Þörf á aðstoð fyrir leigjendur

Miðvikudagur, 12. janúar 2011 - 16:15

Eftirfarandi erindi hefur verið sent til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra.  Í erindinu koma fram áhyggjur Neytendasamtakanna á stöðu leigjenda hér á landi enda eru engin hagsmunasamtök leigjenda starfandi og skortur er á leiðbeiningaþjónustu fyrir þennan hóp. Þessi málaflokkur fer ört vaxandi hjá leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna þó að í fæstum tilfellum sé um hreint neytendamál að ræða. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að styrkja þurfi leigumarkaðinn og gera hann að raunverulegum valkosti. En til að svo megi verða er mikilvægt að leigjendur eigi sér málsvara og geti leitað réttar síns. Neytendasamtökin eru tilbúin til að gera samkomulag við ráðuneytið um rekstur á slíkri þjónustu, eins og fram kemur í eftirfarandi bréfi:


Hr. Guðbjartur Hannesson
Velferðarráðuneytið
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu
150 Reykjavík

               Reykjavík, 10. janúar 2011.

Efni: Brýn þörf á leiðbeiningaþjónustu fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis.

Neytendasamtökin fagna því að hafin sé vinna við að móta heildstæða húsnæðisstefnu til framtíðar og fagna því jafnframt ef ætlunin er að gera húsaleigu hærra undir höfði sem valkosti á húsnæðismarkaði. Hins vegar telja samtökin brýnt að ítreka þá afstöðu sína að þörf sé á einhvers konar leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis.

Neytendasamtökin hafa lengi, og sér í lagi eftir að Leigjendasamtökin lögðu upp laupana, látið sig málefni leigjenda miklu varða. M.a. hafa samtökin gert kannanir á leiguverði og skrifað fjölda greina um málefni leigjenda á heimasíðu sína og í Neytendablaðið. Þá hafa starfsmenn samtakanna svarað fyrirspurnum sem berast um leigumál eftir bestu getu, og haft milligöngu í þeim deilumálum þar sem leigusali stundar leigustarfsemi í atvinnuskyni, þ.e. þegar um neytendamál er að ræða. 
Í nýútkominni ársskýrslu Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna kemur fram að á nýliðnu ári bárust 414 erindi eða fyrirspurnir frá leigjendum til samtakanna. Var þar um 90% aukningu frá fyrra ári að ræða. Af þessum tölum má ljóst vera að þörf leigjenda fyrir upplýsingar og leiðbeiningar er afar rík. Enn fremur er ljóst að leigjendur telja sér rétt að leita til samtakanna vegna deilna sem rísa milli þeirra og leigusala. Hins vegar er staða Neytendasamtakanna að þessu leyti erfið, en sjaldnast er um neytendamál að ræða, þar eð leigutaki og leigusali eru oftar en ekki báðir einstaklingar og hvorugur hefur atvinnu af leigustarfsemi.

 
Ljóst er að ef fyrirspurnir sem varða húsaleigusamninga verða áfram svo viðamikill hluti starfsemi Neytendasamtakanna (og telja má það öruggt ef svo fer sem horfir og leigumarkaðurinn fer áfram vaxandi) munu samtökin, að óbreyttu, ekki sjá sér fært að annast þær. Til þess að slíkt sé mögulegt þyrfti að koma til einhvers konar þjónustusamningur eða framlag frá ríkinu. Neytendasamtökin búa við þröngan kost fjárhagslega og ekki er réttlætanlegt að svo mikill tími og þar með fjármunir fari í að sinna málaflokki sem í raun er ekki beinlínis á verksviði samtakanna. Neyðist Neytendasamtökin til að láta af allri þjónustu við leigjendur virðist sem leigjendur eigi í raun ekki í nein önnur hús að venda.
Þrátt fyrir þann mikla fjölda sem leitar til Neytendasamtakanna má jafnframt telja að fjöldi fyrirspurna skili sér aldrei þar sem samtökin eru eins og áður sagði hvorki leigjendasamtök né kynnt sem slík. Þá má telja að opinberir aðilar sem fá fyrirspurnir frá leigjendum, eins og t.a.m. velferðarráðuneytið, eigi fáa kosti um það hvert eigi að beina leigjendum með fyrirspurnir sínar, enda í raun engum til að dreifa.
Neytendasamtökin ítreka því enn þá skoðun sína að brýnt sé að komið verði á fót formlegri leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu er aðstoði leigjendur, svari fyrirspurnum þeirra um lagalegan rétt sinn og hafi milligöngu í deilumálum. Neytendasamtökin lýsa sig reiðubúin til samstarfs við ráðuneyti yðar til að svo megi verða.
Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,

__________________________
Jóhannes Gunnarsson, formaður.