Matvælalöggjöfin

Matvæli skipta neytendur miklu máli. Mikilvægustu kröfur neytenda eru að heilnæmi þessara vara sé tryggt og að fyrir liggi allar nauðsynlegar upplýsingar um þær svo tryggt sé að neytendur geti valið á upplýstan hátt. Eðlilegt er að gera ríkar kröfur til matvæla og eftirlits með þeim og því hafa Neytendasamtökin allt frá stofnun þeirra árið 1953 beitt sér mikið á þessu sviði og fengið ýmsu áorkað.

Upprunaland matvæla
Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að upprunaland komi fram á matvælum. Í reglugerð um merkingu matvæla nr. 503/2005 segir að skylt sé að merkja matvæli með uppruna- eða framleiðslulandi ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar réttan uppruna matvælanna. Árið 2009 var þessari reglugerð svo breytt og nú er kveðið á um að skylt sé að upplýsa um upprunaland matjurta (þar á meðal á grænmetis og kartafla). Árið 2000 var gefin út Evróputilskipun um að merkja skuli uppruna á nautgripakjöti, en það var gert í kjölfar kúariðunnar sem upp kom í nautgripum, sérstaklega í Bretlandi. Þessi tilskipun var tekin upp hérlendis árið 2011. Loks má nefna að skylt er að merkja hunang með upprunalandi.

Fljótlega ganga svo í gildi nýjar Evrópureglur um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda en þar eru m.a. ákvæði um upprunamerkingar á kældu og frosnu svína-, kinda-, geita- og alifuglakjöti. Samkvæmt drögum að innlendri reglugerð er gert ráð fyrir að þessar reglur gangi í gildi hér á landi 13. maí 2015.

Merkingar á erfðabreyttum matvælum
Þegar erfðabreytt matvæli hófu innreið sína á markaðinn í kringum aldamótin hófu BEUC (Evrópusamtök neytenda) baráttu fyrir því að skylt yrði að merkja þessi matvæli sérstaklega og tóku Neytendasamtökin þátt í þessari baráttu. Fljótlega hafði BEUC betur í baráttu sinni og var gefin út Evróputilskipun um að merkja yrði slíkar vörur sérstaklega þannig að neytendur gætu séð að um erfðabreytta vöru væri að ræða. Norðmenn, sem eru í sambærilegri stöðu gagnvart ESB og við, settu sambærilegar reglur hjá sér, en lengi vel svöruðu stjórnvöld kröfum Neytendasamtakanna með því að beðið væri eftir að evrópska tilskipunin yrði tekin upp í EES-samninginn. Loks var gefin út reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs sem tók gildi 1. janúar 2012.

Um miðjan septembermánuð 2012 sendu Náttúrulækningafélag Íslands, Neytendasamtökin og Matvæla- og veitingafélag Íslands 12 vörutegundir sem talið var hugsanlegt að innihéldu erfðabreytt efni í rannsókn hjá þýskri rannsóknarstofu. Í ljós kom að 9 af þessum 12 vörutegundum reyndust innihalda erfðabreytt efni án þess að það kæmi fram á umbúðum. Það er því ekki nægjanlegt að setja reglur heldur þarf að tryggja með virku eftirliti að farið sé eftir þeim.

Takmarkanir á transfitusýrum
Neytendasamtökin börðust lengi fyrir því að notkun á transfitusýrum í matvæli yrði aðeins leyfð í takmörkuðum mæli og sendu bréf til stjórnvalda þar sem hvatt var til að leyfilegt magn transfitusýra í matvælum væri takmarkað. Bent var á að Danir hefðu sett slíkar reglur og miðað við að transfitusýrur í matvælum væru að hámarki 2 grömm af hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni. Þess má geta að BEUC hefur hvatt ESB til að fylgja fordæmi Dana.

Það var því fagnaðarefni þegar þáverandi landbúnaðarráðherra gaf út reglugerð um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. Á heimasíðu Matvælastofnunar eru dregin saman helstu atriði reglugerðarinnar.

Það er ekki að ástæðulausu að Neytendasamtökin ákváðu að leggjast í þessa baráttu. Dönsk yfirvöld hafa rannsakað transfitusýrur ítarlega og niðurstaðan varð sú að þær eru jafnvel óhollari en mettaðar fitusýrur. Þannig valda transfitusýrur jafn mikilli eða jafnvel meiri æðakölkun en mettaðar fitusýrur gera auk þess sem hátt hlutfall transfitusýra í matvælum eykur áhættu á ofnæmi og áunninni sykursýki.

