Mál nr. S-359/2010

Efni dóms: 

Lögreglustjórinn á Snæfellsnesi  höfðaði mál gegn leigusala fyrir húsbrot, með því að hafa 22. mars 2010 ruðst heimildarlaust inn í leiguhúsnæði. Atvik málsins voru þau að leigjandi hafði tekið eignina á leigu á árinu 2009. Ágreiningur reis vegna milli aðila og gerði leigusalinn þá kröfu fyrir dómi að íbúar yrðu bornir út úr húsinu. Því máli lauk með réttarsátt 13. janúar 2010 en samkvæmt henni átti leigjandinn að víkja af eigninni eigi síðar en 1. mars það ár. Mánudaginn 22. mars 2010, barst lögreglunni í Ólafsvík símtal frá sambýliskonu leigjandans. Lögregla fór á vettvang og hitti fyrir konuna sem greindi frá því að leigusalinn hefði komið og rutt sér leið inn á heimilið. Því næst hefði leigusalinn tekið niður af stofuvegg tvö málverk og horfið á brott.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 25. mars 2010 greindi leigusalinn frá því að hún hefði komið að leiguhúsnæðinu til að gæta að því hvort íbúarnir væru fluttir úr húsinu. Að öðrum kosti hefði staðið til að fólk kæmi og rýmdi eignina. Tók leigusalinn fram að hún sem eigandi teldi sig hafa haft fullt leyfi til að fara inn í húsið. Í niðurstöðu dómsins var tekið fram að þessar athafnir leigusalans gætu með engu móti helgast af 41. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, enda aðgangur leigusala að leigðu húsnæði bundinn hæfilegum fyrirvara og samráði við leigjanda. Með framferði sínu var leigusalinn því talinn hafa rofið friðhelgi heimilisins sem varið er af 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu var leigusalinn því talinn hafa gerst sekur um húsbrot sem varðar við 231. gr. almennra hegningarlaga.

D Ó M U R Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. S-359/2010

Númer dóms: 

S-359

Ártal dóms: 

2010