Mál nr. E-1988/2009

Efni dóms: 

Um var að ræða tímabundinn leigusamning til eins árs. Í leiguhúsnæðinu bjuggu leigjandi, eiginkona leigjandans og tvö systkini hennar. Ágreiningur var um hvort leigjandi hefði greitt tryggingu að upphæð 260.000 krónur í samræmi við samning aðila. Leigjandinn hélt því fram að leigusali hefði óskað eftir því að fá trygginguna greidda í reiðufé, og hefði hann, maki hans og systkinin tvö hvort um sig greitt 65.000 krónur í tryggingu til leigusala þegar þau skrifuðu undir samninginn. Leigusalinn hélt því aftur á móti fram að tryggingaféð hefði átt að greiða inn á bankareikning hans. Það hefði hins vegar aldrei verið greitt og hefði hann ekki orðið var við það fyrr en við lok leigutímans. Í dómnum var tekið fram að ekki væri tiltekið í leigusamningi hvernig tryggingarféð skyldi greitt. Var því talið ósannað að tryggingarféð hefði átt að greiða inn á tiltekinn bankareikning. Þá var einnig litið til þess að í framlögðum reikningsyfirlitum kom fram að leigjandinn og meðleigjendur hans höfðu tekið út af reikningum sínum fjárhæðir svipaðrar upphæðar og tryggingarféð var, á svipuðum tíma og leigusamningurinn var gerður. Þótti það styðja fullyrðingar leigjandans um það hvernig staðið hefði verið að greiðslu tryggingarfjárins. Fullyrðing leigusalans um að hann hefði ekki kannað fyrr en ári eftir að leigusamningur var gerður hvort tryggingarféð hefði verið greitt þótti hins vegar ótrúverðug. Þar sem leigusalanum tókst ekki að sanna að tryggingarféð hefði ekki verið greitt var fallist á kröfu leigjandans um endurgreiðslu á tryggingafénu. Þá var einnig deilt um það hvort leigjandinn ætti rétt á endurgreiðslu vegna ofgreiddrar leigu. Leigjandinn hélt því fram að við lok leigutímans hefði hann flutt úr húsnæðinu í samræmi við efni leigusamningsins. Vegna misskilnings hans um að leigan væri eftirágreidd hefði hann hins vegar greitt mánaðarleigu, 130.000 krónur við lok leigutímans. Mistökin komu þó fljótt í ljós og óskaði leigjandinn þá eftir endurgreiðslu. Leigusalinn hefði hins vegar ekki viljað verða við því og hélt hann því fram að aðilar hafi gert með sér munnlegan leigusamning um leigu á íbúðinni þrjá mánuði til viðbótar umsömdum leigutíma samkvæmt hinum skriflega leigusamningi, og hafi umrædd greiðsla verið leiga fyrir fyrsta mánuðinn samkvæmt þeim samningi. Var ekki fallist á það og vísað til þess að leigusalanum hefði ekki tekist að sanna að samið hefði verið um áframhaldandi leigu umfram þann tíma er kveðið var á um í leigusamningum. Var leigusala því einnig gert að endurgreiða leigjandanum leigu að upphæð 130.000 kr.

D Ó M U R Héraðsdómur Reykjavíkur í máli nr. E-1988/2009

Númer dóms: 

E-1988

Ártal dóms: 

2009