Raka- og höggskemmdir í símum - hvernig koma þær til?

mánudagur, 23. maí 2016

Raka – og höggskemmdir eru langalgengasta orsökin þegar kemur að bilunum í farsímum. Ábyrgðir ná ekki yfir raka – eða höggskemmdir og afleiðingar þeirra teljast ekki til galla og því líklegast að eigandinn sitji uppi með tjónið, nema sérstakar tryggingar komi til.

Þegar raki kemst í símann þá verður tæring í rafrásum, en hún myndast ekki alltaf um leið og síminn hefur orðið fyrir raka heldur breiðist út hægt og rólega. Ekki er því víst að eigandi símans verði strax var við afleiðingarnar.
Viðgerðaraðilar taka ekki alltaf að sér viðgerðir á símum sem hafa orðið fyrir rakaskemmdum þar sem erfitt getur verið að ábyrgjast slíkar viðgerðir.

 

En hvað er það sem getur helst valdið rakaskemmdum:

·         Síminn tekinn með inn á baðherbergi þegar farið er í bað/sturtu.

·         Sími notaður utanhúss í rigningarúða. Sviti í lófum.

·         Sullað í vatni meðan síminn er notaður t.d. vaskað upp.

·         Síminn látin liggja á stöðum þar sem raki á greiðan aðgang að honum.

·         Síminn geymdur úti í bíl þar sem gæti myndast raki við hitabreytingar.

·         Síminn lagður á rakt gras.

Margt annað getur líka valdið rakaskemmdum.

Öll raftæki eru viðkvæm fyrir raka. Misjafnt er hversu vel mismunandi tegundir farsíma eru varðar gegn raka. Auðvitað ættu svo farsímar að þola eðlilega notkun, t.a.m. að vera í eldhúsi meðan matargerð fer fram og að talað sé í þá utanhúss þó raki sé í lofti. Þrátt fyrir ofanritað gæti það þannig vissulega talist til galla ef sími þolir ekki slíka notkun.  Þá eru sumir símar auglýstir sérstaklega ryk – og rakavarnir, IP67 staðall, og mundu vissulega önnur sjónarmið gilda um slíka síma þegar kæmi að mati á rakaskemmdum enda gengur markaðssetning þeirra út á að þeir eigi að þola meiri raka en farsímar almennt.