Ráðleggingar um gjafabréf

Fimmtudagur, 23. nóvember 2017 - 13:15

Nú þegar jólin nálgast er viðbúið að margir nýti þann möguleika að gefa gjafabréf í jólagjöf. Neytendasamtökin hafa oft og ítrekað fjallað um gjafabréf og kann sumum að þykja nóg um. Ástæðan er hins vegar sú að allt of margir lenda í vandræðum vegna gjafabréfa og því er rétt að hafa varann á.

Gildistíminn ætti að vera fjögur ár 
Því miður er ekkert í lögum eða reglum á Íslandi sem segir til um það hver lágmarks gildistími gjafabréfa ætti að vera. Það er því allur gangur á því hver gildistíminn er. Samkvæmt lögum er almennur fyrningarfrestur á kröfum fjögur ár en seljandi getur hins vegar sett hvaða gildistíma sem er á gjafabréfið svo framarlega sem það kemur skýrt fram á gjafabréfinu. Neytendasamtökin telja að gildistíminn ætti að vera fjögur ár enda sé gjafabréf eins og hver önnur krafa. Þess má geta að í Kaliforníuríki Bandaríkjanna er gildistími á gjafabréfum fjögur ár lögum samkvæmt.

Furðulegt háttalag
Oftast er kvartað yfir því að seljandi leyfi viðskiptavininum ekki að nýta gjafabréf sem er útrunnið. Slíkir viðskiptahættir verða að teljast mjög sérstakir enda hefur seljandi ekki orðið fyrir neinum skaða, þvert á móti. Búið er að greiða fyrir ákveðna vöru eða þjónustu og í raun má því segja að neytandi veiti seljanda vaxtalaust lán. Oft næst að leysa úr slíkum málum enda gera flestir seljendur sér grein fyrir mikilvægi þess að veita góða þjónustu. Lendi fólk í því að vera meinað að nota gjafabréf á þeirri forsendu að það sé útrunnið vilja Neytendasamtökin gjarnan vita af því.

Gjafabréf flugfélaga
Nokkuð er um kvartanir vegna gjafabréfa flugfélaga. Gildistíminn hjá Icelandair er tvö ár, sem er frekar stutt, og ekki nema eitt ár hjá WOW. Hjá WOW þarf ferðalangurinn þess utan að vera búinn að nýta alla flugferðina innan þessa eina árs. Þessir skilmálar koma ekki fram á bréfinu sjálfu, sem er einnig mjög gagnrýnisvert. Þessi stutti gildistími á gjafabréfum flugfélaga er tilefni margra kvartana og eru flugfélögin hvött til að bæta úr þessu og lengja gildistímann í fjögur ár.

Nýttu gjafabréfið sem fyrst
Gjafabréf geta gleymst og jafnvel týnst en einnig eru mörg dæmi um að gjafabréf tapist þegar fyrirtæki loka, t.d. vegna gjaldþrots. Gjafabréf geta líka glatast þegar eigendaskipti verða á fyrirtæki og nýr eigandi hafnar kröfu bréfs sem fyrri eigandi gaf út jafnvel þótt gjafabréfið sé enn í gildi.