Skilaréttur á útsölum

Miðvikudagur, 29. desember 2010

Hvaða reglur gilda um skilarétt þegar vara er keypt í kringum útsölur?

Þegar útsölur hefjast hjá verslunum, eru bæði neytendur og verslunareigendur gjarnir á að leita til Neytendasamtakanna til þess að afla sér upplýsinga um hvaða reglur gilda í þessum efnum. Engin lög gilda um skilarétt þegar neytandi er ósáttur við ógallaða vöru en settar hafa verið verklagsreglur sem taka á skilarétti, inneignarnótum og gjafabréfum. Því miður virðast þó fáir starfsmenn verslana vita um þessar skilaréttarreglur og fáar verslanir fara eftir þeim. Þessar reglur eru einungis leiðbeinandi en geta auðveldað til muna að draga úr þeirri óvissu sem getur skapast á þessu sviði. Neytendasamtökin verða áþreifanlega vör við þau vandamál sem geta skapast þegar útsöluvörum er skilað og hvetja neytendur til að hafa reglur um skilarétt á hreinu áður en vörurnar eru keyptar.

Meginatriði þessara verklagsreglna:

  • Neytandi á að minnsta kosti 14 daga skilarétt.
  • Vörur sem merktar eru með gjafamerki gera kassakvittun óþarfa við skil. 
  • Inneignarnótur skulu miðast við upprunalegt verð vöru. 
  • Gjafabréf gilda í 4 ár frá útgáfudegi og inneignarnótur í allt að 4 ár. 
  • Skilaréttur tekur ekki til útsöluvöru nema um annað hafi verið samið.

Skil þegar útsölur eru hafnar
Samkvæmt verklagsreglunum gildir skilaréttur almennt ekki um vöru sem er keypt á útsölu nema um annað sé sérstaklega samið. Ef vara er hins vegar keypt skömmu áður en útsalan hefst eða innan við 14 daga fyrir upphaf útsölunnar, á að miða við verð vörunnar á útsölunni en ekki upphaflegt verð nema seljandi samþykki. Þá er rétt að hafa í huga að kaupandinn á alltaf rétt á inneignarnótu sem miðar við upprunalegt verð vörunnar. Í sumum tilvikum getur verið heppilegra að þiggja inneignarnótuna og koma aftur í verslunina þegar útsölunni er lokið. Inneignarnótu sem gefin er út innan 14 daga fyrir útsölu eða meðan útsala stendur yfir er ekki heimilt að nota á útsölu nema með samþykki seljanda.

Hafa þarf í huga að sé vara sem keypt er á útsölu gölluð á neytandi almennt sama rétt til úrbóta og ef varan hefði verið keypt fullu verði. Þessi umfjöllun miðar því bara við vörur sem neytandinn sér eftir að hafa keypt eða er ósáttur við en eru ekki beinlínis haldnar galla.

Gjafabréf eiga að gilda á útsölu rétt eins og um peninga væri að ræða.