Mál nr. 5/2016

sunnudagur, 1. júlí 2018

Hinn 8. september 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 5/2016. 

X og Y

 

gegn
 

A

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X og Y, hér eftir nefnd sóknaraðili og ferðaskrifstofan A., hér eftir nefnd varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags. 14. júní 2016. Með tölvupósti nefndarinnar, dags. 15. júní, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri, sem hann gerði með tölvupósti, dags. 21. júlí. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum með tölvupósti nefndar, dags. 24. júlí. Engar frekari athugasemdir bárust og var málið í kjölfarið tekið til meðferðar á fundi nefndarinnar þann 8. september sl.

II.
Málavextir

Sóknaraðili keypti af varnaraðila 10 daga alferð til Benidorm á Spáni þann 3. mars 2016, og greiddi staðfestingargjald að upphæð 40.000 kr. á mann, eða samtals 80.000 kr. Fyrirhugað var að ferðin stæði frá 16. til 26. ágúst 2016. Þann 17. maí 2016 mætti sóknaraðili á skrifstofu varnaraðila og afbókaði umrædda ferð og óskaði eftir endurgreiðslu á staðfestingargjaldi. Varnaraðili neitaði að endurgreiða staðfestingargjaldið með vísan í skilmála sína þar sem fram kom að staðfestingargjald væri óafturkræft. Varnaraðili lagði fram sáttarboð þess efnis að sóknaraðili myndi bóka aðra ferð gegn 7.000 kr. breytingargjaldi. Aðila greinir á um hvort varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila staðfestingargjald ferðarinnar.

 

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili staðhæfir að honum hafi aldrei verið bent á, af starfsfólki varnaraðila, að fara á heimasíðu varnaraðila til að kynna sér skilmála varðandi m.a endurgreiðslu staðfestingargjalds. Þá hafi aldrei komið neitt fram, í tölvupóstasamskiptum sóknaraðila við varnaraðila, varðandi skilmála né vísað til þeirra með öðrum hætti.

Sóknaraðili vísar í ákvæði laga nr. 80/1994 um alferðir. Í 4. gr. laganna komi fram reglur um gerð og efni samninga um alferðir. Þar sé kveðið á um að samningur um alferð skuli vera gerður skriflega eða á annan hátt sem er ótvíræður og aðgengilegur fyrir farkaupa og skuli farkaupi fá afrit af samningnum. Í III. kafla laganna séu ákvæði er varði afpöntun, framsal og verðbreytingar á alferðum. Þar komi fram í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. að áður en samningur sé gerður skuli farkaupa tilkynnt hvaða skilmálar gildi um afpantanir. Sóknaraðili heldur því fram að það hafi ekki verið gert í sínu tilviki. Í 3. mgr. sömu greinar komi svo fram að áður en samningur sé gerður skuli seljandi alferðar veita farkaupa upplýsingar um hvaða möguleikar séu á að gera tryggingarsamning eða tryggja sig á annan hátt gegn fjárhagslegu tjóni í þeim tilvikum þegar farkaupi geti ekki tekið þátt í alferð. Sóknaraðili heldur því fram að það hafi heldur ekki verið gert.

Sóknaraðili tekur fram að hann hafi pantað umrædda ferð með tölvupósti og að samskipti hans við starfsmenn varnaraðila hafi að mestu leyti átt sér stað í gegnum tölvupóst. Þá greiddi sóknaraðli staðfestingargjald ferðarinnar með millifærslu. Sóknaraðili staðhæfir að á engum tímapunkti hafi honum verið bent á skilmála varnaraðila eða að vísað hafi verið til þeirra. Þá hafi aldrei komið fram að staðfestingargjald væri óafturkræft.

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili vísar til þess að skilmálar hans séu aðgengilegir á netinu, þar sem viðskiptavinir hans geti kynnt sér þá. Varnaraðili telur þetta fyrirkomulag fullnægjandi af hans hálfu. Þá sé staðfestingargjald ekki endurgreiðanlegt, nema bókun sé afpöntuð, innan viku frá dagsetningu bókunar. Sé afbókað innan þessarar tímamarka er staðfestingargjaldið að fullu endurgreitt að undanskyldu 4.900 kr. þjónustugjaldi. Skilmálar varnaraðila séu eftirfarandi:

„Eftir að bókun hefur verið gerð m.v. að lágmark séu 6-8 vikur í brottför, hafa viðskiptavinir 7 daga til að draga ferðapöntun til baka að frádregnu 4.900 kr. þjónustugjaldi fyrir hverja bókun. Að þeim tíma liðnum er bókun bindandi og skv. skilmálum um afbókanir.“

 

V.
Álit

Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar starfar á grundvelli ákvæða samþykkta úrskurðarnefndarinnar dags. 23. febrúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndar tekur úrskurðarnefndin til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur samþykktanna gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um bótagreiðslur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

 

Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er varnaraðli í máli þessu hvorki aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar þegar mál þetta er tekið til meðferðar og úrskurðar hjá nefndinni, né heldur á þeim tímapunkti er umrædd ferð var keypt. Að framansögðu meðteknu og með vísan til 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndarinnar ber nefndinni að frávísa máli sóknaraðila.

 

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu X og Y á hendur A er vísað frá nefndinni.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður
Lárus M. K. Ólafsson
Hrannar Már Gunnarsson