Mál nr. 5/2015

Fimmtudagur, 31. mars 2016

 

Hinn 10. febrúar 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 5/2015. 

X

 

gegn
 

F

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X, búsettur í Ástralíu, hér eftir nefndur sóknaraðili og bílaleigan F, hér eftir nefnt varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 13. október 2015. Í kjölfarið var óskað frekari gagna frá sóknaraðila, sem bárust hinn 30. október. Með bréfi nefndarinnar dags. 10. nóvember var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með bréfi dags. 17. nóvember. Með bréfi nefndarinnar 19. nóvember var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda og var hún kunngerð daginn eftir með tölvupósti og í kjölfarið send varnaraðila sem sendi viðbótarathugasemdir dags. 30. nóvember. Sóknaraðila var enn gefinn kostur á að senda frekari athugasemdir og bárust þær hinn 7. desember. Engin frekari gögn bárust nefndinni og var málið því tekið til úrskurðar.

 

II.
Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins leigði sóknaraðili bifreið af varnaraðila dagana 25. ágúst til 4. september sl. Á samningi um leiguna kemur fram að sóknaraðila hafi ekki gefist kostur á að skoða undirvagn bifreiðarinnar við móttöku hennar. Hinn 30. ágúst, en þá var sóknaraðili staddur á Egilsstöðum, kviknaði olíuljós bifreiðarinnar. Sóknaraðili lét varnaraðila strax vita og nokkru síðar var bifreiðin  sótt og flutt til Reykjavíkur.

Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila að hann fengi ekki aðra bifreið til afnota í stað hinnar biluðu nema gegn því að trygging fengist fyrir því að sóknaraðili gæti greitt 3.000 evrur vegna skemmda á bifreiðinni. Þar sem viðskiptabanki sóknaraðila og sóknaraðili sjálfur höfnuðu slíkri heimildarbeiðni neitaði varnaraðili að afhenda sóknaraðila aðra bifreið sem leiddi til þess að sóknaraðili leigði bifreið af Bílaleigu Akureyrar gegn greiðslu 80.300 kr.

 

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili rekur að þrátt fyrir beiðni þar að lútandi hefði hann ekki fengið að skoða undirvagn bifreiðarinnar, og var athugasemd þess efnis handskrifuð á leigusamning aðila. Fimm dögum eftir að leigutími hófst hefði sóknaraðili verið staddur á Egilsstöðum og olíuljós bifreiðarinnar kviknað. Þar sem hann hefði ekki fengið að skoða undirvagninn neitaði hann allri ábyrgð á tjóninu enda hefði voðkomandi skemmd allt eins getað verið til staðar þegar við upphaf leigutíma.

Þegar ljóst var að bifreiðin væri biluð hefði hann haft samband við varnaraðila sem hefði látið sækja bílinn en hins vegar neitað að afhenda honum aðra bifreið til afnota nema gegn því að heimildarbeiðni vegna 3.000 evra væri færð á kreditkort hans. Sóknaraðili hafi hafnað slíkri færslu, og einnig færslu að upphæð 800 evra. Þá hafi hann einfaldlega verið skilinn eftir á bensínstöð á Egilstöðum. Þaðan hafi honum þó tekist að leigja sér aðra bifreið, gegn greiðslu 80.300 kr.

Sóknaraðili gerir athugasemdir við þessi vinnubrögð og telur að rétt hefði verið að ræða um kostnað vegna viðgerða eftir að þær hefðu farið fram. Þá telur hann að samkvæmt skilmálum varnaraðila hefði borið að afhenda honum aðra bifreið, enda ekkert í skilmálum varnaraðila sem réttlæti að skilja viðskiptavin eftir bíllausan við vegarkant. Jafnvel þó stæði í skilmálum varnaraðila að ekki þyrfti að afhenda nýjan bíl ef bilun væri sök leigutaka þá væri það að steinn eða eitthvað slíkt færi í olíupönnu bifreiðarinnar ekki sök leigutaka heldur einungis óhappatilvik. Þar eð honum hefði ekki verið leyft að skoða undirvagn bifreiðarinnar væri þó ómögulegt að sanna að hann hefði valdið tjóninu fremur en að undirvagninn hefði orðið fyrir höggi fyrir upphaf leigutímans. Jafnframt gerir sóknaraðili athugasemdir við að upplýsingar sem hann fékk um tryggingar bifreiðarinnar við upphaf leigutíma hafi verið ófullnægjandi.

Þá rekur sóknaraðili að 2.400 ástralskir dollarar hafi verið skuldfærðir af kreditkorti hans vegna viðgerðarkostnaðar eftir að viðgerð fór fram, án heimildar hans eða undirritunar, og án þess að honum hafi verið veittur kostur á að mótmæla viðgerðarkostnaði eða leita tilboða annars staðar. Þess utan hafi reikningurinn verið á íslensku og ekki sundurliðaður.

Sóknaraðili krefst endurgreiðslu 1716,66 ástralskra dollara, eða sem nemur um 160.000 kr., vegna kostnaðar við leigu af bifreið frá varnaraðila og kostnaðar vegna leigu á bíl frá öðrum aðila.   

