Skoðaðu yfirlit kreditkorta!

Miðvikudagur, 1. september 2010

 

Þjónusta skuldfærð á kreditkort.

Nokkuð hefur borið á því að neytendur hafa orðið af verulegum fjármunum þar sem þeir vanrækja að skoða kreditkortayfirlitið sitt vandlega. T.d. er algengt að líkamsræktarstöðvar bjóði upp á bindisamninga til 12 mánaða og neytendur gera ráð fyrir að samningnum sé sjálfkrafa lokið að loknu binditímabilinu. Oftar en ekki er sérstök uppsagnarklausa í samningnum þar sem fram kemur að segja þurfi upp samningnum með t.d. 3 mánaða fyrirvara. Þannig þarf að segja upp samningnum í síðasta lagi eftir 9 mánuði ef honum á að ljúka eftir 12 mánuði. Ef samningnum er ekki sagt upp heldur líkamsræktarstöðin áfram að skuldfæra á kreditkort neytandans um ókomna tíð og er sá kostnaður óendurkræfur vegna skilmála samningsins. Neytendasamtökin hafa gagnrýnt þessa samningsskilmála og telja þá afar blekkjandi fyrir neytendur.

Einnig eru dæmi um að uppsagnir á þjónustu eins og tryggingum og internetáskriftum skili sér ekki og kreditkort eru áfram skuldfærð og í sumum tilvikum getur reynst erfitt að endurheimta þann kostnað.  Því er nauðsynlegt að brýna fyrir neytendum að skoða alltaf kreditkortayfirlit sín. Í flestum tilfellum er nú hægt að fá yfirlitið beint í heimabankann og ætti því að vera auðvelt að temja sér að skoða yfirlitið minnst einu sinni í mánuði.