Mál nr. E-489/2015

Efni dóms: 

Leigutaki höfðaði mál þar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess hvernig ástand leiguíbúðar var þegar hún var afhent leigutaka. Leigusamningur var gerður í desember 2010 til tólf mánaða en hann var síðan endurnýjaður til fimmtán mánaða að þeim tíma liðnum og svo aftur ótímabundið eftir þann tíma. Strax í upphafi leigutíma kvartaði leigutaki vegna leka í íbúðinni sem var lagfærður sex vikum seinna af leigusala en engin rakamæling fór fram. Leigutaki fór þó að finna fyrir líkamlegum einkennum sem hann taldi mega að rekja til myglusvepps. Í júní 2014 var aðili fenginn til að meta innbú leigutaka og taldi hann ástandi íbúðarinnar verulega ábótavant vegna mikils raka og að farga þyrfti stórum hluta innbús. Sveppagróður mældist yfir viðmiðunarmörkum í íbúðinni um sama leyti. Af þeim sökum krafðist leigutaki þess að leigusali yrði dæmdur bótaskyldur gagnvart sér vegna fjártjónsins. Leigusali byggði á því að hann hafi ekki fengið til sín kvartanir, eins og húsaleigulög gera ráð fyrir, og því gæti hann ekki borið ábyrgð á ástandi íbúðarinnar. Einnig byggði leigusali á því að leigutaki hefði ekki náð að sýna fram á neitt raunverulegt tjón og að sér hafi ekki verið gert kleift að vera viðstaddur þegar úttektir fóru fram á húsnæðinu. Dómurinn taldi leigutaka ekki hafa sýnt fram á að hann hafi kvartað vegna ástandsins og að úttektir hafi farið fram einhliða. Þannig gat dómurinn ekki byggt á þeim við úrlausn málsins. Af þeim sökum var leigutaki ekki talinn hafa sýnt fram á að tjón hans mætti rekja til háttsemi, eða vanrækslu, leigusala og var leigusali því sýknaður í málinu.

 

Númer dóms: 

489

Ártal dóms: 

2015