Neytendalöggjöf eftir hrun

Segja má að öll lagasetning snerti neytendur, beint eða óbeint. Þannig geta breytingar á ýmiss konar neyslusköttum haft áhrif á neyslumunstur, auk þess sem hækkað verðlag af völdum þeirra hefur bein áhrif á verðtryggð lán. Lög sem á yfirborðinu snerta aðeins fyrirtæki hafa á endanum jafnframt áhrif á neytendur og aukinn rekstrarkostnaður fer oftast út í verðlagið. Lög um stjórnarhætti og eignarhald fyrirtækja hafa jafnframt áhrif á neytendur, enda geta þau breytt markaðsaðstæðum og viðskiptaháttum. Því er í raun ómögulegt að setja fram tæmandi yfirlit yfir „neytendalög“. 

Hér á eftir er ætlunin að fara stuttlega yfir nokkrar lagabreytingar sem átt hafa sér stað frá hruni og varða neytendur sérstaklega. Eðli máls samkvæmt er alls ekki um tæmandi yfirlit að ræða og er t.a.m. breytingum á lögum og reglum sem varða matvæli og umhverfismál sleppt í þessari samantekt.

NÝIR LAGABÁLKAR

Ekki þarf að fjölyrða um áhrif efnahagshrunsins á stöðu neytenda, en þó má finna lagasetningu, og þá ekki síst löggjöf sem stafar frá Evrópusambandinu, sem reikna má með að hafi jákvæð áhrif á stöðu neytenda til frambúðar. Þá hefur langþráð löggjöf, á við innheimtulög og lög um ábyrgðarmenn, loks orðið að veruleika á allra síðustu árum.

Ný lög um neytendalán nr. 33/2013
Taka gildi 1. nóvember 2013.

Þessi lög fela í sér ýmsar jákvæðar breytingar. Sett er þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar, gildissvið laganna er víkkað út þannig að þau nái líka yfir skammtímalán (t.a.m. svokölluð smálán) og skylt verður að framkvæma lánshæfis- eða greiðslumat fyrir lánveitingu. Vissulega hefði mátt ganga lengra varðandi ýmis atriði og skýra nánar afleiðingar þess að veita lán án þess að greiðslumat fari fram áður en þó má telja að þessi lög séu skref í rétta átt að ábyrgari lánveitingum.

Lög um greiðsluþjónustu nr. 120/2011
Tóku gildi 1. desember 2011

Þessi lög fjalla m.a. um starfsemi og fjárhagsgrundvöll greiðslustofnana og eru eingöngu að hluta til „neytendalög“. Hins vegar getur verið gagnlegt fyrir neytendur að kannast við tilvist þessara laga, enda er í þeim að finna t.a.m. ákvæði um skyldur kortafyrirtækis gagnvart korthöfum, hugsanlega ábyrgð korthafa á óheimilum færslum með kreditkortum o.s.frv. Þessi lög eru í heild fremur flókin og óárennileg og hefði væntanlega farið betur á að setja ákvæði um réttindi og skyldur korthafa í sérstakan lagabálk; „lög um greiðslukort“.

Lög um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins nr. 76/2011
Tóku gildi 29. júní 2011

Lögin fela í sér innleiðingu á Evróputilskipun, en markmið þeirra er að greiða fyrir frjálsum viðskiptum innan EES-svæðisins og tryggja jafnræði þjónustuveitenda innan þess. Að miklu leyti fjalla lögin því um réttindi þeirra sem selja þjónustu, skilyrði fyrir leyfisveitingum o.s.frv. Þó er einnig að finna í lögunum ákvæði sem varða réttindi neytenda, svo sem bann við mismunun viðtakenda þjónustu á grundvelli þjóðernis  eða búsetu.

Lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009
Tóku gildi 4. apríl 2009

Með setningu þessara laga voru í fyrsta sinn sett lög um stöðu þeirra sem gangast í ábyrgð fyrir skuldum annarra. Áður hafði, við gerð ábyrgðarsamninga og mat á gildi þeirra, verið notast við samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en aðilar að því samkomulagi voru viðskiptaráðherra, Neytendasamtökin, Samband íslenskra sparisjóða og Samtök banka og verðbréfafyrirtækja. Lögin hafa m.a. þann kost umfram samkomulagið að þau ná til allra lánveitenda á markaði en ekki eingöngu þeirra sem voru aðilar að samkomulaginu. Hins vegar hefur komið í ljós að lögin eru e.t.v. ekki nægjanlega skýr þegar kemur að því að meta hvort ábyrgð skuli vera gild óháð því hvort lánveitandi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt lögunum.

Innheimtulög nr. 95/2008
Tóku gildi 1. janúar 2009

Markmiðið með setningu þessara laga var m.a. það að stuðla að bættum innheimtuháttum og koma í veg fyrir óhóflegan kostnað fyrir skuldara vegna innheimtu á frumstigum. Í þeim er m.a. ákvæði um að skylt sé að senda skuldara innheimtuviðvörun eftir gjalddaga þar sem varað er við því að frekari innheimtu með tilheyrandi kostnaði sé að vænta verði krafan ekki greidd innan tíu daga. Hámarkskostnaður sem innheimta má hjá skuldara vegna innheimtuviðvörunar er nú 950 kr. Það sem kannski helst hefur staðið þessari löggjöf fyrir þrifum er að lögin gilda aðeins um frum- og milliinnheimtu en ekki svokallaða löginnheimtu. Mörkin milli þessara „innheimtutegunda“ geta verið  óskýr en lengst af voru engar reglur um það hversu hár innheimtukostnaður vegna löginnheimtu mætti vera. Nú hafa þó verið settar „leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu“, en þær tóku gildi 1. júlí sl. Því miður eru reglurnar aðeins leiðbeinandi en þó er vonandi að þær leiði til lægri innheimtukostnaðar fyrir skuldara.

BREYTINGAR Á ÝMSUM LÖGUM

Fyrir utan framangreind lög hefur ýmsum eldri lögum sem varða neytendur á einn eða annan hátt einnig verið breytt á undanförnum árum. Hér eru nokkur þeirra nefnd en vitaskuld er talningin ekki tæmandi:

Lög nr. 37/2011, breytingar á lögum um tekjuskatt

Árið 2011 var lögum um tekjuskatt breytt á þann hátt að tekið var skýrt fram að þeir sem fengju greiddar bætur úr sjúkdómatryggingum ættu ekki að greiða tekjuskatt af þeim. Fyrir breytingarnar hafði hins vegar komið fyrir að krafið var um tekjuskatt af slíkum eingreiðslum.

Breytingar á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978

Það er skýr afstaða Neytendasamtakanna að stimpilgjald sé í raun úrelt skattlagning sem eigi að fella niður að fullu. Þessi gjaldtaka dregur mjög úr hreyfanleika neytenda á fjármálamarkaði, auk þess sem hún gerir fólki erfiðara fyrir við fasteignakaup, enda oft um að ræða gjaldtöku sem fólk reiknar ekki með í fjárhagsáætlunum sínum. Þó enn sé langur vegur frá því að stimpilgjald hafi verið afnumið hafa þó verið lögfestar ákveðnar undanþágur frá greiðslu þess. Þannig þarf sá sem kaupir sér íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, ekki að greiða stimpilgjald vegna fasteignalána sem tengjast kaupunum. Þá hafa einnig verið settar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds þegar um er að ræða endurfjármögnun eða uppgreiðslu vanskila.

Lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992

Í kjölfar hrunsins hafa verið settar mjög miklar takmarkanir á viðskiptum með gjaldeyri. Þannig er almennt óheimilt að kaupa erlendan gjaldeyri í reiðufé. Þó er t.a.m. þeim sem hyggja á ferðalög erlendis heimilt að kaupa (takmarkaðan) gjaldeyri í viðskiptabanka sínum ef framvísað er farseðli eða kvittun fyrir kaupum á ferðinni. Ef hætt er við ferðina eða hún fellur niður á að skila gjaldeyrinum aftur. Á tímabili stóð til að gera ferðamönnum líka skylt að skila afganginum, ef einhver væri, eftir ferðalagið en sem betur fer var hætt við það.

Breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 19/1991

Haustið 2010 var sett í lög sérstakt ákvæði um málsóknarfélög þar sem gert er ráð fyrir að þrír einstaklingar eða fleiri geti gert með sér málsóknarfélag sem er þá aðili að dómsmáli fyrir þeirra hönd. Markmiðið var að gera aðilum kleift „að höfða eitt mál þegar fjöldi manna telur sig eiga fjárkröfu á hendur sama aðila af sama tilefni en krafa hvers og eins er það lág að tæplega svarar kostnaði fyrir einn þeirra að höfða dómsmál.“ Ekki hefur þó enn reynt á beitingu þessa ákvæðis fyrir dómstólum. Ekki verður fullyrt hér um ástæður þess en telja má að lögmönnum finnist þessi framkvæmd nokkuð þung í vöfum og að úrræðið sé helst til flókið eða takmarkað. Í það minnsta er ástæða til að kanna hvað veldur og endurskoða þetta ákvæði með einhverjum hætti, enda afar mikilvægt fyrir neytendur að hafa í lögum einhvers konar hópmálsóknarúrræði. Að sama skapi er einnig mikilvægt að fjölga kæru- og úrskurðarnefndum og efla starfsemi þeirra þar sem dómstólaleiðin er afar kostnaðarsöm fyrir einstaklinga.

SKULDAMÁL HEIMILANNA – NÝ OG BREYTT LÖG

Þá eru ótalin öll þau lög sem sett hafa verið eftir hrun og tengjast skuldamálum heimilanna. Ágætis upptalningu á þeim lögum er hins vegar að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara, ums.is, en meðal annarra má nefna lög um greiðsluaðlögun, lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna o.s.frv. Þá hafa einnig verið gerðar ákveðnar breytingar á eldri lögum um skuldamál, en t.a.m. var bætt í lög um gjaldþrotaskipti og lög um nauðungarsölu ákvæðum um að þrotamaður, eða sá sem missir íbúðarhúsnæði sitt á nauðungarsölu, geti búið áfram í húsnæðinu í allt að tólf mánuði frá sölunni gegn því að greiða leigu.

ÞINGSÁLYKTUNARTILLÖGUR

Þá er vert að minnast á tvær þingsályktunartillögur sem varða neytendur sérstaklega. Þannig var á síðasta þingi samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun. Á grundvelli hennar var settur á fót starfshópur sem ætlað er að athuga þróun og regluverk í póstverslun (kaup af netinu) og gera tillögur um lagabreytingar og aðrar ráðstafanir til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki. Neytendasamtökin fögnuðu þessum aðgerðum mjög enda um gamalt baráttumál samtakanna að ræða.

Vorið 2012 var samþykkt þingsályktunartillaga um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og á grundvelli hennar var skipuð nefnd til að framkvæma slíka úttekt. Nefndin, sem Neytendasamtökin áttu meðal annarra aðild að, skilaði ítarlegri skýrslu nú í vor. Í skýrslunni eru settar fram ýmsar góðar tillögur, eins og um afnám stimpilgjalda, eflingu ákvæðis um hópmálsóknir, hert viðurlög við brotum á neytendalöggjöf, takmarkanir á töku seðilgjalda, o.s.frv. Enn hafa engar þessara tillagna orðið að veruleika en vonandi er að svo verði og að skýrslan týnist ekki einfaldlega ofan í skúffu.

Neytendablaðið 3.tbl.2013

Greinin í PDF: Neytendalöggjöf