Tilkynning frá formanni Neytendasamtakanna vegna fullyrðinga ASÍ

Þriðjudagur, 6. desember 2016 - 15:45

 

ASÍ hefur svarað ummælum mínum, sem ég lét falla á Morgunvaktinni hjá Óðni Jónssyni á Rás 1 í gærmorgun, um að ég telji eðlilegt að Neytendasamtökin hafi með höndum verðlagskannanir fremur en ASÍ sem tengist helstu smásölukeðjum stjórnunarböndum í gegnum lífeyrissjóði landsins.

Ég vil byrja á að benda á að það er rangt hjá ASÍ að ég hafi haldið því fram að verðlagskannanir sambandsins væru óhlutlægar. Það gerði ég ekki. Ég tvítók að með orðum mínum væri ég einmitt ekki að halda því fram að neitt væri óeðlilegt við framkvæmd verðkannana hjá ASÍ. Það væri hins vegar óheppilegt vegna áðurgreindra stjórnunartengsla að ASÍ hefði framkvæmd þeirra með höndum, vegna þess að ekki væri nægilegt að framkvæmdin væri í lagi heldur þyrfti að vera hafið yfir allan vafa að engin hagsmunatengsl gætu haft áhrif á þær.

Komum við þá að þeirri fullyrðingu ASÍ að rangt sé hjá mér að ASÍ tengist stjórnum lífeyrissjóða þar sem ASÍ velji enga fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða. ASÍ velur ekki beint fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða heldur eru það aðildarfélög ASÍ sem það gera. Á þessu er bitamunur en ekki fjár. Þá bendir það til beinna tengsla og hagsmuna ASÍ af núverandi fyrirkomulagi við val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum að þegar fram kom tillaga á þingi ASÍ um að aðildarfélög ASÍ skuli ekki velja stjórnarmenn í lífeyrissjóðum til jafns við samtök atvinnulífsins, heldur skuli sjóðsfélagar sjálfir velja sína stjórnarmenn mætti sú tillaga mikilli andstöðu æðstu manna ASÍ. Forseti ASÍ talaði gegn tillögunni, sem bendir til þess að hann telji einhvern hag vera fyrir ASÍ af núverandi fyrirkomulagi, sem tryggir aðildarfélögum ASÍ helming stjórnarmanna í almennum lífeyrissjóðum.

Þá er rétt að benda á að ASÍ fær árlega 30 milljónir frá ríkinu, af fjárlagalið Forsætisráðuneytisins, til að sinna verðlagskönnunum. Mikilvægt er að slíkum fjármunum sé sem best varið í þágu neytenda og það er bjargföst trú mín að þeim könnum sé betur komið í höndum Neytendasamtakanna en ASÍ. Í því fellst ekki áfellisdómur yfir framkvæmd kannana hjá ASÍ eins og áður er vikið að. Neytendasamtökin lýsa vilja sínum til samstarfs við ASÍ og aðra um aðkoma verðkönnunarmálum í sem best horf til að gagn verði af fyrir neytendur í landinu og samkeppni, neytendum tilhagsbóta. Neytendasamtökin hafa átt ágætt samstarf við ASÍ í ýmsum málum og vonandi verður svo áfram.

 
 
Reykjavík, 6. desember 2016
 
f.h. Neytendasamtakanna
 
______________________
Ólafur Arnarson, formaður
 
 
 

Skjal með frétt: