Þarf að fara með bílinn í þjónustuskoðun?

Miðvikudagur, 27. apríl 2016

Þess misskilnings gætir oft að kaupendum nýrra bifreiða sé skylt að fara með þær í reglulegar þjónustuskoðanir hjá umboðinu til að viðhalda rétti sínum komi til galla. Hið rétta er að neytendum ber engin skylda til þess. Þegar keypt er ný bifreið á neytandi rétt á úrbótum vegna galla óháð því hvar hann lætur þjónusta bíl sinn. Þannig er ekkert sem kemur í veg fyrir að farið sé með bifreiðar annað en til umboðsins í smurningu og skoðanir.

Hins vegar er gott viðhald og reglulegt eftirlit bifreiða mikilvægt enda leiðir það til betri endingar og ef upp kemur galli getur það veikt réttarstöðu neytandans ef hann hefur ekki sinnt eðlilegu viðhaldi.

Kvörtunarfrestur vegna galla er almennt tvö ár, en getur verið fimm ár vegna hluta sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist, og getur það átt við um ýmsa íhluti bifreiða.

Umboð geta þannig ekki neitað kaupanda um úrbætur vegna galla þótt bifreið hafi verið þjónustuð á öðru verkstæði, lögbundinn rétt má einfaldlega ekki skilyrða með slíkum hætti. Hins vegar má skilyrða viðbótarábyrgð, eins og ábyrgð á lakki í tíu ár eða lengri ábyrgð en tveggja ára á slithlutum, með því að komið sé í þjónustuskoðun hjá umboði.