Skráargatið
Neytendasamtökin börðust lengi fyrir því að sænska hollustumerkið Skráargatið yrði tekið upp hér á landi. Svíar hafa notað þetta merki í yfir 20 ár og fyrir 5 árum tóku Danir og Norðmenn það einnig í gagnið hjá sér, enda gegnir það mikilvægu hlutverki til að hjálpa neytendum að velja hollustu vörurnar innan ákveðinna matvælaflokka. Horft er til magns sykurs, fitu, mettaðrar fitu, salts, heilkorna og trefja þegar metið er hvort vörur megi bera Skráargatið. Ísland varð aðili að merkinu í ársbyrjun 2012 og nítján mánuðum síðar var gefin út reglugerð um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla. Þar með er ekkert því til fyrirstöðu að innlend framleiðslufyrirtæki merki sínar vörur með Skráargatinu svo fremi þær uppfylli kröfur sem gerðar eru um notkun þess. Raunar voru sumir framleiðendur þegar byrjaðir að merkja vörur sínar með Skráargatinu, en nú þegar gengið hefur verið formlega frá málum er jafnframt búið að tryggja að leikreglur séu skýrar. Þá er með reglugerðinni tryggt nauðsynlegt eftirlit með því að vörur uppfylli þau skilyrði sem sett eru svo heimilt sé merkja þær með Skráargatinu. Það eru Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sem fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Nú liggja fyrir drög að nýrri reglugerð um notkun Skráargatsins. Þessi drög geta áhugasamir kynnt sér á heimasíðu Mast undir flokknum fréttir. Þar kemur m.a. fram að Skrárgatsreglugerðin sé „lifandi reglugerð sem er endurskoðuð þegar þekking á næringu og/eða breytingar á matvælamarkaði gefa tilefni til“. Þar kemur einnig fram að norrænn starfshópur hafi undanfarin tvö ár unnið að endurskoðun reglugerðarinnar og liggi nýju norrænu næringarráðleggingarnar (NNR 2012) til grundvallar breytingum á reglugerðinni.

HVAÐ VANTAR?

Þó ýmislegt hafi þannig áunnist kalla Neytendasamtökin enn eftir ýmsum nýmælum og breytingum á íslenskri matvælalöggjöf. Hér á eftir verður tæpt á nokkrum atriðum.

Saltinnihald í matvælum
Það getur í mörgum tilvikum verið erfitt fyrir neytendur að átta sig á saltinnihaldi matvæla. Þess vegna hafa Neytendasamtökin sent erindi til stjórnvalda um að reglum verði breytt þannig að neytendur skilji upplýsingar um saltmagn og að eingöngu verði heimilt að nota orðið salt, en ekki natríum eins og nú er. Í nýju Evrópureglugerðinni um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda er gert ráð fyrir að eingöngu megi nota orðið salt. Raunar telja Neytendasamtökin óþarfa að bíða eftir þessari reglugerð og vilja að slíkar reglur verði settar hér án tafar.

Törun umbúða – íshúð
Samkvæmt gildandi reglum ber framleiðendum matvæla að gefa upp nettóþyngd þeirra á umbúðum. Það er þó of algengt að þetta sé ekki gert, t.d. þegar seld eru matvæli úr kjöt- og fiskborðum verslana og frauðbakkar eða aðrar umbúðir eru vigtaðar með. Með nýjum Evrópureglum verður stigið skrefi lengra og litið á íshúð, sem er t.d. algeng á frystum fiskvörum og raunar einnig á kjúklingakjöti, sem hluta af umbúðum og því skuli draga hana frá þyngdinni þegar nettóþyngd vörunnar er gefin upp. Neytendasamtökin telja eðlilegt að þetta verði strax sett í reglur hér á landi.

Broskarlinn
Um aldamótin var svokallað broskarlakerfi tekið upp í Danmörku. Kerfið gengur út á að gera eftirlitsskýrslur heilbrigðisfulltrúa sýnilegar fyrir neytendur. Eftir skoðun heilbrigðisfulltrúa á fyrirtækjum sem selja matvæli til neytenda (s.s. veitingahús, bakarí og ísbúðir) eru skýrslur með niðurstöðunum hengdar upp á áberandi stað svo neytendur geti kynnt sér þær. Einnig eru hengdir upp límmiðar með mynd af broskarli og ef hann er með skeifu er niðurstaðan slök en ef hann brosir breitt er niðurstaðan góð. Þetta kerfi hafa Neytendasamtökin viljað að tekið verði upp hér á landi og ítrekað sent erindi til stjórnvalda. Nú liggur frammi þingsályktunartillaga um að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undirbúa gerð lagafrumvarps, í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, svo unnt verði að taka upp broskarlakerfið hér landi. Í umsögn Neytendasamtakanna um þessa tillögu er lýst yfir stuðningi við hana og hvatt til samþykktar hennar.

