Mál nr. 4/2017

Fimmtudagur, 19. júlí 2018

Hinn 12. febrúar 2018 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 4/2017. 

X

 

gegn
 

Y

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X, hér eftir nefndur sóknaraðili og Y, hér eftir nefndur varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags.26. október 2017. Með tölvupósti nefndarinnar, dags. 29. janúar 2018, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með tölvupósti, dags. 30. janúar 2018. Engin frekari gögn bárust og var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar, mánudaginn 12. febrúar 2018.

 

II.
Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins keypti sóknaraðili rútuferð af varnaraðila frá Bláa lóninu föstudaginn 30. september 2016. Meðan á akstri stóð keyrði ökumaður rútunnar utan í staur með þeim afleiðingum að rúða á hlið rútunnar brotnaði. Farþegar voru fluttir yfir í aðra rútu og ferjaðir á gististaði sína. Sóknaraðili heldur því fram að vegna atviksins hafi hann týnt sólgleraugum sínum og hefur farið fram á við varnaraðila að fá þau bætt en varnaraðili hefur hafnað þeirri kröfu.  

Sóknaraðili fer fram á að varnaraðili bæti honum sólgleraugun að fjárhæð 214.01 Bandaríkjadala auk þess að endurgreiða honum málskotsgjald nefndar.

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili gerir ýmsar athugasemdir við viðbrögð ökumanns rútunnar eftir áreksturinn. Þannig hafi bílstjórinn ekki stöðvað ökutækið strax, ekki rætt við farþega og ekki athugað hvort farþegar hefðu orðið fyrir meiðslum. Sóknaraðili gerir jafnframt athugasemdir við að hvorki nöfn farþega voru skráð niður né tekin skýrsla af þeim. Þá hafi ekki verið teknar neinar ljósmyndir og að starfsmenn hafi ekki gætt að því að farþegar færu með allan farangur og persónulega muni með sér úr rútunni.

Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi sýnt af sér vanrækslu þegar ekið var á staurinn og ekki brugðist rétt við í kjölfarið. Vegna árekstursins þá hafi sóknaraðili týnt dýrum sólgleraugum. Þannig heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili beri ábyrgð á því að hann hafi týnt sólgleraugum sínum í rútunni og fer fram á að varnaraðili endurgreiði honum andvirði þeirra samkvæmt framlögðum reikningi.

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili staðfestir að umrædd rúta hafi ekið utan í staur sem ekki var í augnsýn bílstjóra og rúða brotnað. Varnaraðili telur enga hættu hafa skapast og þeir farþegar sem sátu við rúðuna sem brotnaði meiddust ekki en fengu rúðubrot yfir sig sem þeir sjálfir hafi burstað í burtu. Varnaraðili telur bílstjórann hafa brugðist rétt við í málinu, en hann hafi athugað sérstaklega með ástand farþega sem sátu við rúðuna og kallað á aðstoð við að ferja farþega á gististaði. Í gögnum máls er einnig að finna yfirlýsingu bílstjórans sem m.a. nefnir að ástæðan fyrir því að rútan var ekki stöðvuð strax var sú að nauðsynlegt hafi verið að færa hana svo aðrar bifreiðar kæmust framhjá þar sem rútan lokaði veginum. Bílstjórinn tekur fram að hann hafi verið í áfalli eftir áreksturinn, en hafi fyrst hringt í yfirmann sinn til að tilkynna um óhappið en hafi síðan athugað hvort að farþegar væru ómeiddir.

Varnaraðili nefnir að hann hafi framkvæmt ítarlega leit að sólgleraugum sóknaraðila en þau hafi ekki fundist.

Varnaraðili telur það ekki vera á sína ábyrgð að bæta fyrir týnda muni sem farþegar hafa kannski týnt í ferðum eða í rútum, og hvað þá hugsanlega annarstaðar eftir umrætt óhapp.

 

 

V.
Álit

Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar starfar á grundvelli ákvæða samþykkta úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndar tekur úrskurðarnefndin til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur samþykktanna gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um bótagreiðslur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

 

Samkvæmt kvörtun sóknaraðila þá er því haldið fram að hann hafi týnt sólgleraugum sínum í kjölfar óhapps þegar rúta rakst utan í staur. Engin sönnun liggur fyrir nefndinni sem staðfestir að kvartandi hafi í raun verið með umrædd sólgleraugu í rútunni þegar óhappið á sér stað. Ennfremur er ekki hægt að sjá að orsakasamband sé á milli þess að rúta sem sóknaraðili var í varð fyrir óhappi og þess að sólgleraugu hans hafi mögulega tapast. Af þeim sökum getur nefndin ekki fallist á kröfu sóknaraðila í máli þessu.

 

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu sóknaraðila, X, er hafnað.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður

Lárus M.K. Ólafsson                                                          

Ívar Halldórsson