Hvernig get ég sem neytandi tryggt mína stöðu þegar kemur að viðskiptum við þjónustuaðila?
Þegar neytandi hefur fengið t.a.m. iðnaðarmann til að vinna verk fyrir sig, hafa vandamál oft skapast í framhaldinu þegar reikningur fyrir vinnuna berst neytanda. Mörgum bregður í brún og telja reikninginn vera óhæfilega háan og lenda svo í deilum við iðnaðarmanninn vegna greiðslu hans. Auðvelt er að koma í veg fyrir slíkt óþarfa vesen, með því einu að gera strax í upphafi skriflegan samning um vinnuna. Jafnframt er mikilvægt að biðja um verðáætlun við upphaf verks svo verðið komi ekki óþarflega mikið á óvart.
Neytendasamtökin hvetja því neytendur eindregið til að gera skriflean samning þegar leitað hefur verið tilboða í hin ýmsu verk, t.a.m. iðnaðarmanna, óháð því hversu stórt verkið er í sniðum. Samningur sem tekur á helstu þáttum verks, ásamt kostnaði við vinnuna, er best til þess fallinn að sanna hvað aðilar sammæltust um í upphafi. Mikilvægt er að vanda til samningsgerðar og hafa frekar fleiri atriði í samningnum en færri, enda koma sönnunarerfiðleikar of upp á yfirborðið.
Á síðu Neytendasamtakanna má nálgast staðlað eyðublað sem neytendur og seljendur þjónustu geta notað þegar þeir gera með sér samning um þjónustu.