Netsvindl – hvað ber að varast?

mánudagur, 23. apríl 2018 - 13:30

Netverslun er sífellt að aukast enda býður það upp á viss þægindi að hægt sé að kaupa varning án þess að þurfa að fara út úr húsi. Mikið er um að neytendur kaupi af erlendum vefsíðum þar sem gjarnan er hægt að gera góð kaup.

Þrátt fyrir að netverslun geti verið þægileg leið til að kaupa vörur þá fylgir slíkum kaupum ekki alltaf jákvæð upplifun. Evrópulöggjöf veitir neytendum vissa vernd þegar keyptar eru vörur innan Evrópusambandsins, á Íslandi eða í Noregi, en þó er alltaf hætta á að neytendur lendi í gildrum svokallaðra svindlvefsíðna. Því er mikilvægt að neytendur séu vel vakandi.

Algengustu svikamálin á netinu sem kvartað er yfir til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar eru tengd kaupum á raftækjum, notuðum bílum, fölsuðum varningi og áskriftum sem sagðar eru endurgjaldslausar.

Óprúttnir aðilar finna sífellt nýjar leiðir til að hafa fé af grandalausum neytendum en þessar svindlleiðir bera ýmis sameiginleg einkenni. Fólk er t.d. gjarnan blekkt með tilkynningu um að það hafi unnið einhver verðlaun. Gott er að hafa eftirfarandi í huga til að meta hvort verið sé að reyna að svindla á þér:

  • Tilkynning um að þú hafir unnið verðlaun þegar þú hefur ekki tekið þátt í neinni keppni.
  • Tilkynning um verðlaun kemur í óvænti símtali, bréfi eða tölvupósti.
  • Óskað er eftir því að verðlaunahafinn greiði áður en verðlaun eru afhent.
  • Óskað er eftir því að verðlaunahafinn staðfesti verðlaunin strax með því að gefa upp banka- eða kreditkortaupplýsingar.
  • Ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt, þá er það yfirleitt svindl.

 

Merki um trausta vefverslun

Það er merki um trausta vefverslun þegar sjá má ítarlegar upplýsingar um seljandann, hvar og hvernig hægt er að hafa samband við hann, heimilisfang, hvenær fyrirtækið var skráð og skráningarnúmer þess. Síður þar sem litlar sem engar upplýsingar er að finna um seljandann geta gefið til kynna að um svindlsíðu sé að ræða, sér í lagi ef verð á vörunum er óeðlilega lágt. Á traustum vefsíðum ættu einnig að vera birtar upplýsingar um hvernig neytendur getur lagt fram kvörtun og um réttindi þeirra, t.d. um rétt til að hætta við kaup innan ákveðins frests o.s.frv.

Einnig getur verið ráðlegt að kanna hvort einhverjar umsagnir um verslunina megi finna á netinu, en ef vefsíðan er lögmæt ættu að vera til einhver jákvæð ummæli um hana. Neytendur ættu að hafa varann á gagnvart vefsíðum sem hafa nýlega verið settar upp, en það er nokkuð algengt að svikahrappar setji upp vefsíður og taki þær svo niður og setji nýjar upp þegar upp kemst um svindlið. Einnig má finna á netinu ýmsar vefsíður sem sérhæfa sig í því að kanna trúverðugleika annarra vefsíðna, svo sem www.scamadviser.com.

Það er gott ráð að athuga hvort vefsíða sé örugg, en öruggar vefsíður hafa vefslóð sem byrjar á „https://“ í stað http://. Þar stendur stafurinn „s“ fyrir secure, eða öruggt. Einnig er mjög mikilvægt að tölva sem notuð er til að kaupa á netinu sé varin fyrir vírusum og njósnahugbúnaði (e. spyware).

 

 

Farðu varlega með kortaupplýsingar

Áður en neytandi tekur lokaákvörðun um að fjárfesta í vöru á netinu er gott að hafa í huga að allar greiðslur skulu framkvæmdar með eins öruggum hætti og mögulegt er, svo sem með kreditkorti eða notkun á greiðslumiðlunarþjónustu svo sem Paypal. Ef þú þekkir ekki seljandann skaltu forðast að framkvæma greiðslu með bankamillifærslu. Kreditkortaupplýsingar ættu aldrei að vera sendar með tölvupósti. Það er einnig mikilvægt að neytendur kynni sér vel skilmála kaupanna áður en gengist er við þeim og athugi sérstaklega vel hvort einhverjar uppsagnar- eða áskriftarkvaðir fylgi.