Neytendur vilja sanngjarna fjármálaþjónustu

Þriðjudagur, 15. mars 2011 - 12:00

 

Í dag er alþjóðlegur dagur neytendaréttar og í því tilefni er vakin athygli á baráttumáli sem aðilar að Consumer International (CI), alþjóðasamtökum neytenda hafa valið sem mál dagsins. En Neytendasamtökin hafa verið aðilar allt frá 1960 þegar alþjóðasamtökin voru stofnuð.

Neytendavernd í fjármálum
Veik neytendavernd í fjármálum var ein af meginorsökum fjármálakreppunnar – stjórnlaus vöxtur áhættusamra húsnæðislána í Bandaríkjunum og síðar hrun þeirra er gott dæmi um það. Alþjóðleg viðbrögð hafa hingað til snúist um að koma jafnvægi á fjármálamarkaði, á meðan áhyggjuefni neytenda hefur að stórum hluta verið vanrækt. En skortur á vernd gegn óréttmætum viðskiptaháttum hefur umtalsverð áhrif á efnahaginn í heild sem og neytendur sjálfa.

Reynsla neytendasamtaka innan Alþjóðasamtaka neytenda (CI) bendir til þess að enn skorti mjög neytendavernd í fjármálum. Það hefur leitt til ótal vandamála fyrir neytendur um allan heim, allt frá villandi auglýsingum til ósanngjarnra skilmála og gjalda. Það er erfitt fyrir neytendur að fóta sig á jafn kvikum og breytilegum markaði sem fjármálaþjónusta er.

Ár hvert bætast við 150 milljón nýir neytendur á fjármálamarkaðinn, margir hverjir í löndum með þar sem fjármálalæsi er lítið og neytendavernd af skornum skammti, það gerir málið enn meira aðkallandi.

Alþjóðlegar aðgerðir og G20 ríkin
G20 leiðtogafundurinn er aðalvettvangur fyrir samstarf í efnahagskerfi heimsins. Þar hafa þegar verið tekin nokkur mikilvæg skref svo sem kröfur um lágmarkshöfuðstól banka og  verklagsreglur um eftirlit með fjármálafyrirtækjum, sem hugsanlega gætu ógnað stöðugleika á alþjóðavísu. Að mati Alþjóðasamtaka neytenda (CI) þurfa G20 ríkin líka að beita áhrifum til að efla neytendavernd í fjármálum, ekki bara til að gera neytendum lífið léttara heldur til að ná markmiðinu um langtíma stöðugleika í efnahagskerfinu.

Næsti fundur G20 ríkjanna
G20 ríkin viðurkenndu mikilvægi neytendaverndar í fjármálum á síðasta leiðtogafundi sínum í Seoul. Það var eftir að alþjóðahreyfing neytenda vakti athygli á málefninu með herferð um sanngjarna fjármálaþjónustu fyrir neytendur. Í aðgerðaráætlun í Seoul, fékk Ráð um fjármálastöðugleika (FSB) það verkefni að vinna með öðrum alþjóðlegum samtökum til að finna leiðir til að bæta neytendavernd í fjármálum og gefa skýrslu um það á G20 leiðtogafundinum í Frakklandi í ár.

Ráðið verður að nýta tækifærið til að vinna að hagsmunum neytenda með því að ráðfæra sig við hagsmunasamtök neytenda um allan heim. Ef skýrslan á að taka á málefnum neytenda að fullu, þá þarf hún að vera yfirgripsmikil og skoða þarf allar hliðar neytendaverndar í fjármálum. Að treysta einungis á neytendafræðslu og upplýsingagjöf er einfaldlega ekki nóg – neytendur þurfa líka sanngjarna og heiðarlega fjármálaþjónustu.