Starfs- og siðareglur

(í vinnslu)

Starfsreglur skrifstofu Neytendasamtakanna

 

1. gr.
Hlutverk skrifstofu

            Starfsmenn Neytendasamtakanna sinna öllum daglegum rekstri skrifstofu samtakanna og þeim erindum sem berast þeim. Þannig heldur skriftstofan utan um daglegan rekstur Neytendaaðstoðarinnar, Leigjendaaðstoðarinnar og Evrópsku neytendaaðstoðarinnar.                  

            Framkvæmdastjóri samtakanna er yfirmaður skrifstofunnar. Framkvæmdastjóri annast ráðningu starfsfólks í samráði við formann. Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með allri þjónustu samtakanna. Þó fara stjórnendur sviða innan skrifstofunnar með daglegan rekstur þeirra og mega koma fram fyrir hönd samtakanna opinberlega í þeim málefnum sem eiga undir svið þeirra.   
 

2. gr.
Aðgreining starfa

            Starfsmenn skulu gera skýra aðgreiningu á störfum sínum með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að sami aðili taki á móti reikningum, færi þá inn og greiði þá. Til staðar skal vera sérstakt fyrirkomulag sem kemur í veg fyrir að slíkt eigi sér stað.        
 

3. gr.
Hagsmunatengsl

            Starfsmaður skal ekki sinna málum sem varðar aðila tengda honum eða málum þar sem hann hefur sjálfur hagsmuna að gæta, nema slíkt sé ekki til þess fallið að bitna á orðspori samtakanna eða skaða hagsmuni þeirra.

            Starfsmaður skal ekki vinna launuð störf fyrir aðra en samtökin á meðan ráðningarsambandi hans stendur nema slíkt hafi verið sérstaklega samþykkt. Framkvæmdastjóri þyrfti samþykki stjórnar en almennir starfsmenn þyrftu samþykki framkvæmdastjóra.
 

4. gr.
Þagnar- og trúnaðarskylda

            Starfsmönnum ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að verða áskynja í störfum sínum og leynt á að fara. Starfsmenn skulu undirrita yfirlýsingu um trúnaðarskyldu þegar þeir hefja störf fyrir samtökin.

5. gr.
Starfsskyldur og brot í starfi

            Starfsmaður skal framvísa sakarvottorði þegar hann hefur störf fyrir samtökin.             
            Starfsmaður sem fer með fjárreiður fyrir hönd samtakanna skal vera fjárráða, hafa forræði á búi sínu og gera strax grein fyrir því ef hjá honum hefur verið gert fjárnám.

            Ef upp kemur mál þar sem starfsmaður er grunaður um saknæma háttsemi í starfi verður slíkt þegar í stað kært til lögreglu og skal starfsmaður víkja úr starfi tímabundið á meðan rannsókn málsins fer fram.      
 

6. gr.
Lánveitingar og ferðir á vegum samtakanna

            Allar lánveitingar til starfsmanna eða annarra aðila eru óheimilar.         

            Ef starfsmaður hyggst fara á vegum samtakanna, innanlands sem og utanlands, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í rekstraráætlun verður stjórn samtakanna að samþykkja ferðina sérstaklega. Að öðrum kosti greiða samtökin ekki fyrir slíka ferð né dagpeninga.

 

7. gr.
Almennt hæfi starfsfólks

            Starfsfólk samtakanna skal vera lögráða og má ekki á síðustu þremur árum frá því það hefur störf hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti eða lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

 

8. gr.
Gildistaka

            Reglur þessar taka strax gildi.

 

Reykjavík, 24. apríl 2017.

 

 

 

Siðareglur skrifstofu Neytendasamtakanna

 

Markmið og gildissvið

            Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að starfsmenn Neytendasamtakanna sýni í sínum störfum fyrir samtökin.
            Reglurnar gilda um alla starfsmenn og einnig þá sem taka að sér trúnaðarstörf fyrir hönd samtakana.

 1. Starfsfólk Neytendasamtakanna tryggir að allar upplýsingar til stjórnar, félagsmanna og annarra sem til samtakanna leita séu réttar og að upplýsingar til þeirra gefi sanna og trúverðuga mynd af þjónustu  og aðstöðu samtakanna.
   
 2. Starfsfólk stuðlar að heiðarlegum samskiptum, gagnsæjum starfsaðferðum og góðum samskiptum á vinnustað.
   
 3. Starfsfólk gætir að orðspori samtakanna í samskiptum utan vinnustaðar.
   
 4. Starfsfólk gætir að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra.
   
 5. Starfsfólk viðhefur sértaka varúð við geymslu, skráningu, ljósritun og      eyðingu ganga sem tengjast samtökunum.
   
 6. Starfsfólk samtakanna kemur fram af virðingu, kurteisi við aðra starfsmenn, stjórnarmenn, viðskiptavini og samstarfsaðila óháð kyni, trú, stjórnmálaskoðun eða annarra aðgreiningar.
   
 7. Starfsfólk samtakanna vinnur gegn sóun og ómarkvissari meðferð fjármuna.
   
 8. Starfsfólk samtakanna starfar í þágu félagsmanna af vandvirkni, heiðarleika og samkvæmt bestu dómgreind.
   
 9. Starfsfólk samtakanna tileinkar sér vinnubrögð sem skapa geti traust á starfi þeirra og starfi samtakanna.
   
 10.  Starfsfólk samtakanna virðir tjáningar- og skoðunarfrelsi. 

Gildistaka

            Reglur þessar taka strax gildi.          

Reykjavík, 24. apríl 2017.