Samtök lífrænna neytenda stofnuð

Fimmtudagur, 10. mars 2011 - 12:00

 

Fullt var út úr dyrum í Norræna húsinu sl. mánudagskvöld þegar stofnfundur Samtaka lífrænna neytenda var haldinn. Þessi góða þátttaka sýnir vel þann áhuga sem er hjá mörgum neytendum þegar kemur að lífrænum vörum. Í fréttatilkynningu sem send var út í kjölfar stofnfundarins kemur fram að „samtökin verða sem „hreyfing” en ekki formlegt félag til að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt og vera sem næst grasrótinni”. Fljótlega munu samtökin opna heimasíðu á netinu, www.lifraen.is.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem lýst var yfir stuðningi við tvær þingályktunartillögur sem eru nú til meðferðar á Alþingi. Fyrri þingsályktunartillagan fjallar um mótun framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði en þar er jafnframt gert ráð fyrir bændur sem vilja breyta framleiðslu sinni úr hefðbundinni yfir í lífræna fái sérstakan aðlögunarstuðning til samræmis við þann sem veittur er á Norðurlöndum. Í rökstuðningi er bent á að Ísland standi langt að baki öðrum Evrópulöndum varðandi lífræna framleiðslu en hér er einungis 1% af ræktuðu landi í vottaðri lífrænni ræktun. Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að á árinu 2020 verði lífræn framleiðsla komin í 20% en hún er nú í kringum 5%.

Hin þingsályktunartillagan sem samtökin lýstu stuðningi við gengur út á útiræktun erfðabreyttra lífvera verði bönnuð hér á landi. Minnt er á í ályktuninni að mörg lönd og enn fleiri héruð í Evrópu hafa bannað slíka útiræktun.

Neytendasamtökin óska Samtökum lífrænna neytenda góðs gengis í starfi sínu á komandi árum.