Reiknivilla á kassastrimli

Miðvikudagur, 5. apríl 2017 - 14:30

Naskur viðskiptavinur á matsölustað rak augun í ofreiknað verð á kassastrimli, þ.e. misræmi á milli kostnaðarliða og samtölu. Nú er það eflaust sjaldnast þannig að fólk taki upp reiknivélina og leggi saman þær vörur sem strimillinn sýnir til að tryggja að heildarútkoman sé rétt – enda eiga þeir ekki að þurfa þess. Þessi talnaglöggi neytandi renndi hins vegar yfir strimilinn og tók eftir því að veitingastaðurinn rukkaði 4.400 krónur fyrir tvo rétti. Á strimlinum kom fram verð réttanna; 2.045 kr. og 2.145 kr. sem gerir 4.190 kr. Þarna höfðu því á einhvern dularfullan hátt bæst við 210 kr. sem hvergi komu fram á strimlinum nema í heildarverði.

Neytendasamtökin skoðuðu málið og fengu þau svör frá fyrirtækinu að um væri að kenna reiknivillu í kerfinu og að um einstakt tilvik væri að ræða. Neytendasamtökin hafa enga ástæðu til að ætla að seljandinn sé vísvitandi að blekkja viðskiptavini og hafa ekki heyrt af fleiri slíkum dæm¬um. Hins vegar skal brýnt fyrir fyrirtækjum að tryggja að kassakerfi þeirri geti aldrei rukkað viðskiptavini um upphæðir sem ekki koma fram á strimlinum. Þá mega neytendur gjarnan hafa augun opin – og reiknivélina uppi við – og láta Neytendasamtökin vita ef þeir verða varir við eitthvað misjafnt.