Mál nr. 7/2015

Fimmtudagur, 31. mars 2016

Hinn 11. febrúar 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 7/2015. 

X

 

gegn
 

F

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X, búsettur á Írlandi, fyrir sína hönd og Y samkvæmt umboði, hér eftir nefnd sóknaraðilar og F, hér eftir nefnt varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 25. nóvember 2015. Í kjölfarið var óskað frekari gagna frá sóknaraðila, sem bárust hinn 10. desember. Með bréfi nefndarinnar hinn 11. desember var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með bréfi dags. 12. desember. Með bréfi nefndarinnar 14. desember var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda og var hún kunngerð samdægurs með tölvupósti og í kjölfarið send varnaraðila. Engin frekari gögn bárust og var málið því tekið til úrskurðar.

II.
Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins keyptu sóknaraðilar gistingu á F dagana 23. til 25. október sl. Uppgefið verð í evrum skv. bókun var 232.20 og var upphæðin óendurgreiðanleg við bókun.

Fyrri nóttina voru sóknaraðilar ósáttir við hávaða sem barst frá „American Bar“ og gátu þeir að sögn ekki sofið vegna hans. Ekki var hægt að flytja sóknaraðila í annað herbergi þá um nóttina, en þau fengu eyrnatappa til afnota. Morguninn eftir, eftir aðeins einnar nætur dvöl, ákváðu sóknaraðilar að yfirgefa hótelið og kaupa gistingu annars staðar.

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðilar segjast ekki hafa getað sofið um nóttina vegna hávaða frá „American Bar“ sem er í nágrenni hótelsins, en hávaðanum hafi ekki linnt fyrr en fimm um morguninn. Þá hafi eyrnatappar, sem þau fengu í kjölfar þess að hafa kvartað undan hávaða klukkan eitt um nóttina, ekki dugað til að útiloka hávaðann. Þar sem þau hafi ekki viljað eiga hættu á annarri svefnlausri nótt hafi þau ákveðið að flytja sig á annað hótel strax eftir fyrri gistinóttina. Sóknaraðilar hafi verið mjög ósátt við þessar aðstæður, m.a. vegna þess að á heimasíðu hótelsins komi fram að herbergin séu vel hljóðeinangruð eða „well sound-insulated“.

Með kvörtun sóknaraðila fylgja einnig afrit af tölvupóstsamskiptum við starfsmann varnaraðila, sem hefur hafnað öllum kröfum um endurgreiðslu.

Sóknaraðilar fara fram því fram á fulla endurgreiðslu gistingarinnar, eða sem nemur 232,20 evrum, enda telja þau markaðssetningu varnaraðila hafa verið misvísandi. Jafnframt fara þau fram á afsökunarbeiðni frá varnaraðila.

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Í tölvupósti til sóknaraðila á fyrri stigum málsins tekur fulltrúi varnaraðila fram að honum sé kunnugt um hávaðann sem berist frá götunni, enda sé það eina umkvörtunarefni gesta á bókunar- og matssíðum, og því séu herbergi hljóðeinangruð („soundproofed as you could read on booking.com, according to the European building standards“). Varnaraðili hafi enga stjórn á utanaðkomandi hávaða en bjóði gestum sínum upp á eyrnatappa eigi þeir erfitt með svefn. Þá hefðu sóknaraðilar getað vænst þess að töluverður hávaði bærist af götunni enda hótelið staðsett í miðbænum þar sem fjörugt næturlíf væri um helgar. Þá sé sumum herbergjum hótelsins sérstaklega lýst sem „quieter“ og hljóti sú lýsing að gefa þeim sem eigi erfitt með að festa svefn tilefni til að bóka slíkt herbergi. Það hafi sóknaraðilar hins vegar ekki gert.

Fyrir nefndinni hafnar varnaraðili því að biðjast frekari afsökunar en þegar hafi verið gert, varnaraðili geti ekki komið í veg fyrir hávaða sem berist utan frá og þá sé húsið byggt í samræmi við allar reglur hvað varði hljóðeingrun, auk þess sem herbergi séu búin myrkvunartjöldum. Þá hafi varnaraðili ítrekað kvartað til lögreglu vegna hávaða frá „American Bar“ en án árangurs. Jafnframt lýsir varnaraðili því yfir að hann hefði vonað að sóknaraðili færi með málið lengra en þá til þeirra sem bæru ábyrgð á leyfisveitingu til „American Bar“.

