Mál nr. 6/2015

mánudagur, 2. maí 2016

 

Hinn 11. febrúar 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 6/2015. 

X

 

gegn
 

F

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X en Y fer samkvæmt umboði með fyrirsvar hans fyrir nefndinni, hér eftir nefndur sóknaraðili, og F bílaleiga, hér eftir nefnd varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 11. nóvember 2015. Með bréfi nefndarinnar dags. 13. nóvember var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með bréfi dags. 29. nóvember. Með bréfi nefndarinnar 3. desember var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda og var hún kunngerð með tölvupósti hinn 11. desember og í kjölfarið send varnaraðila. Engin frekari gögn bárust og var málið tekið til meðferðar á fundi nefndarinnar hinn 11. febrúar. Í kjölfar fundar nefndarinnar var þó ákveðið að kalla eftir ákveðnum upplýsingum frá ABÍ, eða Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi, og bárust þær nefndinni hinn 19. febrúar. Í kjölfar þess var málið tekið til úrskurðar.

 

II.
Málavextir

Sóknaraðili leigði bifreið í langtímaleigu af varnaraðila. Aðfararnótt 5. apríl 2015, meðan á leigutíma stóð, ók óþekktur aðili á bifreiðina án þess að láta vita um ákeyrsluna og tjónið sem af henni hlaust. Aðila greinir á um umfang þessa tjóns og hvort sóknaraðili eigi að greiða tjónið.

 

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili lýsir því að meðan á leigutíma stóð hafi verið ekið á bifreiðina að næturlagi og stungið af. Þetta hafi átt sér stað aðfararnótt 5. apríl 2015, og eftir að hafa fengið leiðbeiningar hjá varnaraðila hafi sóknaraðili kært árekstur og afstungu til lögreglu, en lögregluskýrsla er dagsett 14. apríl 2015. Númer bifreiðarinnar, en vitni hafi verið að árekstrinum, hafi verið af annarri, afskráðri bifreið, og því hafi ekki tekist að hafa uppi á tjónvaldinum. Daginn eftir, eða hinn 15. apríl, hafi bifreiðin verið tjónaskoðuð á vegum varnaraðila. Þar hafi sóknaraðili farið fram á að hann yrði látinn vita hver kostnaður við viðgerðina yrði og tók einnig fram að ef hann bæri kostnað vegna þessa mundi hann sjálfur gera við bifreiðina innan leigutímans.

Eftir að bifreiðinni var skilað hafi sóknaraðili hins vegar fengið reikning að upphæð 100.000 kr. frá varnaraðila, en tjónið hafi þá verið sagt kr. 104.497. Sóknaraðili hafi hins vegar fengið tilboð í umrædda viðgerð frá CABAS verkstæðum sem hafi hljóðað upp á 0-50.000 kr. Þessi tilboð hafi bæði verið munnleg þegar mætt hafi verið með bifreiðina á verkstæði og eins skrifleg og gerð á grundvelli ljósmyndar af bifreiðinni.

Sóknaraðili gerir margvíslegar athugasemdir við þessa afgreiðslu af hálfu varnaraðila, og krefst þess fyrir nefndinni að reikningur vegna 100.000 kr. sjálfsábyrgðar verði látinn falla niður. Þá sé misræmi í málflutningi varnaraðila þegar kemur að upphæð sjálfsábyrgðarinnar. Þannig komi fram á leigusamningi aðila að eigin áhætta sé 100.000 kr., en samkvæmt upplýsingum frá viðkomandi tryggingafélagi sé hún 150.000 kr. Varnaraðili hafi svo haldið því fram að viðgerðarkostnaður hafi verið 104.000 kr. sem sé hærri en umrædd eigin áhætta. Með afgreiðslu sinni, seinagangi og slælegri upplýsingagjöf hafi varnaraðili eyðilagt möguleika sóknaraðila á því að sækja bætur gegnum ABÍ eða að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Þá hafi varnaraðili hvorki gert skriflega grein fyrir viðgerðarkostnaði né leitað tilboða frá fleiri en einum viðgerðaraðila, eins og lofað var að gera.

Sóknaraðili tekur einnig fram að við upphaf leigutíma hafi verið rispur á bílnum og dæld í hurð.

Þá kvartar sóknaraðili yfir því að vísitöluútreikningur vegna leigusamningsins sé vitlaus, ekki sé rukkað nema þegar vísitöluútreikningur leiði til hækkunar og með þessu sé varnaraðili að taka sér lán með sjálftöku frá leigutaka.