Innflutningur á landbúnaðarvörum
Neytendasamtökin hafa um árabil hvatt til þess að innflutningur á landbúnaðarvörum verði heimilaður í miklu meiri mæli en nú er, en viðbrögð stjórnvalda hafa verið takmörkuð. Samtökin hafa talið eðlilegt að fyrsta skrefið verði tekið með því að heimila innflutning á ýmiss konar landbúnaðarvörum sem ekki eru framleiddar hér á landi og að ekki verði lagðir tollar á slíkar vörur. Í september 2011 sendu Neytendasamtökin erindi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þetta efni. Svar barst loks í marsmánuði 2013 og kom þar fram að þá þyrfti að breyta tollalögum en ekki var tekin efnisleg afstaða til erindis samtakanna. Nú hafa Hagar sent sambærilegt erindi og verður fróðlegt að fylgjast með hvaða afgreiðslu það fær hjá ráðherra.

Staðgengdarvörur fyrir mjólk
Komnar eru á markað hér á landi mjólkurvörur sem eru laktósafríar (þ.e. án mjólkursykurs). Með þessu er komið til móts við þá neytendur sem hafa óþol gagnvart mjólkursykri. Þetta er fagnaðarefni, en það er þó svo að neytendur geta haft óþol eða ofnæmi fyrir fleiru í mjólk en mjólkursykrinum og þurfa þá að kaupa mjólk sem framleidd er úr soja, möndlum og hrís svo dæmi séu tekin. Þessar vörur eru ekki framleiddar hér á landi og við innflutning eru lagðir himinháir tollar á þær. Björt framtíð hefur nú lagt fram frumvarp um að tollar verði felldir niður á slíkum vörum. Í umsögn um frumvarpið lýsa Neytendasamtökin yfir eindregnum stuðningi við það og benda á að það sé út í hött að leggja tolla á þessar vörur enda séu þær nauðsynlegar mörgum vegna mjólkuróþols eða ofnæmis.

Umferðarljósin
Fyrir nokkrum árum kom breska matvælastofnunin á fót svokölluðum umferðarljósamerkingum á matvæli. Þetta eru mjög skiljanlegar merkingar á hlutfalli sykurs, salts og fitu. Notaðir eru þrír litir þar sem grænt þýðir borðaðu nægju þína, gult borðaðu í hófi og rautt borðaðu minna. Þessi skilaboð eru einföld og auðvelda neytendum mjög að taka upplýsta ákvörðun, en breskir framleiðendur ráða raunar sjálfir hvort þeir nota þetta kerfi. BEUC hafa kallað eftir einföldum næringarmerkingum framan á umbúðir matvæla og eru umferðarljósin þá vænlegasti kosturinn. Jafnframt krefst BEUC þess að framleiðendum verði skylt að nota þessar merkingar frekar en að það sé valfrjálst eins og nú er raunin í Bretlandi. Þessi leið varð þó ekki fyrir valinu þegar samin var ný Evróputilskipun um matvælamerkingar. Það er miður þar sem ekki er hægt að skylda fyrirtæki til að merkja á þennan hátt nema að um Evróputilskipun sé að ræða. Þarna réðu hagsmunir framleiðenda á kostnað hagsmuna neytenda. Sex þingmenn úr öllum flokkum hafa nú lagt fram þingsályktunartillögu um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefji vinnu við undirbúning að slíkum merkingum hér á landi og styðja Neytendasamtökin eindregið þá tillögu.

Uppþíddar vörur
Alla jafna eru neytendur varaðir við að frysta vöru á nýjan leik eftir að hún hefur þiðnað. Þetta er gert þar sem frysting og síðan uppþíðing tiltekinna matvæla, sérstaklega kjöt- og lagarafurða (sjávar- og ferskvatnsdýr), takmarkar hugsanlega frekari notkun þeirra og getur einnig haft áhrif á öryggi þeirra, bragð og eðlisræn gæði. Samkvæmt Evróputilskipun skal því upplýsa neytendur á viðeigandi hátt um ástand vörunnar, eins og hvort hún hafi verið þídd upp. Raunar er þegar í sænskum reglum ákvæði um að merkja skuli matvæli: „Á ekki að frysta aftur eftir uppþíðingu.“ Neytendasamtökin telja eðlilegt að sams konar regla verði sett hér á landi og að ekki verði beðið eftir innleiðingu Evróputilskipunarinnar.

Neytendablaðið 1. tbl. 2014

Sjá grein í PDF: Matvælalöggjöfin