Réttindi flugfarþega – könnun

Föstudagur, 29. apríl 2011 - 11:30

 

Neytendasamtökin og Evrópska neytendaaðstoðin stóðu nýlega fyrir rafrænni könnun meðal flugfarþega. Könnunin var smá í sniðum og bárust 75 svör. Því er langt frá því að niðurstöður könnunarinnar feli í sér nákvæmar staðreyndir um raunverulega stöðu flugfarþega. Hér á eftir fer kynning á niðurstöðunum auk umfjöllunar um réttindi flugfarþega.

Í upphafi voru þátttakendur spurðir hvað þeir ferðuðust oft með flugi og kom í ljós að langflestir, eða 48%, fóru erlendis með flugi 1-2 sinnum á ári.

 Færðu réttar upplýsingar?
Í reglugerð um réttindi flugfarþega, nr. 574/2005 sem felur í sér innleiðingu á Evrópureglugerð er í 14. gr. kveðið á um eftirfarandi: „Starfandi flugrekandi skal tryggja að við innritunarborðið sé sett upp auðlæsileg tilkynning sem blasir við neytendum með eftirfarandi texta: „Ef þér er neitað um far, flugi þínu aflýst eða því seinkað um a.m.k. tvær klukkustundir skaltu, við innritunarborðið eða brottfararhliðið, biðja um skriflegar upplýsingar um rétt þinn, einkum að því er varðar skaðabætur og aðstoð.““

Ein af spurningunum í könnuninni var því um það hvort flugfarþegar hefðu orðið varir við ofangreindan texta þegar þeir innrita sig í flug. Gefnir voru fjórir svarmöguleikar: nei, aldrei; man ekki; já, stundum og já, alltaf. Miðað við svörin sem fengust má svo telja að einhver misbrestur sé á því að flugrekendur setji upp þessa tilkynningu í samræmi við reglugerðina:

Enginn þátttakenda svaraði spurningunni með „Já, alltaf“.  Vissulega voru svarendur fáir og könnunin því ekki hávísindaleg en samt sem áður er greinilega full þörf á að flugrekendur hugi nánar að því að fylgja þessu ákvæði með réttum hætti.

Seinkun á flugi
Þá voru þátttakendur spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir seinkunum í flugi. Fyrst var spurt hvort þeir hefðu verið farþegar í millilandaflugi (1.500-3.500 km. (til Evrópu annað en Glasgow og Færeyjar)) þar sem brottför seinkaði óvænt um þrjár klukkustundir eða meira eftir að komið væri á flugvöllinn. Skiptingu svara má sjá á töflunni hér að neðan en 32% svarenda höfðu orðið fyrir slíkri seinkun:

Nei   43%
Nei en hef einu sinni orðið fyrir styttri seinkun  13%
Nei en hef oftar en einu sinni orðið fyrir styttri seinkunum  12%
Já en bara einu sinni  15%
Já tvisvar  4%
Já oftar en tvisvar  13%

Þegar spurt var hvort þátttakendur hefðu orðið fyrir tveggja tíma seinkun eða meira í innanlandsflugi fengust svo eftirfarandi svör en 62% þátttakenda höfðu aldrei lent í svo langri töf.

Nei   62%
Nei en hef einu sinni orðið fyrir styttri seinkun  7%
Nei en hef oftar en einu sinni orðið fyrir styttri seinkunum  8%
Já en bara einu sinni  7%
Já tvisvar  7%
Já oftar en tvisvar  9%

Réttur farþega til aðstoðar þegar flugi seinkar
Þegar um seinkun af þessu tagi er að ræða (þ.e. tvær klukkustundir eða meira í styttra flugi og þrjár klukkustundir eða meira í flugi sem er 1.500-3.500 km) hvíla á flugrekanda ákveðnar skyldur til að aðstoða farþegana. T.a.m. ber flugrekanda þá að bjóða farþegum upp á hressingu í samræmi við lengd tafar, farþegar eiga rétt á að hringja tvö símtöl eða senda tölvupósta án endurgjalds, og rétt á gistingu auk ferða til og frá flugvelli ef þörf er á. Þátttakendur í könnuninni voru því spurðir hvort þeim hefði verið veitt þjónusta af þessu tagi þegar þeir urðu fyrir seinkun. Einungis var spurt um tilvik sem hafa komið upp á undanförnum fimm árum, eða eftir að áðurnefnd reglugerð tók gildi.

Þegar einungis voru skoðuð svör þeirra sem höfðu orðið fyrir seinkunum (tveggja eða þriggja tíma eftir lengd flugs) skiptust þau svona:

Þegar einungis eru svo skoðuð svör þeirra sem hafa orðið fyrir þriggja tíma seinkun eða meira í millilandaflugi til Evrópu kemur í ljós að helmingur svarenda hefur aldrei notið þessarar lögbundnu aðstoðar:

Eins og áður sagði var könnunin afar smá í sniðum og ekki hávísindaleg. Þó er ljóst að það varðar flugfarþega miklu að vera meðvitaðir um rétt sinn og einnig þurfa flugrekendur að standa sig í að kynna réttindi flugfarþega fyrir þeim og fara eftir ákvæðum reglugerðarinnar um réttindi flugfarþega.