Mál nr. S-170/2008

Efni dóms: 

Aðilar gerðu með sér ótímabundinn húsaleigusamning 31. júní 2007. Samningurinn tók gildi 1. júlí sama ár en 13. ágúst lýsti leigusali yfir riftun. Gaf leigusali leigjanda 10 daga til þess að yfirgefa íbúðina. Daginn áður en yfirlýsingin var send  höfðu aðilar á vegum leigusala ruðst inn í íbúð leigjanda og með því framið húsbrot, sbr. 231. gr. almennra hegningarlaga. Leigusali gaf engar ástæður fyrir riftun samningsins sem gætu stuðst við riftunarreglur húsaleigulaga en hélt því þó fram að umræddir aðilar væru á hans vegum og í eftirlitsferð samkvæmt 41. gr. húsaleigulaga. Í dómnum var þeim rökum alfarið hafnað þar sem ekkert samráð hafði verið á milli leigusala og leigjanda hvað það varðaði. Þá var því einnig hafnað að leigusali gæti sjálfur sinnt útburðargerð, enda sýslumenn sem sjá um slíkar aðgerðir, sbr. lög um aðför. Var því talið að leigusali og aðilar á hans vegum hafi framið húsbrot. Var þeim dæmd fangelsisrefsing af þeim sökum auk miskabóta.

D Ó M U R Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. nóvember 2008 í máli nr. S-170/2008

Númer dóms: 

S-170

Ártal dóms: 

2008