Svansmerkt förðunarlína komin á markað

Miðvikudagur, 26. júlí 2017 - 10:30

Neytendur verða sífellt meðvitaðri um að velja vörur sem eru umhverfisvænar og lausar við skaðleg efni. Umhverfismerki koma þar að góðum notum og í dag þekkja flestir neytendur Svaninn sem er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.

Vöruúrvalið af svansmerktum vörum er sífellt að aukast enda er eftirspurn eftir vörum sem framleiddar eru á eins umhverfisvænan hátt og mögulegt er. Þá eru margir neytendur sem hafa ekki áhuga á því að borga fyrir skaðleg efni sem mörg hver eiga ekkert erindi í neysluvörur. Þær fréttir berast nú frá Danmörku að komin sé á markað svansmerkt förðunarlína sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Fyrirtækið sem frameiðir þessar svansmerktu vörur heitir Miild. Eigendurnir eru förðunarfræðingarnir Tine og Tanja sem báðar hafa ofnæmi fyrir ýmsum efnum sem algeng eru í snyrtivörum. Þær ákváðu því að hanna snyrtivörulínu sem stæðist þær ströngu kröfur sem gerðar eru til Svansmerktra vara. Vörurnar innihalda engin ilmefni, engin efni sem talin eru hormónaraskandi og engin umdeild litarefni. Vöruúrvalið er enn sem komið er ekki mjög mikið en framtakið er lofsvert.

Sjá hér frétt frá danska Svaninum