Móðir ekki talin bera ábyrgð á bílaláni sonar síns

Miðvikudagur, 27. september 2017 - 15:15

Nýlega var kveðinn upp úrskurður í héraðsdómi þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns um nauðungarsölu á íbúð konu vegna vanskila sonar hennar. Í stuttu máli voru málavextir þeir að konan hafði gengist undir ábyrgð fyrir bílaláni sonar síns en þegar sonurinn fór í vanskil með greiðslur af láninu hugðist bankinn ganga að veði í íbúð móðurinnar. Móðirin var ósátt og leitaði til dómstóla til að koma í veg fyrir það. Móðirin byggði á því að þegar lánið var tekið og ábyrgðin gerð hafi lánveitandi, sem var SPRON, ekki fylgt ákvæðum samkomulags banka og sparisjóða við Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra um það hvernig ábyrgðir einstaklinga á lánum væru notaðar auk þess sem ekki hafi verið staðið rétt að greiðslumati. 
 
Arion banki, sem hafði orðið lánveitandi við gjaldþrot SPRON, gat ekki framvísað greiðslumati og samkvæmt gögnum var ljóst að á þeim tíma sem lánið var tekið hefðu tekjur sonar konunnar verið lægri en mánaðarlegar afborgarnir lána að meðtöldum öðrum útgjöldum. Af þeim sökum taldi dómurinn sýnt fram á að sterkar líkur væru á því að niðurstaða greiðslumatsins væri röng og því væri ósanngjarnt að ganga að fasteign konunnar til að innheimta lánið. 
 
Frétt RÚV um málið.