Þórey S. Þórisdóttir

Þórey S. Þórisdóttir

Ágæti félagsmaður,

Ég hef brennandi áhuga á að taka þátt í því góða og öfluga starfi sem á sér stað innan Neytendasamtakanna. Markmið mitt með framboði til stjórnar samtakanna er að halda áfram að byggja upp það öfluga starf sem unnið hefur verið innan samtakanna og efla það enn frekar með góðri stefnumörkun og markaðshugsun. Það er óhætt að segja að samtökin hafa vaxið og dafnað undir góðri stjórn síðastliðinna ára og tel ég að með fjölgun félagsmanna, sé hægt að efla þau enn frekar. Það er mikilvægt fyrir neytendur að hafa þann góða stuðning og þá miklu þekkingu sem samtökin hafa upp á að bjóða sér í lagi í því hraða umhverfi, sem við búum við í dag. Netið er markaðssvæði þar sem hraðinn er mikill, neytendur fá miklar upplýsingar um vörur og þjónustu og persónulegri upplýsingaröflun neytenda er mun meiri en verið hefur.  Í dag hafa vel flestir aðgang að samfélagsmiðlun og auðvelt að koma upplýsingum á framfæri því tel ég  mikilvægt að þær upplýsingar séu réttar og að fylgst sé vel með þeirri þróunum. 

Ég er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, með meistaragráðu frá sama skóla í alþjóðaviðskiptum- og markaðsfræði ásamt diplómagráðu í góðir stjórnhættir viðurkenndir stjórnarmenn. Ég hef mikla stjórnunarreynslu og starfaði lengi á neytendamarkaði bæði við verslun og þjónustu. Í dag starfa ég sjálfstætt, rek eigið ráðgjafafyrirtæki og sé m.a um að veita ráðgjöf til einstaklinga og lítilla- og meðalstóra fyrirtækja. Ég hef mikinn áhuga á sjálfbærni fyrirtækja og stunda doktorsnám við Háskóla íslands þar sem ég skoða sjálfbærni erlendra fataframleiðenda í samanburði við íslenska framleiðendur. Þá starfa ég í viðskiptanefnd FKA og er meðstjórnandi í barna- og unglingaráði kk hjá knattspyrnufélaginu Haukar Hafnarfirði.

Neytendamál eru mér hugleikin, ég hef mikinn áhuga á að efla þekkingu neytenda svo þeir séu upplýstari um rétt sinn og hag þegar kemur að vali þeirra á vörum og þjónustu. Ég er lausnamiðuð og víðsýn og er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að taka þátt í að efla uppbyggingu samtakanna og til að auka neytendarétt og vernd á íslenskum markaði.