Sniðgangið litarefnin!

Þriðjudagur, 1. febrúar 2011 - 15:00

 

Neytendasamtökin hvetja neytendur til að sniðganga matvæli sem innihalda eitthvert hinna umdeildu litarefna: E102, E104, E110, E122, E124 og E129. Þrátt fyrir að vitað sé að litarefnin geta haft varasöm áhrif, sérstaklega á börn, eru þau enn notuð og seld á Íslandi.

Nammibarir – vantar innihaldslýsingu?
Algengt er að litarefnin séu notuð í frostpinna og í sælgæti, eins og það sem selt er í nammibörum. Oft eru þó engar upplýsingar um innihaldsefni við nammibarina þrátt fyrir að lög kveði á um slíkt. Þar sem litarefnin eru varasöm er hér um mikilvægar upplýsingar að ræða og ólíðandi að ekki sé farið að lögum. Neytendur er hvattir til að senda Neytendasamtökunum póst (ns@ns.is) með upplýsingum um sölustaði verði þeir varir við að innihaldslýsingu vantar við nammibari. Ef sælgæti inniheldur eitthvert hinna umdeildu efna ættu neytendur auðvitað að sniðganga það.