendir varnaraðili á að þegar farkaupar hafi greitt fyrir alla ferðina þá sé greiðsla send til flugfélags og hótels og eftir það sé afbókunarskilmálum þeirra fylgt. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili geti fengið skattana endurgreidda ef hætt er við ferð, eða breytt flugmiða en því fylgi kostnaður. Varnaraðili vísar í skilmála flugfélagsins hvað ofangreint varðar.

V.
Álit

Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar starfar á grundvelli ákvæða samþykkta úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndar tekur úrskurðarnefndin til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur samþykktanna gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um bótagreiðslur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

 

Samkvæmt upplýsingum nefndar er varnaraðili í máli þessu ekki aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar. Að framansögðu meðteknu og með vísan til 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndarinnar ber nefndinni að vísa máli sóknaraðila frá. Nefndin vill þó benda á að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um alferðir þá ber ferðasala að tilkynna farkaupa um hvaða skilmálar gilda um afpantanir áður en samningur er gerður. Af gögnum þessa máls má ráða að farkaupa hafi ekki verið tilkynnt um hvaða afpöntunarskilmálar giltu varðandi umrædda ferð.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu X á hendur E er vísað frá nefndinni.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður
Helga Árnadóttir
Hrannar Már Gunnarsson