Nýjar merkingar á hættulegar vörur

Fimmtudagur, 6. júlí 2017 - 11:30

Merkingar á efnavörum sem innihalda hættuleg efni eða efnablöndur hafa tekið breytingum. Í stað gömlu varúðarmerkinganna á appelsínugulum grunni eru nú komnar nýjar merkingar; tígullaga merki á hvítum grunni. Innan í tíglinum er viðeigandi mynd til að vekja athygli á hættunni sem verið er að lýsa Þessar nýju merkingar eru afrakstur af vinnu Sameinuðu þjóðanna til að koma á samræmdum merkingum á hættulegum efnum um allan heim.

Á heimilum okkar finnast gjarnan efnavörur sem við notum í okkar daglega lífi og geta þær innihaldið hættuleg efni sem valda skaða á heilsu okkar og umhverfi. Hreinsiefni fyrir heimilið er dæmi um efnavörur sem geta innihaldið efni sem valda ertingu á húð, augnskaða eða alvarlegum bruna á húð ef þau eru ætandi og viðarvörn getur innihaldið efni sem eru hættuleg umhverfinu.

Vertu vakandi yfir merkingum á efnavörum því það er réttur neytandans að vera upplýstur um rétta meðhöndlun og hvernig á að nota efnavörur á öruggan hátt. Lestu alltaf á umbúðirnar og fylgdu leiðbeiningum um örugga notkun fyrir heilsu og umhverfið, og mundu að textinn á að vera á íslensku.
Sjá nánari upplýsingar á síðu Umhverfisstofnunar