Skriflegar tilkynningar

Oft er fólk í samningssambandi tregt við að hafa hluti skriflega, mörgum finnst skriflegar tilkynningar bera vott um einhvers konar leiðinleg formlegheit og að nóg sé, og miklu betra til að hafa allt í vinsemd, að hafa öll samskipti munnleg.

Samkvæmt húsaleigulögum er þó oft skylt að senda skriflegar tilkynningar, t.a.m. ef samningi er sagt upp eða kvartað er vegna ástands húsnæðis. Það er einnig afar mikilvægt ef aðilar vilja sanna eitthvað eða sýna fram á að samið hafi verið um tiltekin atriði eða jafnvel frávik frá lögunum. Þá er ekki nóg að tilkynningar og samningar milli aðila séu skriflegir, þeir þurfa líka að vera skýrir.

Kærunefnd húsamála hefur mjög oft fjallað um vanrækslu á því að senda skriflegar tilkynningar sjá t.a.m.:

Mál 1/2009: Um var að ræða tímabundinn leigusamning til eins árs frá 1. janúar 2009.  Leigjandinn flutti þó aldrei inn og rifti samningnum þar sem íbúðín væri ekki í því ástandi sem ætla mætti, veggir, gluggar og gardínur kámug og skítug auk þess sem raftengi inn á baðherbergi hefði ekki verið frágengið. Leigusali féllst á að leigjandinn segði leigunni upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti en hélt því þó fram að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að flytja inn hinn 4 janúar. Kærunefndin byggði á því að engin úttekt hefði verið framkvæmd á húsnæðinu og eins því að engar skriflegar áskoranir væru til staðar frá leigjanda um að leigusali bætti úr annmörkum á húsnæðinu Var það því niðurstaða nefndarinnar að leigjanda bæri að greiða þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Mál 7/2008: Leigjendur kröfðust þess að ráðist yrði í frágang á lóð og bílskúr leiguhúsnæðisins en auk þess að leiga yrði lækkuð frá upphafi leigutíma og fram að lagfæringum. Nefndin hafnaði öllum kröfum leigjenda á grundvelli þess að þeir hefðu ekki borið sig rétt að við kvartanir vegna ástands húsnæðisins. Þannig lægi ekkert fyrir um það hvort leigjendur hefðu kvartað skriflega innan mánaðar frá afhendingu. Auk þess væri skýrt fjallað um það í húsaleigulögum hvernig fara skyldi með kröfur leigjenda af þessu tagi.

Á heimasíðu velferðarráðuneytisins  er að finna sýnishorn af ýmsum tilkynningum sem fara milli aðila leigusamnings og er leigjendum ráðlagt að styðjast við þau hvað texta varðar en hægt er að senda tilkynningar t.a.m með rekjanlegum tölvupósti eða ábyrgðarpósti. Ef skrifleg orðsending er send með tryggilegum og sannanlegum hætti er það nóg til þess að hún hafi áhrif jafnvel þó móttakandi tilkynningarinnar vilji meina að hún hafi aldrei borist honum.

Athugið

Ef húsaleigusamningur var gerður eftir 22. júní 2016 hafa orðið eftirfarandi breytingar á því sem fram kemur hér að ofan:

Þegar leigjandi ætlar að kvarta yfir ástandi húsnæðisins verður það nú að vera gert skriflega. Fyrir breytingu á húsaleigulögum var hægt að tilkynna um þau atriði sem leigjandi vildi að leigusali myndi laga með munnlegum hætti en nú hefur það ekki lengur gildi. Þó verður að hafa í huga að í mörgum tilfellum var einungis um ,,orð gegn orði" að ræða og ef leigusali kannaðist ekki við að hafa fengið munnlega tilkynningu gat leigjandi ekki sannað það með neinum hætti að samtal hafi átt sér stað. Af þeim sökum hefur lögunum nú verið breytt þannig að tilkynningar verði að vera skriflegar, til þess að bæta sönnunarstöðu aðila ef á reynir.