Neytendasamtökin opna skrifstofu á Akureyri

Miðvikudagur, 4. janúar 2017 - 12:00

Neytendasamtökin opna á næstu dögum skrifstofu á Akureyri, í Alþýðuhúsinu við Skipagötu.

Um árabil ráku Neytendasamtökin skrifstofu á Akureyri en henni var lokað fyrir nokkrum árum. Það er mikið ánægjuefni að nú skuli hafa skapast aðstæður, sem gera samtökunum kleift að opna að nýju skrifstofu á Norðurlandi. Neytendasamtökin starfa á landsvísu og opnun skrifstofunnar á Akureyri er mikilvægt skref að því markmiði að veita öllum félagsmönnum, sama hvar þeir búa á landinu, sem besta þjónustu.

Þá er mikið ánægjuefni að greina frá því að í forsvari fyrir skrifstofu Neytendasamtakanna á Akureyri verður Brynhildur Pétursdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Brynhildur starfaði lengi hjá samtökunum og sat í stjórn þeirra áður en hún tók sæti á Alþingi og veitti m.a. forstöðu skrifstofu samtakanna á Akureyri. Brynhildur mun ennfremur ritstýra Neytendablaðinu og hafa umsjón með heimasíðu samtakanna.

Brynhildur er þessa dagana að koma sér fyrir á nýju skrifstofunni og fljótlega verður greint frá opnunartíma á Akureyri á heimasíðu samtakanna.
Brynhildur Pétursdóttir hefur mjög góða yfirsýn yfir málefni og hagsmunamál neytenda. Hún býr yfir umfangsmikilli reynslu bæði af vettvangi Neytendasamtakanna og á Alþingi Íslendinga. Hún er öflugur liðsmaður í baráttunni fyrir réttindum og hagsmunum neytenda og ég býð hana hjartanlega velkomna til starfa.

Ólafur Arnarson
formaður Neytendasamtakanna