Samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi

mánudagur, 4. nóvember 2013 - 13:00
Samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi

 

Stjórn Neytendasamtakanna hefur samþykkt svohljóðandi ályktun:

Lítið og ótraust framboð á fiski inn á íslenska fiskmarkaði leiðir til þess að verð á mörkuðum er of hátt. Þegar borið er saman skiptaverð verðlagsstofu, sem notað er í beinum viðskiptum með fisk þar sem útgerð og fiskvinnsla er á sömu hendi kemur í ljós mikill munur á skiptaverði verðlagsstofu og þess verðs sem myndast á fiskmörkuðum. Munar þar gjarnan tugum prósenta sem markaðsverðið er hærra.

Þorri þess fiskjar sem seldur er til neytenda í fiskbúðum og öðrum matvöruverslunum er keyptur í gegnum fiskmarkaði á markaðsverði. Þannig leiðir lítið framboð á mörkuðum og hátt markaðsverð til hærra vöruverðs til íslenskra neytenda. Það er því brýnt hagsmunamál neytenda að samkeppni í sjávarútvegi sé virk og leiði til eðlilegrar verðmyndunar á markaði.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru ríflega 7300 tonn af sjávarfangi seld til neyslu innanlands árið 2012. Ekki er óvarlegt að reikna með að smásöluverð nemi að lágmarki 10 milljörðum króna á ári. Þegar horft er til þess að tvöföld verðlagning í sjávarútvegi og lítið framboð á mörkuðum leiðir til að munur á skiptaverði verðlagsstofu og markaðsverði eru tugir prósenta, er ljóst að þetta kostar íslenska neytendur 1 til 2 milljarða á ári.

Óeðlilega hátt verð á fiskmörkuðum hefur sömu áhrif og verndartollar á innfluttar matvörur og veldur hækkun á öðrum tegundum matvæla og því er tjón neytenda enn meira en sem nemur þeim 1 til 2 milljörðum sem of hátt fiskmarkaðsverð kostar þá. Þá er ótalið að of hátt fiskverð hefur bein áhrif á vísitölu neysluverðs, sem er grunnur verðtryggingar á verðtryggðum lánum íslenskra neytenda. Þannig veldur óeðlileg verðmyndun í sjávarútvegi því að verðtryggð lán hækka meira en ella.

Íslenskt sjávarfang er einhver hollasta fæða sem völ er á og stjórn Neytendasamtakanna telur það vera skyldu íslenskra stjórnvalda að sjá til þess að markaður með sjávarfang tryggi íslenskum neytendum svo lágt verð á sjávarafurðum, sem kostur er á, og þess sé í öllu falli gætt að fiskur til íslenskra neytenda sé ekki verðlagður hærra en fiskur til útflutnings vegna skakkrar samkeppnisstöðu hér á landi.

Í áliti sínu nr. 2/2012 í nóvember 2012 beindi Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að hann beiti sér fyrir því að lagfæra samkeppnishindranir sem leiða af lagaumhverfi sjávarútvegs, en aðal orsök þessara hindrana eru mikill aðstöðumunur lóðrétt samþættum útgerðarfélögum í hag. Með lóðréttri samþættingu er vísað til fyrirtækja sem stunda bæði útgerð og fiskvinnslu. Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu hvetja núgildandi reglur samþætt útgerðarfyrirtæki til að hafa verð sem lægst á þeim afla sem seldur er til eigin fiskvinnslu. Í álitinu eru nefndar nokkrar leiðir að þessu marki.

Ein þeirra er að beita sérstökum milliverðlagningarreglum sem tryggi að verðlagning í innri viðskiptum milli útgerðar- og fiskvinnsluhluta lóðrétt samþættar útgerðar verði eins og um viðskipti milli tveggja óskyldra aðila sé að ræða. Markvissasta leiðin að þessu marki er að setja reglur sem tryggja að öll viðskipti með sjávarafla verði á markaðsverði. Slíkt myndi tryggja aukið framboð á mörkuðum og lægra verð til neytenda.

Önnur leið, sem bent er á, er að reglum verði breytt á þann veg að útgerðarmenn komi ekki með beinum hætti að ákvörðun svokallaðs Verðlagsstofuverðs, sem útgerðir nota í innri viðskiptum milli útgerðar- og fiskvinnsluhluta fyrirtækja sinna.

Stjórn Neytendasamtakanna skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að tvöföld verðmyndun í sjávarútvegi verði afnumin og tryggt verði að virk verðsamkeppni ríki á fiskmörkuðum neytendum til hagsbóta.