Mál nr. E-10762/2008

Efni dóms: 

Gerður var eins árs tímabundinn leigusamningur. Leigjandinn flutti þó úr íbúðinni mánuði áður en leigusamningurinn rann út. Að sögn hans var það að ósk leigusalans að hann rýmdi íbúðina á þeim tímapunkti þar sem leigusalinn ætlaði sér að selja íbúðina. Leigjandinn hafði hins vegar móttekið greiðsluseðil vegna leigu fyrir síðasta mánuðinn, og greitt hann fyrir mistök. Leigusalinn hafði ekki fengist til að endurgreiða leigjandanum fjárhæðina, og hélt því fram að hann hefði ekki óskað eftir því að leigjandinn rýmdi íbúðina mánuði fyrr. Í niðurstöðu dómsins var bent á að leigusalinn hefði veitt starfsmanni tiltekinnar leigumiðlunar umboð til þess að undirrita og samþykkja leigusamninga, og annað sem viðkom leigu á íbúðinni, fyrir sína hönd.  Sá starfsmaður bar vitni um að hún hefði móttekið símtal frá fasteignasölunni, sem hafði íbúðina til sölumeðferðar, og hefði fasteignasalinn beðið hana um að óska eftir því við leigjandann að hann rýmdi íbúðina mánuði áður en leigutíminn rynni út. Í tölvupóstum til lögmanns leigjandans hafði leigusalinn einnig tekið fram að hann hefði ætlað sér að endurgreiða leigjandanum greiðsluna fyrir síðasta mánuðinn, en dómstóllinn leit á það sem viðurkenningu leigusalans á því að leigjandinn ætti endurkröfurétt á hendur honum. Í ljósi þessa var fallist á kröfur leigjandans um endurgreiðslu á leigugreiðslum fyrir síðasta mánuðinn.

D Ó M U R Héraðsdómur Reykjavíkur 6. mars 2009 í máli nr. E-10762/2008

Númer dóms: 

E-10762

Ártal dóms: 

2008