Ósanngjarnir flugskilmálar

Fimmtudagur, 29. júní 2017 - 11:15

Neytendasamtökin telja í hæsta máta óeðlilegt að flugfélög meini farþegum að nýta seinni flugmiða í ferð sem bókuð er í einu lagi hafi viðkomandi einhverra hluta vegna ekki nýtt sér fyrri fluglegginn. Þessi regla er stundum kölluð „no show regla“ og er að mati Neytendasamtakanna ósanngjörn og íþyngjandi gagnvart neytendum. Nýlega fengu Neytendasamtökin eftirfarandi erindi:

„Ég get ekki lengur orða bundist yfir þeirri furðulegu reglu Icelandair að ógilda seinni fluglegg ferðar ef sá fyrri er ekki nýttur. Þetta þýðir að ef ég nýti ekki fyrri legginn (t.d. ef ég fer með öðrum hætti til útlanda, sameina vinnuferð o.s.frv.) er ég búinn að tapa miðanum til baka þrátt fyrir að hafa greitt fyrir báðar ferðir. Stenst þetta lög? Þetta hefur tíðkast hjá Icelandair í 30 ár og skiptir þá engu hvort fólk lætur vita fyrirfram að það nýti ekki fyrri fluglegginn (svo hægt sé að fylla sætið), seinni leggurinn dettur dauður niður.

Um svipað leyti hafði kona samband við Neytendasamtökin en hún hafði misst af fyrra flugi með Air France og var meinað að nýta flugmiðann til baka þrátt fyrir að hafa greitt fyrir hann. Þessi umdeila regla tíðkast víða og er Evrópusambandið með þessi mál til skoðunar.

Hverju svara flugfélögin?

Neytendasamtökin sendu fyrirspurn á Icelandair og WOW og óskuðu eftir upplýsingum hvort slíkir skilmálar væru hjá félögunum og þá rökstuðningi fyrir þeim, væru þeir fyrir hendi hjá félögunum. Í svari WOW kemur fram að þessi regla sé ekki í gildi og farþegum því heimilt að nýta seinni legg flugferðar þótt þeir mæti ekki í þann fyrri. Svar Icelandair var óskýrt og svaraði ekki spurningu Neytendasamtakanna með öðrum hætti en að vísað var til afstöðu alþjóðasamtaka flugfélaga og ferðaskrifstofa (IATA), sjá hér. Séu skilmálar fyrirtækisins skoðaðir er ekki hægt að skilja þá með öðrum hætti en svo að ef farþegi mætir ekki í fyrri fluglegg bókunar þá sé seinni leggurinn afbókaður. Það kemur líka heim og saman við þær kvartanir sem Neytendasamtökin hafa fengið vegna sambærilegra mála, en þau snúa í flestum tilfellum að Icelandair. Samtökin hvetja því Icelandair til að breyta skilmálum sínum þannig að farþegum sé ekki refsað fyrir að nýta ekki fyrri fluglegg enda hefur viðskiptavinurinn þegar greitt fyrir þjónustuna.

Sjá umfjöllun Neytendablaðsins um málið hér