Óábyrgri markaðssetningu verður að linna

Miðvikudagur, 14. júní 2017 - 14:00

Evrópusamtök neytenda (BEUC) kalla eftir því að matvælaframleiðendur hætti að markaðssetja óhollustu til barna með því að nota teiknimyndapersónur og lukkudýr. Þetta á bæði við um auglýsingar og pakkningar. Flest matvæli sem auglýst eru með þessum hætti standast ekki þau næringarviðmið sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin setur.
Offita meðal barna hefur aukist mikið á undanförnum áratugum og í dag er talið að eitt af hverjum þremur börnum í Evrópu glími við offitu eða ofþyngd. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru óyggjandi sannanir fyrir því að markaðssetning á mat sem inniheldur hátt hlutfall sykurs, fitu og salts tengist offitu hjá börnum.

Óhollur matur gerður spennandi
Evrópusamtök neytenda skoðuðu stöðuna í 13 Evrópulöndum, bæði markaðssetningu á pakkningum og markaðssetningun á netinu. Í ljós kom að framleiðendur nota í ríkum mæli teiknimyndapersónur og lukkudýr, eða fígúrur sem tengjast eigin vörumerki, til að ná til barna enda vita þeir að sú markaðssetning virkar vel. Það er hins vegar alvarlegt áhyggjuefni að slík markaðssetning er mestmegnis á mat sem inniheldur hátt hlutfalls sykurs, salts og fitu, matvæla sem ætti með réttu ekki að beina að börnum. Aðeins fannst ein holl vara sem markaðssett á þennan hátt en það voru frosnir maís-stönglar.

              

Mörg dæmi eru um að fyrirtæki í afþreyingariðnaði eins kvikmyndageiranum selji matvælaframleiðendum rétt til að nota persónur úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum við markaðssetningu. Teiknimyndapersónur, bæði úr kvikmyndum en einnig fígúrur sem tengjast ákveðnu vörumerki (mascots), spila lykilhlutverk í markaðssetningu til barna og það vita seljendur vel. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt að börnum þykir matur jafnvel bragðast betur ef hann er markaðsettur með þessum hætti.

Heilsa barnanna er í húfi
Evrópusamtök neytenda hvetja matvælaframleiðendur til að hætta að nota teiknimyndapersónur og lukkudýr á óhollan mat og fara jafnframt fram á að fyrirtæki í afþreyingargeiranum selji ekki afnotarétt af sögupersónum eða öðru efni til matvælaframleiðenda nema matvaran uppfylli þau viðmið sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin setur. Þá fara neytendasamtök fram á að miðað verði við 16 ára aldur í þeim reglum sem snúa að takmörkunum á markaðssetningu til barna en ekki 12 ára eins og nú er.

Monique Goyens, formaður Evrópusamtaka neytenda, segir flesta, ef ekki alla foreldra, þekkja það að börn suði í verslunum um að fá morgunmat í spennandi umbúðum, jafnvel með þekktri teiknimyndafígúru. Slík markaðssetning geri foreldrum erfiðara fyrir að tryggja börnum sínum heilbrigt og gott mataræði. Slíka markaðssetningu þarf því að stoppa enda eiga börn erfitt með að greina á milli markaðssetningar og afþreyingar. Heilsa barna og ungmenna er í húfi.

Heilbrigðisráðherrar funda
Heilbrigðisráðherrar Evrópusambandsins mun hittast á föstudaginn 16. júní í Brussel til að ræða aðgerðir til að takast á við offituvanda barna. Líklegt er að markaðssetning verði til umræðu og ættu ráðherrarnir að tryggja þær reglur sem settar verði í framtíðinni taki tillit til þeirra áhrifa sem teiknimyndapersónur geta haft á markaðssetningu til barna.