Seinkanir og aflýsingar vegna eldgoss

Þriðjudagur, 24. maí 2011

 

Þegar flugi er seinkað eða því aflýst vegna óviðráðanlegra aðstæðna eins og eldgosa, eiga flugfarþegar þrátt fyrir það rétt á aðstoð og þjónustu frá flugrekendum. Samkvæmt reglugerð 574/2005 ber flugrekanda að veita farþegum máltíðir í samræmi við lengd tafarinnar, gistiaðstöðu ef farþegi neyðist til að bíða yfir nótt, og flutning milli gistiaðstöðu og flugvallar. Að auki skal farþegum boðið að hringja tvö símtöl eða senda skilaboð með fjarrita, bréfsíma eða tölvupósti þeim að kostnaðarlausu. Samkvæmt reglugerðinni hvílir skylda á flugrekendum að kynna reglugerðina og réttindi flugfarþega samkvæmt henni fyrir farþegum. Frekari upplýsingar má einnig nálgast á heimasíðu Flugmálastjórnar.