Stöðluð þyngd á ýmsum kjötvörum

mánudagur, 15. ágúst 2011

Er hægt að staðla þyngd á kjötvörum?

Í framhaldi af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að óheimilt sé að forverðmerkja vörur hefur það færst í vöxt að kjötiðnaðarstöðvar staðli þyngdir á vörum sínum. Þetta á meðal annars við um niðursneitt álegg og pylsur. Neytendasamtökunum hafa borist efasemdir frá neytendum að þetta sé ekki mögulegt og að ekki sé um nákvæma vigtun að ræða.

Samkvæmt upplýsingum Neytendasamtakanna er einfalt að staðla þyngd á þessum vörum og má búast við því að þetta muni aukast í framtíðinni, t.d. á bitapökkuðum ostum. Minnt er á að vogir skuli vera löggiltar og hefur Neytendastofa eftirlit með að þær vigti rétt.