Mál nr. E-1613/2009

Efni dóms: 

Aðilar gerðu með sér ótímabundinn leigusamning í desember 2007. Leigusalinn sagði svo upp leigusamningnum í júlí 2008 með sex mánaða uppsagnarfresti í samræmi við húsaleigulög. Leigjandinn flutti hins vegar úr húsnæðinu þremur mánuðum áður en uppsagnarfrestinum lauk. Leigusalinn sendi þá leigjandanum innheimtubréf vegna ógreiddrar leigu fyrir þessa þrjá mánuði. Þar sem leigjandinn greiddi ekki leiguna þrátt fyrir innheimtuaðgerðir höfðaði leigusalinn mál á hendur leigjandanum. Leigjandinn bar því við fyrir dómi að íbúðin hefði verið óíbúðarhæf eftir að leigusalinn lét framkvæma viðgerðir á húsinu sem aðallega voru fólgnar í endurbyggingu skólplagna. Eftir þá viðgerð hafi vatnsyfirborð salernisins ekki tæmst eðlilega þegar hann skolaði niður og einnig hafi salernisskál íbúðarinnar fyllst þegar sturtað var niður á efri hæðinni. Í þau skipti sem leigjandinn hefði ekki verið í leiguhúsnæðinu í einhverja daga hafi svo safnast saman í salernið úrgangur úr salerni efri hæðar og mikinn óþef lagt um alla íbúðina. Kvaðst leigjandinn hafa kvartað ítrekað vegna þessa við leigusalann en engar úrbætur hefðu hins vegar farið fram af hans hálfu. Í júní 2008 hafði leigjandinn svo samband við Heilbrigðiseftirlitið sem kom og skoðaði húsnæðið. Í skýrslu eftirlitsins kom fram að laga þyrfti frárennsli frá salerni, rakaskemmdir væru í stofulofti og að ekki hefði verið málað yfir múrviðgerðir í stofu og eldhúsi. Í framhaldinu lét leigusalinn gera við salernið og sparslaði í litla sprungu í stofuloftinu vegna rakaskemmdanna. Leigjandinn hélt því fram að honum hefði ekki verið skylt að búa í húsnæðinu út uppsagnarfrestinn né greiða leigugreiðslur fyrir þann tíma, þar sem ástand húsnæðisins hafi verið svo slæmt að það hafi verið heilsuspillandi. Með vísan til þessa hefði honum því verið heimilt að rifta leigusamningnum. Í niðurstöðu dómsins var tekið fram að ósannað væri að leigjandinn hefði kvartað yfir ástandi íbúðarinnar þar sem hann hefði ekki kvartað með skriflegum hætti. Hann gæti þar af leiðandi ekki réttlætt riftun á leigusamningnum með vísan til húsaleigulaga þar sem skilyrði fyrir riftun vegna annmarka á leiguhúsnæði séu meðal annars þau að leigjandi hafi kvartað með skriflegum hætti til leigusala og farið fram á úrbætur á húsnæðinu. Þá hafði leigusalinn einnig endurnýjað salernið og gert við sprungur í vegg áður en leigjandinn flutti úr húsnæðinu og var því ekki talið sannað að húsnæðinu hefði verið ábótavant á þeim tíma. Niðurstaða dómsins var því sú að leigjandanum bæri að greiða leigusalanum leigu út uppsagnarfrestinn.

D Ó M U R Héraðsdómur Reykjavíkur mál nr. E-1613/2009

 

Númer dóms: 

E-1613

Ártal dóms: 

2009