 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili rekur að þegar sóknaraðili hafi komið með bifreiðina í tjónaskoðun hafi verið fallist á að innheimta ekki kostnað vegna tjónsins að svo stöddu heldur gefa sóknaraðila færi á að komast að því hver tjónvaldur væri. Þar sem það hefði ekki tekist, og ekkert tryggingarfélaganna hefði fengið skýrslu um atvikið sem gerði kleift að sækja tjónið í ábyrgðartryggingu tjónvalds, hefði varnaraðili hins vegar engar forsendur til að sækja bætur vegna tjónsins annað en til sóknaraðila.

Þá rekur varnaraðili að ekki hafi verið mögulegt að fá tjónið bætt úr kaskótryggingu bifreiðarinnar, þar sem eigin ábyrgð vegna þeirrar tryggingar sé 150.000 kr. og tjónið hafi ekki náð þeirri upphæð.

Því telji varnaraðili sig hafa leitað allra annarra leiða til að fá tjón sitt bætt frá öðrum en sóknaraðila.

Hvað varði kostnaðinn, sem hafi verið áætlaður 104.497 kr., hafi sú upphæð verið fundin með því að nota CABAS tjónamat, en það sé í samræmi við vinnureglur varnaraðila að miða við slíkt mat í upphafi. Endanleg upphæð hafi hins vegar verið lægri, eða kr. 77.977 og krafan á hendur sóknaraðila hafi verið lækkuð í samræmi við það. Varnaraðili hafi leitað tilboða frá tveimur verkstæðum vegna umræddrar viðgerðar og hafi því lægra verið tekið. Verður að skilja málflutning varnaraðili sem svo að hann fari fram á að sóknaraðili verði gert að greiða umrædda upphæð, kr. 77.977.

Hvað varði umfang viðgerðarinnar skipti það svo ekki máli þó stuðarinn hafi verið rispaður áður en bifreiðin komst í vörslur sóknaraðila. Það breyti því ekki að þrjár rispur hafi komið á stuðarann við ákomuna og því hafi verið nauðsynlegt að heilsprauta hann. Þá sé ekki hægt að miða við tilboð þau sem sóknaraðili hafi fengið vegna viðgerðarinnar þar sem þau hafi verið unnin á grundvelli ljósmynda af bifreiðinni en ekki skoðun á henni.

 

V.
Álit

Meðal gagna málsins eru samskipti sóknaraðila við lögreglu. Af þeim virðist sem vonlaust hafi verið talið að finna þá bifreið sem tjóninu olli eða ökumann hennar. Er það álit nefndarinnar að þar sem lögregla virðist ekki hafa talið miklar líkur á að tjónvaldur fyndist verði að telja að það hefði verið ógerlegt fyrir sóknaraðila eða varnaraðila að hafa uppi á honum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin fékk frá ABÍ bætir sjóðurinn ekki tjón af völdum óþekktra ökutækja. Hefði það því í öllu falli verið skilyrði fyrir bótagreiðslu frá ABÍ að umrædd bifreið fyndist, en sjóðnum er ætlað að bæta tjón af völdum bifreiða sem eru ekki með ábyrgðartryggingu í gildi. Jafnvel þótt verklag varnaraðila og vinnuhraði hefði verið með einhverjum öðrum hætti en raun varð á verður að telja afar hæpið að réttur hefði skapast til greiðsla frá ABÍ.

Verður því að gera ráð fyrir því að eina leiðin til að fá umrætt tjón bætt hefði verið að sækja í kaskótryggingu bifreiðarinnar. Felur það jafnframt í sér að sóknaraðila ber að bæta tjónið að því marki sem það fengist ekki bætt úr kaskótryggingu, eða upp að hámarki sjálfsábyrgðar, sem í þessu tilfelli er 100.000 kr. samkvæmt samningi aðila, og gildir þá einu þó samningur varnaraðila við tryggingafélag sitt kveði á um 150.000 kr. sjálfsábyrgð. Þá telur nefndin það jafnframt skýrt af 31. og 38. gr. skilmála leigusamningsins að sóknaraðila beri að bæta tjón af þessu tagi að því marki sem það fengist ekki bætt úr kaskótryggingu, rétt eins og hann þyrfti að bera umrætt tjón væri bifreiðin í eigu hans, en ekki leigubifreið.

