Mál nr. E-745/2011

Efni dóms: 

Leigutaki lagði fram bankaábyrgð í upphafi leigutíma og ritaði ábyrgðarmaður einnig undir þá ábyrgð gagnvart viðkomandi banka sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Umrædd ábyrgð átti að gilda til 15. október 2008 en falla niður að þeim tíma liðnum ef lögmæt krafa hefði ekki komið frá leigusala vegna skemmda eða vanefnda á leigugreiðslum. Þann 14. október 2008 gerði leigusali kröfu í ábyrgðina vegna vatnstjóns sem leigutaki hafði þó látið lagfæra, en leigusali taldi þær lagfæringar ófullnægjandi. Í kjölfarið greiddi bankinn leigusala alla þá fjárhæð sem ábyrgðin tók til og krafði í kjölfarið leigutaka og sjálfskuldarábyrgðarmann hans um endurgreiðslu vegna þeirra fjármuna. Leigutaki hafnaði hins vegar greiðsluskyldu, enda hefði engin úttekt farið fram við lok leigutíma og taldi leigutaki ósannað að íbúðin hefði verið í verra ástandi við lok leigutíma en hún var við upphaf hans. Héraðsdómur taldi bankann ekki hafa aflað sér nægilegra sönnunargagna áður en greitt var samkvæmt bankaábyrgð og ekkert samráð var haft við leigutaka eða sjálfskuldarábyrgðarmann hans. Af þeim sökum taldi héraðsdómur bankann ekki eiga kröfu á leigutaka eða sjálfskuldarábyrgðarmann.

D Ó M U R héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 23. nóvember 2011 í máli nr. E-745/2011

Númer dóms: 

E-745

Ártal dóms: 

2011