Þá gagnrýnir varnaraðili hugtakanotkun sóknaraðila; þannig segi á heimsíðu varnaraðila að herbergið sé „well sound insulated“ en ekki „well sound proofed“ og sé stigsmunur á merkingu þessara hugtaka. Hótelið sé að öllu leyti í samræmi við byggingarreglugerðir en það feli ekki í sér að það sé algerlega hljóðeinangrað og „well“ geti ekki boðið upp á þann skilning.

Varnaraðili hafnar því öllum kröfum um endurgreiðslu.

V.
Álit

Um starfsemi varnaraðila gilda lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, auk laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Um viðskipti aðila gilda jafnframt grundvallarreglur samninga- og kröfuréttar.

Hvað varðar kröfu sóknaraðila um afsökunarbeiðni frá varnaraðila, ber að taka fram að nefndin einskorðar sig við að úrskurða um einkaréttarlegar, fjárhagslegar kröfur neytenda gagnvart fyrirtækjum, en hefur ekki vald til að knýja fyrirtæki til ákveðinna aðgerða eða háttsemi. Þegar af þeirri ástæði er rétt að vísa kröfu sóknaraðila um afsökunarbeiðni frá nefndinni.

Varnaraðili hefur ekki mótmælt því sem slíku að hávaði frá „American Bar“ hafi gert sóknaraðilum torvelt að festa svefn, enda virðist varnaraðila fullkunnugt um að hávaðinn sé nokkurt vandamál, enda hafi hann sjálfur ítrekað leitað til lögreglu vegna hans og eins sé hávaðinn helsta, og jafnvel eina, umkvörtunarefni viðskiptavina. Gengur því nefndin út frá því að hávaðinn hafi verið töluverður.

Það er svo jafnframt afstaða nefndarinnar að vilji fólk kaupa sér gistingu um helgi miðsvæðis í borg sem þekkt er fyrir nokkuð hávaðasamt næturlíf, megi vænta þess að barir og skemmtistaðir séu í nágrenni við hótelið og geti valdið nokkru ónæði.

Hins vegar, eins og rakið er að framan, kemur fram á heimasíðu varnaraðila, sem nefndin hefur skoðað nokkuð ítarlega, að herbergin séu „well sound-insulated“. Þrátt fyrir að ónæði frá „American Bar“ virðist hafa verið nokkurt undanfarið og að eitthvað hafi verið um kvartanir vegna þess verður ekki séð annað en herbergjunum sé enn lýst á þennan hátt. Nefndin getur ekki fallist á að tilefni sé til að taka sérstaklega fram að herbergi séu vel hljóðeinangruð séu hljóðeinangrun þeirra, eins og virðist mega ráða af svörum varnaraðila fyrir nefndinni, í samræmi við byggingarreglugerðir. Í svörum sínum til sóknaraðila talar varnaraðili um hljómeinangrun í samræmi við „European building standards“ en nefndin kom ekki auga á slíkan fyrirvara í kynningu á herbergjunum á heimasíðu varnaraðila. Þá fellst nefndin ekki á þann rökstuðning varnaraðila að sérstakur munur sé á því hvort talað sé um „sound proof“ eða „sound insulated“ enda virðist varnaraðili sjálfur nota þessi hugtök jöfnum höndum og talar þannig um „soundproofed“ í svari sínu til sóknaraðila. Þá er í upptalningu á eiginleikum hótelsins á booking.com talað um „soundproof rooms“.

Það er álit nefndarinnar að þessi kynning varnaraðila á hljóðvist herbergjanna gefi til kynna að til einhverra aðgerða, umfram það sem felst í áskilnaði byggingarreglugerða, hafi verið gripið til að vernda gesti gegn utanaðkomandi áreiti. Samkvæmt svörum varnaraðila virðist þó svo ekki vera.

Verður því að telja að sóknaraðilum hafi verið rétt að líta svo á að þrátt fyrir nálægð hótelsins við iðandi næturlíf gæti þeim orðið svefnsamt í herberginu.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat nefndarinnar að sóknaraðilar eigi rétt á nokkrum afslætti af verði gistingarinnar, og telst hann hæfilega ákvarðaður 120 evrur. Að endingu er rétt að taka það fram að nefndin telur það standa varnaraðila nær en sóknaraðila, sem viðskiptavini hans, að koma kvörtun þessari á framfæri við leyfisveitendur.

 

Úrskurðarorð

 

Varnaraðili, F, greiði sóknaraðilum, X og Y, 120 evrur samtals. Kröfu sóknaraðila um afsökunarbeiðni er vísað frá.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður

Helga Árnadóttir                                                              

Hildigunnur Hafsteinsdóttir