Mál nr. E-1129/2010

Efni dóms: 

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning þar sem leigjandi leigði íbúð í fjölbýlishúsi af leigusala. Leigjandi greiddi jafnframt tryggingu sem nam þriggja mánaða leigugreiðslum. Þremur árum síðar óskaði leigjandi eftir að fá leigða stærri íbúð í sama fjölbýlishúsi og var það samþykkt af hálfu leigusala. Þegar leigjandinn skilaði af sér minni íbúðinni tók hann að sér að mála hana og var ákveðinn aðili fenginn til verksins. Leigusali taldi framkvæmd verksins ekki ásættanlega og ætlaði að ráðstafa tryggingafé upp í nýja framkvæmd. Leigjandi hafnaði því og óskaði enn fremur við að hætta við fyrirhugaða leigu á stærri íbúðinni þar sem hún væri í slæmu ástandi og ekki í samræmi við þær væntingar og kröfur sem leigjandi mætti gera til hins leigða. Leigusali krafðist enn fremur rúmlega 130.000 kr. greiðslu, sem væri tekin af tryggingarfé, vegna skemmda á tveimur gardínum, skáphurð o.fl. í íbúðinni. Leigusali taldi leigjanda einnig vera í vanskilum með hluta af leigugreiðslum, en það var óumdeilt og viðurkennt af hálfu leigjanda. Í dómi Héraðsdóms er tekið fram að samkvæmt húsaleigusamningi aðila megi eingöngu nota tryggingafé til þess að bæta tjón eða samningsbrot vegna minni íbúðarinnar. Þegar leigjandi flutti í stærri íbúðina var engin trygging lögð og var því hafnað að heimilt væri að ráðstafa tryggingafé vegna einnar íbúðar vegna vangoldinnar leigu á annarri íbúð. Fullyrðingar leigusala um skemmdir á minni íbúðinni voru ósannaðar í málinu, enda hafði engin úttekt af hálfu óháðs aðila farið fram, sbr. húsaleigulög, hvorki fyrir né eftir leigutímann. Leigjandi viðurkenndi hins vegar að hafa skemmt eina skápahurð og var verðmæti hennar, 12.000 kr., dregið af tryggingarfé sem að öðru leyti endurgreitt leigjandanum.

D Ó M U R Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2010 í máli nr. E-1129/2010

Númer dóms: 

E-1129

Ártal dóms: 

2010