Mál nr. E-871/2011

Efni dóms: 

Leigjandi krafðist þess að fá endurgreidda húsaleigu vegna nóvember 2009 þar sem íbúðin hefði verið óíbúðarhæf á þeim tíma vegna veggjalúsar. Stuttu eftir að leigutakinn og fjölskylda hans fluttu í íbúðina, en þau tóku hana á leigu frá og með 1. nóvember,  fóru þau að þjást af útbrotum og kláða. Þau fóru til læknis og í ljós kom að bit frá veggjalús olli útbrotunum. Leigjandinn fékk einnig meindýraeyði til að eitra fyrir veggjalúsunum, og heilbrigðiseftirlitið til að koma og staðfesta að íbúðin væri heilsuspillandi. Ósannað þótti með hvaða hætti lúsin hefði borist í húsnæðið og var leigusalinn talinn þurfa að bera hallann af því. Var því lagt til grundvallar að lúsin hefði verið til staðar þegar leigjandinn flutti inn. Í ljósi þessa og þess að afar heilsuspillandi væri að búa þar sem veggjalýs hefðu hreiðrað um sig var talið að íbúðin hefði verið óíbúðarhæf frá upphafi. Var því fallist á kröfur leigjandans um endurgreiðslu leigu fyrir nóvembermánuð.

Leigusalinn hélt því hins vegar fram að hann ætti kröfu vegna leigu fyrir desember og janúar, en leigjandinn flutti úr íbúðinni í desember. Dómurinn féllst hins vegar ekki á það að leigusalinn ætti rétt á frekari leigu þar sem íbúðin hefði verið óíbúðarhæf frá upphafi.

Þá krafðist leigjandinn þess að fá endurgreitt tryggingarfé/fyrirframgreiðslu sem hann kvaðst hafa greitt til fyrri leigutaka íbúðarinnar samkvæmt samkomulagi við leigusalann. Atvikin voru með þeim hætti að leigjandinn flutti inn í íbúðina 1. nóvember, og tók þá yfir tímabundinn leigusamning fyrri leigjandans, sem vildi losna fyrr úr íbúðinni. Þar sem leigusalinn gat ekki endurgreitt leigjandanum trygginguna komst á samkomulag um það að leigjandinn greiddi fyrrum leigjandanum trygginguna sem hann átti að greiða leigusalanum. Í ljósi framburðar aðila og vitna í málinu og framlagðra gagna var umrætt samkomulag talið sannað. Var því fallist á kröfu leigjandans um endurgreiðslu tryggingarinnar úr hendi leigusala.

D Ó M U R Héraðsdómur Reykjavíkur 12. júní 2012 í máli nr. E-871/2011

Númer dóms: 

E-871

Ártal dóms: 

2011