 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili tekur fram að skyndilegan olíuleka megi nær undantekningarlaust reka til þess að grjót eða annar hlutur rekist upp í undirvagn bifreiðar. Í þessu tilviki sé svo jafnframt óhugsandi að olíuleki hafi verið til staðar þegar við upphaf leigutíma, enda hefðu áhrif hans þá verið ljós mun fyrr en við komu sóknaraðila á Egilsstaði. Tjón af þessu tagi fáist ekki bætt úr tryggingum og því sé í öryggisskyni alltaf gerð heimildarfærsla á kreditkort leigutaka í slíkum tilvikum.

Þá hafi varnaraðila ekki borið að afhenda sóknaraðila aðra bifreið til afnota enda vísi 13. gr. skilmála leigusamningsins aðeins til þess þegar um er að ræða vélarbilun sem ekki sé á ábyrgð leigutaka. Þar sem sóknaraðili hafi vanrækt að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningi aðila með því að veita úttektarheimild á kreditkort hafi varnaraðili ekki verið reiðubúinn að útvega honum aðra bifreið til afnota.

Þá tekur varnaraðili fram að sóknaraðila hafi vitaskuld verið heimilt að skoða undirvagn bifreiðarinnar enda geti bílaleiga ekki komið í veg fyrir að leigutaki skoði bifreið á hvern þann hátt sem hann kýs. Hins vegar beri varnaraðila engin skylda til að skoða undirvagn bifreiða áður en þær eru afhentar til útleigu.

Hvað varði kostnað að upphæð kr. 211.862 (viðgerð og dráttur) þá hafi hann verið skuldfærður af kreditkorti sóknaraðila, en hann hafnað gjaldfærslunni og því fengið kostnaðinn endurgreiddan. Varnaraðili hafi því ekki fengið tjón vegna skemmda á bifreiðinni bætt.

 

V.
Álit

Ljóst er að bifreiðin sem hér um ræðir varð fyrir tjóni, sem kom fram á leigutímanum, en aðilar hafa deilt um það hver beri ábyrgð á tjóninu. Vegna þessa tjóns hefur varnaraðili greitt 211.862 kr., og gert tilraunir til að skuldfæra þann kostnað af kreditkorti sóknaraðila. Þar sem sóknaraðili hafnaði skuldfærslunni fékk hann þá upphæð endurgreidda og varnaraðili virðist að svo stöddu ekki hafa uppi frekari áform um innheimtu þessarar kröfu. Þar eð sóknaraðili gerir ekki kröfu um það fyrir nefndinni að fá úr því skorið hvort og þá að hvaða leyti honum beri að greiða fyrir umrætt tjón, er það því ekki á valdsviði nefndarinnar að skera úr um það. Er því ekki þörf á því að nefndin taki afstöðu til deilna aðila um það hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að skoða undirvagn bifreiðarinnar eða ekki og hvaða vægi áritun á samninginn þess efnis hafi, né þess hvort mögulegt hefði verið að aka bifreiðinni svo langt sem raun bar vitni án þess að bilunar yrði vart hefði hún verið til staðar þegar við afhendingu, eða því hvort nægilegt hafi verið að senda sóknaraðila reikning á íslensku.

Samkvæmt framansögðu er því aðeins litið til krafna sóknaraðila sem lúta að því annars vegar að fá endurgreitt það sem hann greiddi varnaraðila vegna leigu á bílnum og hins vegar að hann fái endurgreiddan þann kostnað sem hann varð fyrir við að taka bifreið á leigu af öðrum aðila.

Samkvæmt 13. grein leiguskilmála varnaraðila ber leigusala að afhenda leigutaka sambærilegt ökutæki svo fljótt sem auðið er komi til þess að ökutæki bili. Ekki er að finna neinar takmarkanir á þessari skyldu í samningi aðila eða nánari skilgreiningu á „bilun“. Er því ekki fallist á þau rök varnaraðila að 13. gr. eigi aðeins við þegar leigutaki eigi ekki sök á tjóninu, enda ekkert í orðlagi hennar sem réttlætir slíkan skilning. Í því tilviki sem hér um ræðir virðast hins vegar atvik hafa verið þau að varnaraðili hafi neitað að afhenda aðra bifreið nema gegn greiðslu tryggingar. Þar sem sóknaraðili féllst ekki á það endaði með því að hann leigði bifreið af Bílaleigu Akureyrar og var leiguverðið 80.300 kr. Þar sem ekki verður séð að varnaraðila hafi verið heimilt að skilyrða afhendingu nýrrar bifreiðar með þessum hætti, og ekki verður séð að varnaraðili hafi gefið neinn afslátt af leiguverði vegna þess tíma sem sóknaraðili hafði ekki bifreið frá honum að leigu, er það mat nefndarinnar að varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila þennan kostnað eða 80.300 kr.

Kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu leiguverðs þeirrar bifreiðar sem hann leigði upphaflega af sóknaraðila er hins vegar hafnað, enda ekki séð hvaða rök liggja að baki slíkri kröfu. Samkvæmt framangreindri niðurstöðu felur afstaða nefndarinnar enda í sér að sóknaraðili skuli vera eins settur og ef varnaraðili hefði réttilega efnt samning aðila og afhent nýjan bíl til afnota eftir að fyrri bifreiðin bilaði.

 

 

 

Úrskurðarorð

Varnaraðili, F, greiði sóknaraðila, X, kr. 80.300.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður

Helga Árnadóttir                                                                                 

 Hildigunnur Hafsteinsdóttir