Réttindi flugfarþega

mánudagur, 21. ágúst 2017 - 21:15

Í Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega er kveðið á um ýmis lágmarksréttindi flugfarþega sem flugrekendur þurfa að virða. Jafnframt ber flugrekendum að upplýsa farþega um réttindi þeirra.

 

Töf á flugi

Réttur flugfarþega þegar töf er á flugi fer eftir hversu löng töfin er með hliðsjón af lengd flugs. Ef töfin fram yfir áætlaðan brottfaratíma er:

a) 2 klst. eða meira á flugi sem er 1.500 km. eða styttra (t.d. öll innanlandsflug á Íslandi).

b) 3 klst. eða meira á flugi sem er 1.500 – 3.500 km (t.d. flug frá Íslandi til Norðurlandanna og fleiri landa í Evrópu).

c) 4 klst. eða meira á flugi sem er lengra en 3.500 km (öll flug frá Íslandi til Bandaríkjanna).

Á flugrekandi að bjóða farþegum endurgjaldslaust máltíðir, hressingu og hótelgistingu ef þörf er á. Máltíðir og hressing eiga að vera í samræmi við lengd tafarinnar.

Ef farþegar þurfa sjálfir að kaupa sér máltíðir eða gistingu, þar sem flugrekandi býður þessa aðstoð ekki fram, eða ef erfitt er að fá skýr svör frá honum, er mikilvægt að passa vel upp á allar kvittanir svo hægt sé að fara fram á endurgreiðslu síðar.

Einnig þarf flugrekandi að bjóða farþegum flutning til og frá flugvelli sé þess þörf, ásamt því að gefa farþegum möguleika á að hringja tvö símtöl eða senda skilaboð.

 

Endurgreiðsla eða breytt flugleið

Ef flugi er aflýst eiga farþegar að hafa val um:

a. - að fá innan sjö daga endurgreitt að fullu, upprunalegt verð farmiðans fyrir þann hluta ferðarinnar sem ekki var farinn og fyrir einn eða fleiri hluta ferðarinnar sem farnir hafa verið ef flugið þjónar engum tilgangi lengur með hliðsjón af upprunalegri ferðaáætlun farþegans og,

ef við á,

• flug til baka til fyrsta brottfararstaðar eins fljótt og auðið er,

eða

b. - að breyta flugleið, með sambærilegum flutningsskilyrðum, til lokaákvörðunarstaðar eins fljótt og auðið er

eða

c. - að breyta flugleið, með sambærilegum flutningsskilyrðum, og komast til lokaákvörðunarstaðar síðar meir, við fyrstu hentugleika fyrir farþegann, með fyrirvara um sætaframboð.

Þegar um a.m.k. fimm klukkustunda seinkun er að ræða eiga farþegar rétt á því sem talið er upp í a-lið hér að framan, þ.e. að fá endurgreiðslu og flug til baka til fyrsta brottfararstaðar ef við á auk endurgreiðslu þeirra flugleggja sem reynast tilgangslausir vegna seinkunarinnar.

 

Mögulegar skaðabætur

Auk þessa geta farþegar átt rétt á stöðluðum skaðabótum en upphæðir eru á bilinu 250-600 evrur eftir lengd flugsins sem um ræðir. Flugrekandi er þó laus undan þeirri skaðabótaskyldu ef tilkynnt er um aflýsinguna með ákveðnum fyrirvara (sjá nánar á heimasíðu ECC). Flugrekandi getur einnig verið laus undan skaðabótaábyrgð ef hann sýnir fram á að seinkunin eða aflýsingin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir jafnvel þótt allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið viðhafðar. Óviðráðanlegar aðstæður geta t.a.m. skapast af völdum ótryggs stjórnmálaástands, veðurskilyrða sem samrýmast ekki kröfum sem eru gerðar til viðkomandi flugs, öryggisáhættu og ófullnægjandi flugöryggis. Það er þó flugrekandi sem þarf að sanna að um óviðráðanlegar aðstæður hafi verið að ræða og stundum kemur til þess að Samgöngustofa þurfi að úrskurða um hvort atvik hafi verið þess eðlis að skaðabótaskylda falli niður. Samkvæmt nýlegum úrlausnum Evrópudómstólsins er þó skýrt að vélarbilanir eða tæknileg vandamál leysi flugrekendur ekki undan þessari skaðabótaskyldu (sjá einnig t.d. ákvörðun Samgöngustofu 4/2016) en skoða þarf hvert mál fyrir sig.

Skylda flugrekanda til að bjóða máltíðir og aðra aðstoð og endurgreiða eða breyta flugleið sem fjallað er um hér að framan er þó til staðar hvað sem rétti til skaðabóta líður.

 

Eftirlit og úrræði

Þeim sem lent hafa í seinkun eða aflýsingu flugs á vegum íslensks flugrekanda og telja að ofangreind réttindi hafi ekki verið virt er bent á að hafa samband við Neytendasamtökin og fá frekari ráðleggingar, en skoða þarf hvert tilvik fyrir sig. Sé um félagsmenn í samtökunum að ræða taka samtökin jafnframt að sér, sé þess þörf, samskipti við flugrekendur fyrir hönd félagsmanna sinna.

Sé um evrópskan flugrekanda að ræða getur ECC-netið (Evrópska neytendaaðstoðin) hjálpað en á heimasíðu ECC á Íslandi er að finna ítarlegar upplýsingar um rétt flugfarþega. Þjónusta ECC er ókeypis og öllum opin.

Það er svo Samgöngustofa sem fer með eftirlit með reglum um réttindi flugfarþega og á heimasíðu stofnunarinnar er að finna upplýsingar um rétt flugfarþega og ákvarðanir Samgöngustofu í farþegamálum þar sem m.a. er fjallað um hvort seinkun eða aflýsing hafi verið af óviðráðanlegum orsökum.