Samkvæmt gögnum frá varnaraðila var leitað tilboða frá tveimur verkstæðum vegna umræddrar viðgerðar. Þau gögn bera einnig með sér að lægra tilboðinu hafi verið tekið. Endanlegur kostnaður þeirrar viðgerðar, samkvæmt framlögðum reikningi, var svo kr. 77.977 kr., án virðisaukaskatts. Meðal gagna frá sóknaraðila fylgdi vissulega eitt tilboð frá verkstæði sem hljóðaði upp á mun lægri tölu en 77.977 kr. Ekki kemur þó fram með hvaða hætti það tilboð var unnið, en svo virðist sem það hafi verið gert á grundvelli ljósmyndar af bifreiðinni, en ekki skoðunar á henni. Í því tilboði er ekki gert ráð fyrir málningarvinnu, sem er stærsti kostnaðarliðurinn í endanlegum reikningi. Sóknaraðili hefur ekki fært rök fyrir því að slík málningarvinna hafi ekki verið nauðsynleg, og með hliðsjón af framangreindu hefur ekki verið sýnt fram á að kostnaður vegna endanlegrar viðgerðar hafi verið úr hófi. Þá verður ráðið af samningi aðila að sóknaraðila hafi ekki verið heimilt að láta fara fram viðgerð á bifreiðinni, sbr. 26. gr. leiguskilmálanna, og skipti þá ekki máli hvað áskilnað hann hafi sett fram þess efnis við tjónaskoðun bifreiðarinnar. Þá verður að fallast á það með varnaraðila að það hafi verið eðlileg ákvörðun að freista þess ekki að fá tjónið bætt úr kaskótryggingu bifreiðarinnar, enda ljóst að tjónið mundi ekki ná fjarhæð sjálfsábyrgðar. Hins vegar er óhjákvæmilegt að líta til þess að samkvæmt ástandslýsingu á bifreiðinni við upphaf leigutíma voru rispur til staðar á stuðara þegar við upphaf leigutíma. Með heilsprautun stuðara, verður að gera ráð fyrir að einnig hafi verið gert við þær rispur, og varnaraðili því, eftir viðgerðina, fengið bifreiðina í betra ástandi hvað þetta varðaði en hún var í við upphaf leigutíma. Þar eð rétt þykir að varnaraðili fái tjón sitt bætt, en hagnist ekki á viðgerðinni, er með hliðsjón af þessu rétt að gera honum að greiða 1/4 hluta viðgerðarkostnaðarins, eða sem nemur kr. 19.494.

Ber sóknaraðila því að greiða varnaraðila kr. 58.483 vegna umrædds tjóns.

Hvað varðar athugasemd sóknaraðila um að vísitöluútreikningur varnaraðila vegna leigusamningsins sé vitlaus, verður ekki ráðið af málatilbúnaði hans að nein sérstök töluleg krafa sé gerð vegna þess, og þá fylgja þessari athugasemd hvorki sérstakir útreikningar né ítarlegri rökstuðningur, svo sem væri þó nauðsynlegt svo tækt væri fyrir nefndina að taka sérstaka afstöðu til þessa atriðis. Er kvörtun sóknaraðila að þessu leyti því vísað frá nefndinni, sbr. 5. gr. samþykkta hennar. Rétt er þó að taka fram að í samskiptum sóknaraðila og varnaraðila, sem lögð voru fyrir nefndina, tekur starfsmaður varnaraðila fram að hann sé reiðubúinn að láta skoða leiguverðið og endurreikna það óski sóknaraðili þess. Ekki liggur annað fyrir en það boð sé enn í gildi og að sóknaraðili geti því farið fram á slíkan endurútreikning.

Auk ofangreinds ágreinings greinir aðila á um það hvort bifreiðinni hafi verið skilað á opnunartíma bílaleigunnar, og er í gögnum málsins að finna rök bæði með og á móti staðhæfingu sóknaraðila um að bifreiðinni hafi verið skilað á opnunartíma. Ekki verður séð að úrlausn um það atriði hafi áhrif á framangreinda niðurstöðu nefndarinnar og verður því ekki tekin afstaða til þessa ágreinings.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist nokkuð vegna anna nefndarmanna og er beðist velvirðingar á því.

 

 

Úrskurðarorð

Sóknaraðili, X, greiði varnaraðila, F, kr. 58.483 vegna umþrættrar viðgerðar. Öðrum umkvörtunum sóknaraðila er vísað frá.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður

Helga Árnadóttir                                                                   

Hildigunnur Hafsteinsdóttir