Svik á leigumarkaði

Þegar íbúðir eru leigðar eru oftar en ekki miklir hagsmunir í húfi fyrir bæði leigjanda og leigusala. Það er algengt að leigusalar fari fram á að fyrir upphaf leigutíma séu háar fjárhæðir afhentar til viðbótar sjálfri leigunni, þá í formi tryggingar eða sem fyrirframgreiðsla. Í langflestum tilvikum fara samningar fram eftir að leigjandi hefur fengið að skoða íbúðina og miðast leiguverð yfirleitt einmitt við ástand íbúðarinnar auk annarra atriða. Það er mjög áhættusamt að gera húsaleigusamning vegna íbúðar sem leigjandi hefur ekki fengið að skoða og enn hættulegra að greiða leigugreiðslur áður en samningur hefur verið gerður og íbúðin skoðuð gaumgæfilega. Hér verður fjallað um nokkur atriði sem leigjendur verða að hafa í huga áður en samningar eru gerðir vegna íbúðarhúsnæðis og leigugreiðslur afhentar leigusala. Borið hefur á því að aðilar þykjast hreinlega eiga íbúðir og auglýsi þær sem sínar, án þess að eiga nokkuð tilkall til þeirra. Oftar en ekki eru ljósmyndir af umræddum íbúðum teknar af veraldarvefnum og íbúðirnar stundum ekki einu sinni á Íslandi.

Er leigusali virkilega eigandi íbúðarinnar?
Það er alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og með því að athuga hvort umræddur leigusali sé raunverulega þinglýstur eigandi íbúðarinnar er hægt að koma í veg fyrir að viðkomandi sé að koma fram á fölskum forsendum.

Er íbúðin í raun og veru á Íslandi?
Í mörgum tilvika eru leigjendum sendar ljósmyndir af íbúðum áður en þeir greiða leigugreiðslur til leigusala. Þessar ljósmyndir geta oftar en ekki komið upp um svik þar sem þær eru stundum þess eðlis að engar líkur séu á að umrædd íbúð sé á Íslandi. Þetta má til dæmis leiða af hönnun íbúðarinnar og e.t.v. staðsetningu hennar miðað við ljósmyndir þar sem sést út um glugga o.fl. Það er einnig mikilvægt að fá alltaf nákvæmt heimilisfang íbúðarinnar og geta þannig athugað hvort íbúðin sé yfir höfuð til og í íbúðarhæfu ástandi. Borið hefur á því að leigjendur hafi verið að greiða leigu fyrir íbúðir sem eru enn á byggingarstigi og í sumum tilvikum hefur einungis byggingargrunnur verið til staðar.

Er leiguverðið raunhæft?
Það verð sem leigusali setur upp fyrir auglýsta íbúð getur í einhverjum tilvikum gefið tilefni til frekari athugunar. Ef auglýst er t.d. 130 fermetra íbúð á 100.000 kr., þá er líklegt að auglýsingin sé einfaldlega of góð til að vera sönn. Í einu tilviki hafði erlendur maður auglýst íbúð með þeim hætti og sagðist vera orðinn of aldraður til þess að geta hagnýtt sér íbúð sína á Íslandi. Þess vegna þyrfti hann að leigja hana og vildi hann ekki leigja hana of hátt í von um að fá góða leigjendur. Þegar málið var skoðað betur kom í ljós að umræddur aðili var svikari og hafi hann auglýst sömu íbúðina á ótal vefsíðum víðsvegar um heiminn. Þannig hafði hann einungis breytt ,,Íslandi“ í eitthvað annað land eftir hentisemi hverju sinni. Ljósmyndir af íbúðinni gáfu einnig tilefni til þess að efast um sannleiksgildi auglýsingarinnar.

Kemur eitthvað upp þegar maður leitar að orðalagi auglýsingar á veraldarvefnum?
Oft er hægt að athuga hvort um svik sé að ræða með því að taka heilar setningar og setja þær í leitarvélar á netinu. Þeir sem stunda svik með þessum hætti eru nefnilega yfirleitt með fleiri járn í eldinum en bara eitt og nota sömu auglýsingarnar oft og mörgum sinnum. Á veraldarvefnum eru ótal mörg svæði þar sem leigjendur, sem hafa verið sviknir, vara við slíkum aðilum og birta þar bréf eða auglýsingar í heild sinni – öðrum sem víti til varnaðar.

Að lokum
Í aðstæðum sem þeim, sem nefndar eru hér að ofan, er mikilvægt að vera meðvitaður. Ef auglýsingar eru of góðar til þess að vera sannar, þá eru það yfirleitt raunin. Það er aldrei sniðugt að greiða háar fjárhæðir án þess að hafa neitt í höndunum og ágætt að hafa í huga að aðilar sem stunda slíkt svindl þrífast oftar en ekki á neyð annarra. Það er alltaf betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og að hafa einhverjar tryggingar fyrir því að menn séu að koma hreint til dyranna.