Þjófnaður á dekkjum

mánudagur, 8. mars 2010

 

Hver er réttur tryggingartaka þegar dekkjum og felgum er stolið undan bifreið?

Vegna fjölda fyrirspurna sem Neytendasamtökunum hafa borist um rétt tryggingartaka til bóta vegna þjófnaðar af þessu tagi, er rétt að koma eftirfarandi á framfæri varðandi skilmála tryggingarfélaganna og rétt tryggingartaka til bóta við aðstæður.

Samkvæmt skilmálum tryggingafélaganna (Sjóvá, TM, Varðar og VÍS), fær eigandi bifreiðar ekki tjón sitt bætt úr kaskótryggingu ökutækis þegar tjónið ber að með þessum hætti. Samkvæmt lögum um vátyggingarsamninga, nr. 30/2004, er meginreglan sú að óheimilt er að víkja frá ákvæðum þeirra með samningi, ef það leiðir til lakari stöðu þess einstaklings sem öðlast kröfu á hendur félaginu samkvæmt vátryggingarsamningi. Þegar lögin mæla hins vegar ekki fyrir um tiltekin atriði, eins og efni kaskótryggingar ökutækis, er tryggingafélögunum heimilt að semja um efni tryggingar og um leið takmarkanir á henni. Tryggingarfélögin geta því undanskilið sig ábyrgð á tjóni tryggingartaka  vegna þjófnaðar á dekkjum og felgum, að því tilskyldu að slíkar takmarkanir komi fram í skilmálum tryggingarinnar.

Oft getur umtalsverður kostnaður fylgt kaupum á dekkjum og felgum, og því er það bagalegt ef þessum hlutum er stolið og eigandinn þarf að sitja uppi með sárt ennið, svo ekki sé minnst á umtalsvert tjón.

Þar sem sumt tjón er sérstaklega undanskilið gildissviði trygginga og fæst því ekki bætt ef tjónið ber að með tilteknum hætti, vilja Neytendasamtökin hvetja neytendur til að vera á varðbergi og kynna sér til hlítar skilmála trygginganna.